Verði landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um samdrátt í útgjöldum hins opinbera að veruleika þýddi það að Ísland yrði á pari við lönd eins og Litháen og Rússland þegar kæmi að útgjöldum sem hlutfalli af landsframleiðslu. Í ályktuninni segir að stefnt skuli að því að „útgjöld hins opinbera verði ekki hærri en 35% af landsframleiðslu.“ Útgjöld hins opinbera voru árið 2017 41,9 prósent af landsframleiðslu. Því þyrfti að skera niður útgjöld um tæp 16,5 prósent frá því sem nú er til að ná því markmiði.
Ef landsfundarályktuninni yrði framfylgt myndi Ísland fjarlægjast Norðurlöndin verulega en árið 2015 voru sambærilegar tölur þar á bilinu 49 til 57 prósent af landsframleiðslu. Nú um stundir eru útgjöld Íslands á svipuðum slóðum og er í Bretlandi og í Þýskalandi.
Öflug velferðarþjónusta kostar fjármuni
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrir síðustu kosningar lofað milljarða uppbyggingu í innviði samfélagsins. Það skjóti því skökku við að boða bæði skattalækkanir og að draga skuli úr ríkisútgjöldum á sama tíma. „Ég held að það sé mun skynsamlegra að skilgreina það samfélag sem við viljum búa í, og skilgreina þá þjónustu sem þarf að veita í því samhengi. Ég horfi til Norðurlandanna í þeim efnum og vil að við höldum úti öflugu velferðarkerfi, sterku heilbrigðiskerfi og gerum vel við aldraða. Þetta kostar fjármuni og þó að við í Viðreisn viljum sýna aðhald í ríkisrekstri þá setjum við ekki kíkinn fyrir blinda augað hvað það varðar að öflug velferðarþjónusta, hún kostar aukin útgjöld. Sjálfstæðismenn lofuðu 100 milljörðum í innviðauppbyggingu fyrir síðustu kosningar. Að ætla að lækka skatta á sama tíma gengur ekki upp. Mestu skiptir að sýna skynsemi, að halda áfram að lækka skuldir ríkissjóðs en á sama tíma að byggja upp velferðarkerfið.“
„Þetta gengur augljóslega ekki upp“
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, segir að ef ályktunin kæmi til framkvæmda þýddi það að horfið yrði frá því að hér á landi væri haldið uppi velferðarsamfélagi. „Þetta þýðir bara að þau hyggjast skera niður velferðarkerfið. Stærstur hluti ríkisútgjalda fer í heilbrigðisþjónustu og aðra velferðarþjónustu í landinu. Ef á að skera niður í útgjöldum verður að skera niður í velferðarkerfinu, við værum að hverfa frá því að hér sé haldið uppi velferðarsamfélagi.“
Oddný segir að ályktun sem þessi sé áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag. „Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar í raun og veru að feta þessa slóð þá mun það skekja íslenskt samfélag og veikja það. Þetta þýðir 250 milljarða króna niðurskurður. Á sama tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn lofað skattalækkunum en einnig innviðaupbyggingu. Þetta gengur augljóslega ekki upp. Það vekur líka athygli að þessi stefna er í algjörri andstöðu við það sem samstarfsflokkurinn Vinstri græn hafa sett fram. Satt að segja get ég ekki séð hvernig efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og velferðarstefna ganga saman.“
Starfa bara eftir stefnuyfirlýsingu
Kolbeinn Óttarsson Proppé, varaformaður þingflokks Vinstri grænna, segir að þar á bæ sé fólk fullkomlega ósammála stefnu samstarfsflokksins, þegar hann er spurður um viðbrögð sín við ályktun Sjálfstæðisflokksins. „Þetta eru tveir ólíkir flokkar og það á ekki koma neinum á óvart að við höfum ólíka stefnu í þessum málum. Í sjálfu sér eru engin sérstök viðbrögð við þessu af minni hálfu, þetta er þeirra stefna en ég er hjartanlega ósammála henni.“
Kolbeinn bendir á að flokkarnir þrír sem mynda ríkisstjórnina hafi komist að samkomulagi um stefnuáherslur og ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins breyti engu í þeim efnum. „Eftir stefnuyfirlýsingunni störfum við. Hver flokkur getur haft sína stefnu en í stefnuyfirlýsingunni felst að hverju við ætlum að vinna næstu árin.“
Athugasemdir