Ef fjármálastefna Sjálfstæðisflokksins sem samþykkt var á landsfundi um helgina kæmi til framkvæmda tæki íslensk samfélagsgerð stakkaskiptum. Ísland myndi færast órafjarri Norðurlöndunum, lengra til hægri en Bandaríkin, Bretland og Þýskaland, og sverja sig í ætt við Búlgaríu, Litháen, Rússland, Lettland og Rúmeníu að því er varðar ríkisfjármál og hlutverk hins opinbera. Þetta er niðurstaðan ef landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins eru teknar alvarlega og sú stefna borin saman við tölur OECD og Eurostat um útgjöld ríkja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
Landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins hafa lítið vægi í raunveruleikanum. Mér er til efs að þingmenn flokksins hirði um að lesa þær. Það er engu að síður ómaksins vert að skoða aðeins þá framtíðarsýn sem þar birtist, enda er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur landsins og fer með fjármálaráðuneytið í ríkisstjórn Íslands.
Samkvæmt ályktun fjárlaganefndar flokksins er stefnt að því að útgjöld hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði skorin niður um 22 prósent á næstu sjö árum, úr 45 prósentum niður í 35 prósent.
Þetta kallast á við róttæka skattastefnu efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins, þar sem lagt er til að samtala útsvars og tekjuskatts einstaklinga – sem nú er 36.94% af tekjum upp í 893.713 kr. og 46,24% af tekjum þar yfir – verði komin niður í 25 prósent árið 2025.
Ímyndum okkur að yfirlýstri ríkisfjármálastefnu Sjálfstæðisflokksins yrði hrint í framkvæmd og lítum á stærðirnar sem um er að tefla út frá nýjustu tölum Hagstofunnar um sundurliðuð heildarútgjöld hins opinbera frá 2016.
(Vissulega mun hagkerfið stækka á tímabilinu 2016 til 2025 svo núverandi ríkisútgjöld væru smærri hluti landsframleiðslunnar á síðari hluta tímabilsins. Aukning landsframleiðslu helst þó í hendur við fjölgun landsmanna sem kallar á útgjaldaaukningu hins opinbera. Þar að auki mun þjóðin eldast með tilheyrandi álagi á heilbrigðis- og velferðarkerfið.)
Ef heilbrigðis- og velferðarkerfinu yrði alfarið hlíft mætti ná markmiðinu um 22 prósenta niðurskurð með því að skera niður ríkisútgjöld til allra annarra málaflokka um sirka 40 prósent.
Önnur leið væri að endurskoða hlutverk ríkisins frá grunni. „Ætti hið opinbera nokkuð að vera að vasast í menningarstarfsemi, listamannastyrkjum, kirkjuhaldi, íþrótta- og tómstundamálum og fjölmiðlarekstri?“ gæti frjálshyggjusinnaður fjármálaráðherra spurt.
En jafnvel þótt Ríkisútvarpið yrði lagt niður, allir styrkir hins opinbera til lista, menningar, íþrótta- og tómstundastarfs aflagðir og Þjóðkirkjan tekin af fjárlögum, þá dygði slíkt aðeins fyrir þriðjungi þess niðurskurðar sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar ef miðað er við hlutfall útgjaldaflokka af vergri landsframleiðslu árið 2016. Jafnvel þótt allt opinbera heilbrigðiskerfið yrði lagt niður og öll löggæsla og öll fangelsi á landinu einkavædd dygði það ekki til að svara kalli landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Samkvæmt nýjustu tölum OECD er Ísland nú þegar það ríki á Norðurlöndunum sem er með lægstu ríkisútgjöldin sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Á Íslandi er hlutfallið 45 prósent, á pari við Þýskaland og Bretland, en Svíþjóð, Noregur, Danmörk og Finnland eru um og yfir 50 prósentum.
Aðeins örfá ríki í Evrópu eru með ríkisútgjöld í kringum 35 prósent af vergri landsframleiðslu, en þau eru flest í Austur-Evrópu og með miklu takmarkaðra velferðarkerfi og veikari innviði en gerð hefur verið krafa um hér á landi og í ríkjum sem við berum okkur venjulega saman við. Það gefur auga leið að ef stefna Sjálfstæðisflokksins á sviði opinberra fjármála yrði að veruleika þyrfti að eiga sér stað róttækur uppskurður á íslensku samfélagi eins og við þekkjum það.
Fyrir þingkosningarnar 2016 sagði Bjarni Benediktsson að fyrsta kosningamál Sjálfstæðisflokksins yrði að „standa gegn kerfisbreytingum“. Þegar kemur að stóru spurningunum um hlutverk og ábyrgð hins opinbera boðar hins vegar enginn íslenskur stjórnmálaflokkur jafn róttækar kerfisbreytingar og Sjálfstæðisflokkurinn. Sú harða og afturhaldssinnaða hægristefna er ósamrýmanleg samfélagsgerðinni sem ríkt hefur sátt um á Norðurlöndunum og í Vestur-Evrópu.
Athugasemdir