Hálfur lítri af kranabjór á veitingastað er dýrastur á Íslandi af öllum löndum heims. Þetta kemur fram á vefnum Numbeo, þar sem verðlag og ýmis önnur tölfræði er borin saman milli landa.
Samkvæmt síðunni kostar hálfur lítri af innlendum kranabjór 1.100 kr. á íslenskum veitingastöðum. Næst á eftir Íslandi koma Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmin, en bæði þessara ríkja framfylgja harðri áfengislöggjöf, enda áfengi bannað samkvæmt lögum Kóransins, helgirits múslima. Því næst koma Norðurlöndin, Sviss, Singapúr og Ísrael. Ódýrastur er bjórinn í Venesúela, Úkraínu og Íran, en það síðastnefnda skýtur skökku við, enda áfengi með öllu ólöglegt þar í landi.
Áfengisgjöld á Íslandi eru með þeim hæstu í Evrópu, en hlutur ríkisins er töluverður vegna áfengisgjalds, virðisaukaskatts, skilagjalds og framlegðar ÁTVR. Áfengisgjöld hafa hækkað töluvert undanfarin ár og leggjast þau hlutfallslega þyngra á sterkt áfengi en bjór og léttvín, þar sem miðað er við áfengisprósentu.
Athugasemdir