Alla tíð, frá því að ég fór að yrkja og fram til dagsins í dag, hefur Þorsteinn frá Hamri haft yfir sér áru þjóðskálds. Hann hefur alltaf verið forn og spakur, meistari ólgunnar í kyrrðinni. Við Þorsteinn kynntumst þegar ég var unglingur og fyrir mér var hann höfuðskáld Íslands alla tíð. Ég veit eiginlega ekki almennilega af hverju hann tók þann sess í huga mér en það var eitthvað við hann sem kallaði fram skilyrðislausa virðingu án þess þó að hann færi nokkru sinni fram á slíkt á einn eða annan máta, því auðmýkt var í hans blóð borin.
Hann var hlýr og fróður og á ögurstund í lífi mínu gaf hann mér þögn til að tala inn í og ráð sem græddu sárið sem sífellt opnaðist í hjarta mér. Þorsteinn frá Hamri var órofa þráður þess sem áður var og þess sem nú er og ég get ekki sett í orð þann harm sem ólgar inni mér vitandi að ég get aldrei aftur setið í hæglátri þögn með honum eða hlustað á hann lesa upp ljóðin sín.
Þorsteinn frá Hamri skilur eftir sig djúp spor í þjóðarsálina án þess þó að fólk viti endilega af því. Þannig var hann sem skáld, hafði djúpstæð áhrif á þá sem kunnu að hlusta og skilja dulmögn tungumálsins okkar.
Í vægðarlausum heiðarleika þess sem blíðu og visku býr yfir, er alltaf hægt að finna gullþræði sem skína ekki eins og glópagull. Þræðir sem eru sterkir en þó sveigjanlegir og brotna ekki, heldur bráðna inn í kvikuna.
Ég er harmi slegin og leita mér leiðsagnar í bókunum hans um hvernig skal minnast þjóðskálds á örlagatímum þjóðar. Ég finn ekkert nema gapandi tómið á milli orðanna og óþrjótandi þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast þessum manni sem á einhvern hátt var stærri en lífið sjálft í gegnum líf mitt allt. Hann var meistari sem ég virti fyrir þann aga sem hann kunni að koma á orðin og fyrir mennskuna sem ég vissi að var forsenda þess að hann kunni að hemja orðin í form ljóðsins eins og fáir kunna að gera í dag.
Ég hvet ykkur til að finna eitt ljóð á dag eftir Þorstein frá Hamri til að byrja daginn. Aldrei meira en eitt, því þau eru þess virði að fá að gerjast einstök innra með manni og ofgnótt var Þorsteini aldrei að skapi.
Takk elsku vinur fyrir vináttuna og trúnaðinn, innblásturinn og kynngimögnuð orðin.
Myndin, eftir Þorstein frá Hamri
Hún fer á kreik
og flöktir um stíga
lífi gædd
af lit, unnum úr þoku;
glitra sem í tíbrá,
gárast sem í straumi
mjúkar, hrjúfar
í móðu dregnar
útlínur óljóst;
ævi mann á jörðu.
Úr bókinni: Vatns götur og blóðs 1989
Athugasemdir