Ég þáði á sínum tíma dýrmæta fjárhagsaðstoð Félagsmálastofnunar Reyjavíkurborgar, til ungmenna sem hafa ekki bakland til að fjármagna nám sitt. Ég fékk sem sagt námsstyrk og lauk stúdentsprófi 23 ára gömul, þá einstæð móðir. Þessi tími einkenndist af gríðarlega miklu basli. Ég hef aldrei verið eins fátæk. Námið kláraði ég þó þökk sé dásamlegum félagsráðgjöfum Reykjavíkurborgar. Ef ég hefði ekki fengið þessa aðstoð er á hreinu að örlög mín, sem og barnanna minna, hefðu orðið allt önnur en raun ber vitni. Vil ég nýta tækifærið núna og segja takk.
Nemendum er kennt að nám sé framtíðin, (með áherslu á bóknám, ræðum það svo síðar hversu bjagað það er), en á sama tíma er ekki séð til þess að allir nemendur hafi aðgengi að námi eftir grunnskóla, það er nefnilega því miður ekki svo að nám sé ókeypis. Jafnvel þó námsgjöld og allur tilfallandi kostnaður við nám, svo sem bækur og annað námsefni, yrðu ókeypis, þá kostar samt sem áður að vera til á meðan á námi stendur. Fólk sem nær nú þegar ekki endum saman, er ólíklegt til að leggja til hliðar þau laun sem þau hafa til að verða ólaunuð í þann tíma sem nám tekur.
Aðgengi
Þetta orð, aðgengi, er orð dagsins. Aðgengi fyrir þá sem eru í hjólastólum, aðgengi að upplýsingum, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að öruggu húsnæði, aðgengi að námi, aðgengi að fæðu. Aðgengi er forsenda fyrir tækifærum sem og mannréttindum okkar. Aðgengi eða skortur á því eru nefnilega ekki alltaf áþreifanleg hugtök og getur stéttarstaða manneskju auðveldlega hindrað hana í aðgengi að tækifærum eins og til dæmis námi.
Hvað geta borgarfulltrúar gert?
Í grunnstefnu Pírata um borgararéttindi segir:
2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.
Píratar vilja koma á borgaralaunum, með þeim væri ekki þörf á að skrifa þessa grein. En það er heldur hæpið að borgarfulltrúar geti komið þeim á, en þó ekki ógerlegt. Það eru hins vegar til úrræði sem borgarfulltrúar geta unnið með. Hér er auðvitað átt við fyrrnefndan námsstyrk, en um hann má lesa hér, í 4. kafla 18. gr.
Námsstyrkurinn, líkt og sá er ég naut, er að mati margra eitt besta stuðningsúrræði sem borgin býr yfir. Fjöldi félagsráðgjafa innan og utan borgarinnar eru þessarar skoðunar.
Styrkumgjörðin er hins vegar heldur úrelt, og þar ber helst að nefna aldurstakmark styrkþega. Í dag er styrkurinn einungis veittur þeim sem eru á aldrinum 18-24 ára, en það er ljóst að þeir sem eru 25 ára og eldri þurfa líka stuðning á meðan á námi stendur, enda á sá aldurshópur á hættu að festast í fátæktargildru ef þeir geta ekki menntað sig.
Með því að uppfæra námsstyrkinn, myndi Reykjavíkurborg leggja sitt af mörkum við að koma í veg fyrir brottfall nemenda úr framhaldsskólum og um leið að hleypa fólki sem er eldra en 24 ára, aftur að námi. Á síðustu haustönn hættu rúmlega 750 nemendur í námi, þar af 141 vegna andlegra veikinda. Augljóst er að fjármagn þarf til, til bæði framhaldsskólanna jafnt sem háskólanna, til að sporna gegn þessu.
Það er tilefni til að skoða hvaða áhrifavaldar lágu að baki námsbrottfalli þeirra rúmlega 600 nemenda sem ekki glíma við andleg veikindi. Er ástæðan einmitt sú að skortur er á aðgengi að námi? Gera má ráð fyrir að ástæðan sé að hluta til fjárhagsleg. Framhaldsskólinn hefur verið styttur um eitt ár, en þó er ætlast til þess að nemendur skili sömu vinnu á styttri tíma, en starfi auk þess meðfram náminu til að hafa tekjur.
Endurskoðum reglurnar
Til að byrja með, burt með aldursþakið. Miðað við hversu miklu er áorkað með því að koma fólki í gegnum lífið með aukinni menntun, sætir það furðu að við séum ekki að gera allt sem hægt er til að halda nemendum í námi. Mikil áhersla er lögð á að umsækjandi búi við félagslegar erfiðar aðstæður en minni áhersla á að hætta sé á, að án aðstoðarinnar muni umsækjandi flosna uppúr námi, þó svo að það sé talið upp. Upphæð styrksins er svo ekki í samræmi við framfærslukostnað, en hún er rétt um 190.000 kr. á mánuði (skv. 11. gr. um grunnfjárhæð). Staðan á styrknum í dag er sú að ekki er nóg að umsækjandi hafi möguleika á styrknum, heldur nýtist hann ekki nema sama manneskjan komist í verulega ódýrt húsnæði. En meira að segja þá býr viðkomandi við fátækt, sem veldur kvíða og er þá sú hætta fyrir hendi að ekki takist honum að sinna náminu að fullu.
Þessu viljum við Píratar breyta og tryggja það að allir hafi aðgengi að námi!
Höfundur er frambjóðandi í oddvitasæti Pírata í Reykjavík.
Athugasemdir