Maður var myrtur í síðasta mánuði. Það var ráðist á hann á Austurvelli, torginu í hjarta Reykjavíkur og íslenska lýðveldisins, fyrir framan Alþingishúsið og dómkirkjuna, þar sem fólk hefur undanfarin ár mótmælt hvers kyns óréttlæti hér á landi. Hann var stunginn í hjartað.
Viðbrögð fólks við morðinu voru meðal annars að hann hefði ekki átt að vera úti á þessum tíma, hann hlyti að hafa verið að gera eitthvað af sér, að fólk eins og hann hafi gert eitthvað á hlut mannsins sem myrti hann.
Hinn myrti var 21 árs Albani að nafni Klevis Sula, jákvæður og félagslyndur ungur maður í leit að betra lífi, en morðinginn Íslendingur.
„Hvað gera Albanir að vetri til og um nótt?“
„Hvað gera Albanir að vetri til og um nótt? Er verið að sleppa inn svona fólki í hundraðatali? Hafið varan á þegar þið eru í miðbænum og ekki ganga einsömul!!“ sagði eldri maður undir frétt DV um árásina.
Í frétt DV var sagt að morðinginn, Íslendingurinn sem var síðar handtekinn í Garðabænum, hefði, samkvæmt heimildum blaðsins, orðið fyrir líkamsárás nokkrum vikum áður, af hálfu hóps Albana. „Þetta er góður drengur,“ sagði í fréttinni, um þann sem myrti hinn. „Fjölskyldan er í áfalli, þetta er algjör harmleikur,“ sagði einnig.
Í umræðum undir fréttinni bollalögðu nokkrir Íslendingar um skýringar á morðinu. „Eru þetta ekki bara mennirnir sem réðust á hann?“ spurði ein kona. „Hvenær má maður lemja mann og hvenær má maður ekki lemja hann?“ spurði íslenskur maður undir fréttinni. „Aldrei segja lögin og væntalega allt fallega og góða fólkið. En hvað ef viðkomandi er búinn að lemja þig? Máttu svara fyrir þig? Máttu hefna þín? Máttu heimsækja viðkomandi í næstu viku og borga honum ásamt vöxtum til baka?“ velti hann fyrir sér.
Vinur Klevis, lýsti því sem gerðist, sagði að Klevis hefði verið fyrir utan skemmtistað þegar hann sá mann grátandi við hliðina á honum, og bauð honum hjálp. Hann segir að Klevis hafi verið skyndilega stunginn og vinur hans líka.
„Eigum við ekki skilið virðingu ykkar?“
„Við erum manneskjur, eins og sú sem þið sjáið í speglinum á hverjum morgni. Eigum við ekki skilið virðingu ykkar?“
Við erum orðnir einhverjir helstu gestgjafar heims, miðað við höfðatölu. Við byggjum afkomu okkar á því. En við veljum að setja suma gestina í kjallarann.
Veruleiki sem er ekki boðlegur börnum
Í gær komu fram sögur erlendra kvenna sem koma hingað til lands. „Ég vil aldrei fæða barn inn í heim þar sem svona hlutir geta átt sér stað,“ segir ein konan um reynslu sína af landinu. Hún var neydd til að stunda kynlíf með vinum íslensks eiginmanns síns, áður en hann fann sér yngri konu. Önnur konan lýsir sambærilegri reynslu: „Einu sinni hann lét hann mig, já það er rétt, hótaði mér og píndi mig til að sofa hjá bróður hans því að þeir voru að djúsa saman heima hjá okkur og bróðir hans vildi bara prófa mig.“
Þriðja segir frá því að henni var nauðgað á gólfinu sem hún skúraði. Fjölmargar segja frá heimilisofbeldi og að skömmin sé sett á þær.
Stundin fjallaði um veruleika erlends starfsfólks í ferðamennsku á síðasta ári. Til dæmis sögðu tvær konur sögu sína af því að starfa á gistiheimili úti á landi. Eigandinn svínaði á þeim og hótaði að reka þær þegar þær sóttu rétt sinn. Þær settu stól undir hurðarhúninn á herberginu sínu um nætur af ótta við eigandann.
Meira að segja erlendir starfsmenn hjá vel metnu fyrirtæki, eins og Arctic Portal, sem trommað var upp af forsetanum og fleirum, kvarta undan því að þeir hafi verið sviknir um laun og mætt niðurlægjandi framkomu.
Valdamisvægi og eftirlitsleysi
Í einangrun og valdamisvægi fara fram verstu illvirki mannkyns. Tilhneigingin er sambærileg, hvort um er að ræða börnin í Breiðavík, Kópavogshæli eða Byrgið, þegar kerfið býður upp á valdamisvægi og eftirlitsleysi er líklegt að farið verður illa með fólk.
Samhliða illri meðferð er oft búið að jaðarsetja þolendur og stimpla þá með þeim hætti að þeir eigi skilið slæma meðferð.
„Við ætlum ekki að láta það átölulaust ef menn ætla að misnota þá velvild sem við viljum sýna,“ sagði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra um hælisleitendur í fyrra, áður en hún tók ákvörðun um að svipta þá hælisleitendur framfærslufé sem taldir væru með tilhæfulausa umsókn um hæli.
„Þegar kemur að útlendingamálum þá held ég að við höfum villst töluvert mikið af leið,“ sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Útvarpi sögu í fyrra. „Við eigum að mæta öllum þeim með hörðum stálhnefa sem ætla að koma hingað til Íslands sem misnota velferðarkerfið okkar.“
Í vikunni var ungur marokkóskur hælisleitandi staddur í fangelsinu á Litla-Hrauni, af því að hann hafði brotið af sér með þeim hætti að reyna að komast til Kanada með flutningaskipi. Í útivistatíma réðst hópur fanga að honum. Hann kom hingað sem unglingur í leit að betra lífi, en endaði innilokaður með hættulegasta fólki landsins. „Hann er bara ekki virtur sem manneskja á Íslandi,“ sagði Lilja Margrét Olsen, verjandi hans. „Þessi drengur var þegar ég hitti hann fyrst venjulegur unglingur en þetta kerfi sem við bjóðum upp á hefur brotið hans algjörlega niður.“
Markvisst sviptir mennskunni
Með stálhnefanum okkar erum við markvisst að búa til aðstæður þar sem hælisleitendur eru settir í ómanneskjulegar aðstæður á Íslandi.
Dómsmálaráðherrann okkar hefur nú náð að innleiða þær samfélagslegu breytingar að hælisleitendur verði sviptir framfærslufé ef umsókn þeirra er metin tilhæfulaus. Eftir að reglugerð Sigríðar Andersen var innleidd geta hælisleitendur lent í þeirri stöðu að vera algerlega án möguleika á að framfleyta sér, án atvinnuréttinda og framfærslufjár, jafnvel vikum saman, á meðan beðið er eftir að senda þá úr landi.
Ef manngæska er ekki til staðar, er hægt að vísa til okkar eigin hagsmuna. Ef við viljum að hópur fólks breytist í vandmál er öruggasta leiðin að svipta fólkið öllum möguleikum og aðstæðum til að lifa af.
En þá geta þau haldið áfram að segja, eins og með strákinn sem var myrtur á Austurvelli fyrir framan löggjafarsamkomu okkar, að þetta sé líklega bara verðskuldað.
Kannski segir einhver að þetta sé ekki svo alvarlegt, þetta séu undantekningartilvik, þessar nauðganir, árásir og öll þessi orð. Sem dæmi má hins vegar nefna að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins vildi taka afstöðu gegn stefnumótandi orðum Óla Björns um „harða stálhnefann“. Einhverjir þeirra risu þó upp þegar Ásmundur Friðriksson vildi láta íslensk yfirvöld rannsaka bakgrunn allra þeirra 1.500 múslima sem búa á Íslandi og hélt því svo fram að 220 milljarðar króna myndu fara í kostnað vegna hælisleitenda.
Aðstæðurnar, tilfellin, ummælin og frásagnirnar segja sína sögu um okkur.
Það er í valdamisvægi og eftirlitsleysi sem mestu vonskan á sér stað. En við erum eftirlitið. Það erum við sem eigum að tryggja að Ísland sé ekki land þar sem verst stöddu gestirnir mæta öðru en stálhnefum og fordómum og upplifa annað en örvæntingu og glataða trú á lífinu.
Athugasemdir