Til hvers er unnið?
Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, greinir reglulega íslenskt efnahagslíf og kemst stundum að niðurstöðu sem sýnir ríkjandi stefnu á Íslandi í undarlegu ljósi.
Ein af niðurstöðunum í fyrra var að íslensku óbyggðirnar væru svo mikil verðmæti að það ógnaði efnahagslífinu til lengri tíma ef þær yrðu ekki verndaðar fyrir svokallaðri „innviðauppbyggingu“. Stofnunin varaði við því að við eyðilegðum ósnortna náttúru – jafnvel svokölluð innviðauppbygging getur skemmt framtíðarhagsmuni okkar. Þetta er auðvitað í hróplegu ósamræmi við umræðu á Íslandi á fyrri hluta þessarar aldar, sem gekk út á að það væri svo efnahagslega mikilvægt að virkja sem mest, en að rökin gegn virkjunum væru tilfinningarök lattelepjandi miðbæjarrotta.
Svo er það hitt, að við þurfum að ná hámarksnýtingu út úr fólkinu, sem kallað er vinnuafl.
„Vinnan göfgar manninn,“ hefur verið íslenskt mottó. Íslenskt starfsfólk var lengi vel þekkt á Norðurlöndunum fyrir að leggja á sig meiri skítverk en aðrir.
Hámarksnýting fólksins hefur verið eins og hugmyndir okkar um nýtingu náttúrunnar. Það er að segja, að tíminn þar sem við erum ekki að vinna er ónýtur tími, rétt eins og óvirkjuð náttúra er eins og fé án hirðis.
Íslensk samfélagsumræða hefur gjarnan verið leidd af fulltrúum fjármagnsins og að segja okkur hvað er hagkvæmast. Stundum eru þær ráðleggingar hins vegar litaðar af tvennu: Skammtímagróða og þröngum hagsmunum.
Fórn fyrir atvinnurekanda
Þeir ætla sér ekki illt þegar þeir mæla gegn því að almenningur fái launahækkanir, en styðja að topparnir fái stökkbreytt laun, heldur trúa þeir því að þannig virki og vaxi efnahagslífið best og mest. Þannig lýsti til dæmis forstjóri ríkisfyrirtækisins Isavia, sem fékk 400 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum sínum í fyrra, yfir áhyggjum af „miklum launakröfum í kjarasamningum“.
Í nýjustu ársskýrslu OECD um Ísland kemur fram sú niðurstaða að af 38 ríkjum er Ísland í 33. sæti þegar kemur að samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs.
Raunveruleikinn er sá að á Íslandi taka atvinnurekendur meira af fjölskyldutíma almennings en í nánast öllum viðmiðunarríkjum okkar.
Þetta er í samræmi við niðurstöður OECD þegar kemur að vinnutíma. Íslendingur vinnur í hverri viku að meðaltali einum löngum vinnudegi lengur en Norðmaður, 9 tímum lengur.
Vinnuvikan var síðast stytt með lögum árið 1971, fyrir tæplega hálfri öld, úr 44 tímum í 40, þvert gegn viðvörunum atvinnurekenda um efnahagslegan skaða. Á þeim tíma sem er liðinn hefur atvinnuþátttaka kvenna stóraukist, og þar með heildarvinnuframlag foreldra. Fyrir tæpum hundrað árum þurfti að berjast fyrir því að sjómenn fengju sex tíma hvíld frá vinnu á sólarhring, þannig að þeir þyrftu ekki að vinna sleitulaust sólarhringunum saman, með tilheyrandi skaða fyrir skammtímagróða. Þá var frumvarp um lögbundinn átta klukkutíma hvíldartíma á sólarhring fellt á þinginu.
Snúið út úr orðum starfsfólks
Nú þegar fram hafa komið hugmyndir um að stytta lögbundna vinnuviku á Íslandi í 35 tíma úr 40 hafa viðbrögð forsvarsmanns atvinnurekenda, sem taka yfir 50 daga aukalega af þér og fjölskyldu þinni á hverju ári samkvæmt tölum OECD, verið að snúa út úr umræðunni og gera lítið úr vitsmunum þeirra sem vinna fyrir þá.
„Þar til við myndum öll hætta að vinna og samkvæmt þessari kenningu yrði framleiðnin þá óendanleg.“
„Ef lífið væri svo einfalt að við gætum aukið framleiðni með því einu að stytta alltaf vinnutímann þá væri það eitthvað sem við myndum gera í sífellu,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og hélt áfram með tilgátuna: „Þar til við myndum öll hætta að vinna og samkvæmt þessari kenningu yrði framleiðnin þá óendanleg. Þannig er það að sjálfsögðu ekki.“
Aðferðin sem Halldór beitir þarna er áþekk þekktri áróðursaðferð, svokallaðri slippery-slope-rökvillunaðar út í hið óendanlega.
Með þeirri aðferð er algerlega horft fram hjá því að hæfilegur vinnutími til að hámarka árangur af vinnu í nútíma, út frá aðstæðum og færni meðalmanneskju til að beita sér, kunni að vera 6 tímar á dag, en ekki 8 tímar eða meira. Til dæmis að hugur fólks, sköpunargáfa og einbeiting virki illa og tærist ef vinnan er meiri en X.
Í viðtali við Kveik í Ríkissjónvarpinu í vikunni sagði Halldór Benjamín síðan að „raunveruleikinn“ virkaði ekki þannig að hægt væri að auka framleiðni með „pennastriki“.
Forsvarsmaður Samtaka atvinnulífsins hefur haldið því fram að það þurfi einfaldlega að semja um skemmri vinnutíma í kjarasamningum, frekar en að stytta vinntíma með lögum. En það ætti að vera ljóst að það eru ekki starfsmennirnir sem biðja um að fá að vinna meira, heldur vilja atvinnurekendur, sem hann talar fyrir, ekki innleiða minni vinnu nema með skertum tekjum, í landi þar sem ríkasta 0,1 prósent íbúanna hefur aukið hlutdeild sína í heildartekjum landsmanna um 72 prósent á fimm árum, fyrir utan aflandseignir.
Sjónarhóll atvinnurekenda sneiðir líka fram hjá frelsi einstaklingsins og heildarframleiðni samfélaga til langs tíma.
Er réttlátt að við eftirlátum fjármagnseigendum – þeim sem reka fyrirtæki – helming af vökutíma okkar á hverjum venjulegum sólarhring og meirihluta orku okkar? Á sama tíma og fjölskyldutíma og sálrænni velferð er fórnað á móti.
Þetta er síðan ekki bara spurning um þægindi eða lífshamingju, heldur langtímaárangurog samkeppnisfærni samfélagsins.
Geðlyf og námsárangur
Rannsóknir hafa sýnt að lykillinn að góðum námsárangri og heilbrigðum lífsstíl barna og ungmenna liggur að stórum hluta í góðu og miklu sambandi við foreldra.
Niðurstaða OECD er sú að Íslendingar setja minni orku í fjölskylduna en flestar aðrar þjóðir. Þegar kemur að jafnvægi vinnu og einkalífs erum við Pólland, Rússland og Lettland, en ekki Noregur, Danmörk og Þýskaland. Niðurstöður Pisa-kannana sýna síðan slæman námsárangur íslenskra barna í alþjóðlegu tilliti.
Samhliða því að vera með einna bjagaðasta jafnvægi vinnu og fjölskyldulífs í öllum viðmiðunarlöndum okkar er notkun okkar á geðlyfjum í algerum sérflokki. Við, umfram alla aðra, leysum djúpstæð, geðræn vandamál fólks með hröðum skyndilausnum í pilluformi.
Kostnaðurinn af vinnunni
Skerðing tíma fyrir fjölskyldulíf og sjálfsrækt, í þágu atvinnurekenda, hefur afleiðingar. Þekking okkar bendir nokkurn veginn öll á sama veg, eins og kemur fram í ítarlegri skýrslu um hagi og líðan grunnskólanema í Reykjavík:
„Rannsóknir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum og áratugum benda til þess að tengsl unglinga við foreldra sína og fjölskyldu skipti miklu máli fyrir þróun og þroska þeirra, sem og samverustundir fjölskyldunnar. Foreldrar eru ungu fólki mikilvægar og sterkar fyrirmyndir og eru lykilaðilar í félagslegu stuðningsneti þeirra. Rannsóknir hafa til dæmis sýnt að aðhald, eftirlit og stuðningur foreldra hefur jákvæð áhrif á námsárangur ungmenna og að þeir unglingar sem verja miklum tíma með foreldrum sínum og/eða eru vel tengdir þeim eru ólíklegri en aðrir unglingar til að leiðast út í notkun vímuefna lendi þeir í félagsskap þar sem vímuefnaneysla er algeng. Þess utan eru unglingar sem eiga stöðug og jákvæð samskipti við foreldra sína, og fá mikinn stuðning frá þeim, líklegri til að ganga vel í skóla og eignast vini þar sem svipað samskiptamynstur er upp á teningnum.“
Handan excel-skjalsins
Það undirbyggir meiri mannauð að auka tækifæri foreldra og barna til samverustunda. En það kemur ekki fram í excel-skjali atvinnurekandans, því hann metur gjarnan hlutverk sitt að gæta hagsmuna hluthafa og fyrirtækis síns frekar en samfélagsins í heild.
Það er ekki án kostnaðar sem við beinum okkar orku og tíma meira í þágu atvinnurekenda en aðrar þjóðir. Orsakasamhengið bendir til þess að við fórnum framtíðinni.
Mikil geðlyfjanotkun Íslendinga og slæmur námsárangur íslenskra skólabarna er hluti af þessu orsakasamhengi. Með aukinni tæknivæðingu reynir á aðra getu en áður og við munum þurfa, sem einstaklingar, að uppfæra stöðugt færni okkar. Við erum ekki hestar, þótt sumir kalli sig með stolti „vinnuhesta“. Þrúgandi vinnutími göfgar okkur ekki, heldur takmarkar færni okkar og hindrar samkeppnishæfni okkar sem einstaklinga til lengri tíma, og grefur undan íslenskum mannauði með margvíslegum hætti.
Boðskapurinn að ofan
Tveir síðustu forsætisráðherrar hafa gefið skýr fordæmi um vinnutíma og viðhorf til vinnu.
Bjarni Benediktsson greindi frá þeirri skoðun sinni í kosningamyndbandi fyrir alþingiskosningarnar 2016 að hann tryði því að síðasti vinnutíminn á hverjum vinnudegi skilaði litlu. Hann færi frekar fyrr heim úr vinnunni en að leggja á sig aukavinnuna.
Annar áberandi stjórnmálamaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, kaus að sniðganga skyldur sínar og mætti ekki til vinnu á Alþingi svo mánuðum skipti, eftir að hann missti valdastöðu sína sem forsætisráðherra. Hann vildi ekki mæta til vinnu nema á sínum eigin forsendum, ekki einu sinni á nefndarfundi sem hann hafði sérstaklega verið kjörinn til. Og þá sjaldan að hann mætti, mætti hann seint.
Þegar stjórnmálamenn og atvinnurekendur tala um há laun íslenskra launþega í alþjóðlegum samanburði minnast þeir ekki á að mun fleiri vinnutímar eru að baki þessari vinnu hjá Íslendingnum. Þannig hefur verið búin til ákveðin goðsögn um velsæld sem hefur þann tilgang að draga úr kröfum fólks um bætt kjör. Á sama tíma og þeir tala um frelsi og framleiðni, horfa þeir framhjá mikilvægi frelsis einstaklingsins og langtímaframleiðni samfélagsins í krafti heilbrigðs mannauðs.
Athugasemdir