Áætlaður kostnaður vegna samstarfssamnings utanríkisráðuneytisins við Samtök atvinnulífsins er 200 þúsund krónur á mánuði, eða 2,4 milljónir á samningstímanum. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar um málið.
Fram kom í fréttatilkynningu þann 26. janúar síðastliðinn að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefðu undirritað samning um samstarf stjórnvalda og SA um eflingu þjónustu við útflutnings- og markaðsmál íslenskra fyrirtækja í þeim tilgangi að „auka slagkraft þeirra á erlendum mörkuðum“.
Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur og sérfræðingur á samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins, mun gegna hlutverki erindreka um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar.
Stundin fékk samninginn afhentan frá utanríkisráðuneytinu á grundvelli upplýsingalaga, en hann má sjá í heild hér að neðan:
Samningur utanríkisráðuneytisins við Samtök atvinnulífsins bar á góma í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag. „Ég tel það mikið fagnaðarefni að ætlunin er að auka og styrkja utanríkisviðskiptaþjónustu okkar Íslendinga og einnig það að hæstvirtur utanríkisráðherra hefur skrifað undir samkomulag, m.a. við Samtök atvinnulífsins, í þá veru að fela þeim ákveðin verkefni, ákveðna ráðgjöf og fleira sem tengist því að efla utanríkisviðskiptaþjónustuna,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. „Ég tel þetta mikið fagnaðarefni. Auðvitað vakna samt ákveðnar spurningar um það hvaða stefnu ríkisstjórnin hefur mótað í þessa veru.“ Þá beindi hún nokkrum spurningum til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra:
„Ætlar ríkisstjórnin að fela önnur verkefni á sviði utanríkisviðskiptaþjónustu og utanríkisþjónustu einkaaðilum? Er það stefna ríkisstjórnarinnar? Ég mun ekki fara mjög gegn því en ég vil bara fá svar um skýra stefnu. Er ætlunin að leita til annarra hagsmunaaðila en Samtaka atvinnulífsins sem eru mjög öflug samtök? Ég þekki það mjög vel eftir að hafa starfað þar í þrjú ár. Mun ríkisstjórnin stefna að því að leita til annarra hagsmunaaðila eins og ASÍ eða einkaaðila hvað varðar það að efla utanríkisviðskiptaþjónustuna sem við viljum öll gera?“
Þá spurði hún hvort forsætisráðherra væri fylgjandi því „að færa aukin verkefni ráðuneytanna, eins og utanríkisráðuneytisins, til hagsmunaaðila, til einkaaðila úti í bæ, sem eru öflugir“. Katrín Jakobsdóttir nefndi í svari sínu að sjálf hefði hún setið í ríkisstjórn þegar Íslandsstofa var sett á fót með það fyrir augum að efla samstarf ólíkra hagsmunaaðila og stjórnvalda um utanríkisviðskipti. Hún liti ekki svo á að með samningum á borð við þann sem gerður var við Samtök atvinnulífsins væri verið að færa utanríkisþjónustu í hendur einkaaðila heldur væri einvörðungu verið að fela einkaaðilum tiltekin verkefni og stuðla að heillavænlegu samstarfi við atvinnulífið. Þorgerður Katrín fagnaði þessum svörum.
Athugasemdir