Ríkisstjórnin hyggst styrkja samstarf Íslands við Atlantshafsbandalagið (NATO) og gerir ráð fyrir umfangsmiklum heræfingum á Íslandi næstu árin. Þar ber hæst þátttaka í varnaræfingunni Trident Juncture sem fer fram næsta haust, en jafnframt er æfingin Dynamic Mongoose haldin á Íslandi annað hvert ár. Northern Viking æfingin verður einnig haldin hér annað hvert ár frá og með 2020 en auk þess tekur Ísland þátt í hinni árlegu Northern Challenge-æfingu NATO um varnir gegn hryðjuverkum.
Þetta kemur fram í kafla um stefnumótun á sviði utanríkismála í viðauka við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Vinstrihreyfingin grænt framboð er sá flokkur sem leiðir ríkisstjórnina, en allt frá stofnun hefur flokkurinn haft á stefnuskrá sinni að Ísland skuli standa utan allra hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu. „Binda á enda á hersetu í landinu og hverfa úr NATO. Útgjöldum íslenska ríkisins vegna varnarmáladeildar utanríkisráðuneytisins og þátttöku í NATO er betur varið til annarra þarfa samfélagsins,“ segir meðal annars í stefnunni sem Vinstri græn kynntu í aðdraganda síðustu þingkosninga. „Ekki á að leyfa heræfingar í landinu eða innan lögsögu þess.“
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir að „þjóðaröryggisstefna Íslands sem samþykkt var af Alþingi“ verði höfð að leiðarljósi næstu ár. Í umræddri stefnu, sem samþykkt var í formi þingsályktunar þann 13. apríl 2016, kemur fram að „Atlantshafsbandalagið verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja“. Þetta stangast á við stefnu Vinstri grænna, sem lagðist gegn þingsályktunartillögunni, en er í samræmi við stefnu flestra annarra flokka á Alþingi.
„Markvisst er unnið að því að tryggja varnir Íslands og styrkja samstarfið innan NATO. Rekstur varnarmannvirkja á öryggissvæðinu og starfræksla ratsjárkerfisins sem nær yfir umfangsmikið svæði á Norður-Atlantshafinu er veigamikill þáttur í framlagi Íslands til sameiginlegra varna NATO og fyrir dyrum stendur allnokkur endurnýjun á þeim kerfum og ýmis viðhaldsverkefni eru í farvatninu,“ segir í greinargerð fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar.
Flokksforysta Vinstri grænna þurfti að gefa eftir í andstöðu sinni við hernað og hernaðarbandalög þegar flokkurinn átti í ríkisstjórnarsamstarfi við Samfylkinguna á tímabilinu 2009 til 2013. Á þeim árum jukust framlög hins opinbera til Atlantshafsbandalagsins auk þess sem Ísland varð, sem eitt af aðildarríkjum NATO, óbeinn þátttakandi í hernaðaraðgerðum bandalagsins í Líbíu. Á þessum árum fór Samfylkingin með utanríkisráðuneytið auk þess sem mikill þingmeirihluti var og er enn fyrir áframhaldandi veru Íslands í NATO. Nú er Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, utanríkisráðherra ríkisstjórnar undir forsæti Vinstri grænna.
Athugasemdir