Lagabreytingu á Alþingi þarf til að Eyþór Arnalds og Sjálfstæðisflokkurinn geti uppfyllt kosningaloforð sitt um afnám fasteignaskatts fyrir 70 ára og eldri í Reykjavíkurborg. Tekjulægri eldri borgarar eru nú þegar undanþegnir fasteignaskatti í Reykjavík, og því nýtist breytingin ekki þeim hópi. Loforðið nýtist einungis tekjuhærri eldri borgurum.
Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga er sveitarstjórnum eingöngu heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Engin heimild er fyrir því að lækka eða fella niður skattinn fyrir ákveðna aldurshópa eða gera slíkt óháð tekjum.
„Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða“ segir í lögunum. „Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis, svo sem um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af fasteignaskatti.“
Skattur nú þegar felldur niður til tekjulágra
Reykjavíkurborg veitir nú þegar afslátt eða undanþágu frá greiðslu fasteignaskatts, sé viðkomandi elli- eða örorkulífeyrisþegi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, t.d. þeim að viðkomandi eigi lögheimili í eigninni og hún sé til eigin nota. Einstaklingar með tekjur undir 3.910.000 kr. á ári og samskattaðir með tekjur allt að 5.450.000 kr. fá 100% lækkun á fasteignaskatti.
Þá fá einstaklingar með allt að 4.480.000 kr. og samskattaðir með tekjur að 6.060.000 kr. 80% lækkun á fasteignasköttum. Loks fá einstaklingar með allt að 5.210.000 kr. og samskattaðir með tekjur allt að 7.240.000 kr. 50% lækkun á fasteignasköttum. Tekjur dæmigerðs eldri borgara, á aldrinum 67 ára og eldri, eru rétt fyrir ofan miðgildistekjur íbúa á höfuðborgarsvæðinu, eða 5,3 milljónir króna á ári.
Athugasemdir