Talsverð umræða hefur verið í samfélaginu um stöðu ýmissa jaðarsetta hópa. Það er sérstaklega ánægjulegt að fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málefni utangarðsfólks, því fáir ef nokkrir hópar í samfélaginu eru meira jaðarsettir í okkar samfélagi en þeir sem teljast utangarðs.
Vaxandi skilningur á vanda utangarðsfólks, sem margt glímir við fíknisjúkdóma, birtist meðal annars í því að heilbrigðisráðherra ætlar að skoða möguleika á því að opna neyslurými fyrir fíkla. Skaðaminnkandi nálgun í þjónustu við fíkla snýst ekki um lögleiðingu fíkniefna heldur afglæpavæðingu neyslu og rétt fólks til þjónustu óháð félagslegri stöðu.
En þó skilningur á vanda margra jaðarsettra hópa hafi aukist virðist samfélagsumræðan oft vera komin á þann skrýtna stað að meta þurfi hverjir séu „verðugir“ notendur velferðarþjónustunnar. Þetta birtist í dylgjum um að stór hluti þess fólks sem nýtir sér velferðarþjónustu ríkis og sveitarfélaga sé að svindla. Eða að fólk þurfi bara að „hætta þessu væli“. Það þurfi að redda sér sjálft.
Þessari mannfjandsamlegu hugmynd hefur til dæmis verið haldið á lofti af einum af frambjóðendunum í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í borginni sem fram fór á dögunum. Sá talaði um „aumingjavæðingu“, og mátti skilja af orðum hans að fólk sem þyrfti aðstoð hefði það of gott. Mikið af þessu fólki væri ekkert nema afætur á samfélaginu. Sjálfstæðisflokkurinn gerði ekkert til að sverja þennan málflutning af sér, enda eiga þessar hugmyndir sér því miður hljómgrunn í samfélaginu.
„Fólk sem þarf aðstoð og hjálp á ekki skilið að mæta ásökunum um leti og óheiðarleika.“
Ég sé það ekki fyrir mér að einstaklingur sem leitar sér læknisaðstoðar vegna hjartaáfalls yrðri véfengdur af samfélaginu. Hinsvegar virðist það algengt viðhorf að einstaklingar sem glíma við geðræn veikindi og fíknisjúkdóma eigi bara að hætta að kvarta og finna sér almennilega vinnu. Ég hélt lengi vel að þessar skoðanir væru á undanhaldi og ég vona svo sannarlega að það sé raunin.
Nú er ég ekki að tala gegn reglum og eftirliti í velferðarþjónustunni, en á hvaða forsendum er velferðarþjónusta veitt? Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem glímir við geðræn veikindi og fíknisjúkdóma á erfiðara með að leita sér læknishjálpar en aðrir hópar í samfélaginu. Fjölmörg mikilvæg skref hafa verið stigin í átt að skaðaminnkandi nálgun í þjónustu. Ber þar helst að nefna verkefnið Frú Ragnheiði sem sinnir nálaskiptaþjónustu og grunnheilsugæslu fyrir þá sem teljast utangarðs. Viðhorfsbreyting samfélagsins er hafin, en betur má ef duga skal. Við þurfum að hverfa frá ölmusumiðuðu kerfi sem tortryggir fólk yfir í réttindamiðað kerfi sem býður fólk velkomið.
Fólk sem þarf aðstoð og hjálp á ekki skilið að mæta ásökunum um leti og óheiðarleika, heldur þarf að mæta hverjum og einum með virðingu og skilningi. Það er verkefni okkar allra sem samfélags að tryggja það að engin falli milli skips og bryggju.
Athugasemdir