Á Íslandi eru þingmenn þeir hæstlaunuðu af öllum Norðurlöndunum og nokkrum nágrannalöndum. Á Íslandi eru kennarar lægstlaunaðir af öllum Norðurlöndunum og fleiri löndum sem Íslendingar vilja bera sig saman við.
Kröfur samfélagsins og foreldra til skólakerfisins og kennara minnka samt engan veginn í hlutfall við það hvernig launakjör kennara dragast á eftir kollegum þeirra í öðrum löndum eða fagfólki í öðrum stéttum. Ekki má tala lengur um skólann sem menntastofnun hann er að verða þjónustustofnun kannski nokkurs konar geymsla fyrir börn og unglinga á meðan foreldrarnir reyna að halda takti í vísitölu og verðtryggingarsamfélaginu.
Á sama tíma og verið er að leggja áherslu á þjónustuþætti grunnskólans, hann á að bjóða nemendum mat og kennslu í kurteisi, góðum siðum og aga, ekki síður en stærðfræði, tónmennt og íslensku (og geyma yngri nemendur helst til kvölds) er lagður samningur fyrir kennara þar sem mikil áhersla er lögð á menntunarstig kennarana. Á sama tíma er grunnskólinn að fyllast af leiðbeinendum, ófaglærðu starfsfólki, sem er góð lausn fyrir sveitarstjórnir í því kennarahallæri sem skapast hefur. Það er mikil pressa á kennara að vera vel menntaðir og með hátt menntunarstig á meðan það er lítil pressa á launakjör kennara. Kennurum er boðin samningur með 3% hækkun, sem var felldur með tæplega 80% meirihluta. Fráfarandi formaður, sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd grunnskólakennara, kemur síðan í fjölmiðla og ásakar tvo nýkjörna trúnaðarmenn, sem eru framsóknarmenn, um mikinn áróður og undiröldu gegn samningnum og af þeim sökum hafi samningurinn verið felldur. Þess má geta að nýkjörinn formaður tekur við keflinu í maí sem er mikill léttir fyrir marga stéttarfélaga grunnskólakennara, sem líður eins og þeir séu illa sviknir af sitjandi formanni.
Kennarar innan grunnskólanna, sem hafa samfélag menntunar barna og ungmenna á herðum sér fást við ólík vandamál á hverjum degi og eru undir talsverðu álagi, vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Fráfarandi formaður stígur fram í fjölmiðlum og lýsir þeim eins og höfuðlausum hirðingjum sem hlaupa á eftir einhvers konar pólitískum áróðri. Það ríkir sorg og vonleysi á meðal grunnskólakennara vegna þessarar tillitslausu framkomu og því áreiti sem því fylgir að vera með formann, sem talar svona niður til þeirra og fyrir þá fyrir framan alþjóð. Fyrir utan það dugar þessi 3% hækkun sem að þeim er rétt kannski fyrir einni Bónusferð, eða varla það, því um er að ræða að meðaltali heilar 10.000 kr. í launaumslagið.
„Ég hvet ykkur til að sjá sóma ykkar í að bjóða ekki kennurum upp á brauðmola og börnunum ykkar upp á úrvinda, vonlausa og sorgmædda kennara á einu mesta velmegunartímabili Íslandssögunnar.“
Sjálfstæðisflokkurinn lýsti því yfir á nýafstöðnu landsþingi að hann vildi bæta hlut ungra drengja í skólakerfinu. Þetta er vissulega göfugt markmið og kemur ef til vill sér í lagi til út af því að þeir virðast ginkeyptari fyrir snjalltækja og tölvuleikjaöldunni sem ríður yfir ungmennin og samfélagið allt með aukinni tæknivæðingu en stúlkurnar, svo þeir týnast sumir í „cyberspace“ tölvuleikjanna. Það er samt vissulega mikilvægt að sjálfstæðismenn og allir aðrir stjórnmálamenn, sér í lagi sveitarstjórnarmenn, sem fráfarandi formaður nefnir ekki einu orði í viðtölum þar sem hann er spurður út í af hverju samningurinn hafi verið svona kolfelldur, geri sér grein fyrir þeirri grafalvarlegu staðreynd að við erum að horfa fram á fall grunnskólakerfisins, ef ekkert verður að gert. Við erum að horfa fram á hnignun í menntun ekki bara ungra drengja, heldur allra barna og ungmenna, vegna atgervisflótta úr kennarastéttinni. Í þessum rituðu orðum eru fleiri kennarar og hafa verið síðustu daga að segja stöðum sínum lausum, því þeir geta ekki hugsað sér að starfa í umhverfi þar sem margir tala niður til þeirra, jafnvel þeirra eigin sitjandi formaður og sumir fjölmiðlar taka undir þann blekkingarsöng gagnrýnislaust. Er ekki kominn tími til að upphefja menntun í landinu, veita kennurum kjör í samræmi við störf sín og álag þeirra, er ekki kominn tími til að hugsa betur um nemendurna, börnin og skólana með því að halda sérþekkingunni sem margir kennarar hafa aflað sér í mörg ár inni í kerfinu, í stað þess að missa sífellt fleiri útúr því. Það er ekki að fara að rugga stöðugleika í samfélaginu þó að bætt verði í grunnstoðirnar. Til lengri og jafnvel skemmri tíma litið mun stöðugleikinn aðeins aukast. Stöðugleikinn mun hins vegar hrynja með ófyrirséðum afleiðingum, ef stýrandi öfl fara ekki að taka í taumana.
Í leikskólum landsins er sá veruleiki að verða daglegt brauð að loka þarf deildum og vísa nemendum frá vegna manneklu. Mannekluna má fyrst og fremst rekja til þess að starfsfólkinu eru ekki greidd mannsæmandi laun, svo stofnanirnar eru undirmannaðar, við það eykst álagið á hvern og einn margfalt svo þeir fáu sem standa vörð úti á akrinum stráfalla í veikindum og undan ýmiss konar álagi.
Erlend vinkona mín var í heimsókn hjá mér um daginn og við ræddum skólamál og fleira varðandi umönnun og uppfræðslu barna og ungmenna. Hún kemur frá Noregi og þar sagði hún að allt sem snýr að umönnun barna er bara heilagt og því er sýnd dýpsta virðing. Kennarar og leikskólakennarar þar eru þokkalega vel launaðir miðað við aðrar stéttir og miklu hærri en íslenskir kennarar. Hún spurði mig þessarar spurningar: „Hugsa Íslendingar svona illa um börnin sín?“
Ég beini henni beint áfram til sveitarstjórnarmanna: „ Hugsið þið svona illa um börnin ykkar, sveitarstjórnarmenn?“ Ég hvet ykkur til að sjá sóma ykkar í að bjóða ekki kennurum upp á brauðmola og börnunum ykkar upp á úrvinda, vonlausa og sorgmædda kennara á einu mesta velmegunartímabili Íslandssögunnar. Ég hvet ykkur til að bjóða kennurum landsins og nemendum landsins upp á stöðugleika og kjör sem laða að nýja kennara og að minnsta kosti hluta þeirra fjölmörgu kennara með mikla sérþekkingu sem eru tapaðir menntakerfinu og snúnir til annarra starfa. Ég hvet ykkur til að sýna sjálfum ykkur og samfélaginu sem þið búið í virðingu og hugsa um börnin og framtíð landsins sem þekkingarsamfélags og menntaðs ríkis og hætta þessu niðurbroti í skjóli einhvers konar stöðugleika-blekkingarþvælu STRAX. Komandi kynslóðir eiga annað hvort eftir að njóta ávaxta gjörða ykkar, eða niðurbrots aðgerðarleysis ykkar, ykkar er valið.
#íslenskaþekkingarsamfélagiðeðaíslenskablekkingarsamfélagið
Athugasemdir