Áslaugu Friðriksdóttur, borgarfulltrúa og frambjóðanda í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, var meinað að halda erindi á fundi Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna, sem fram fór í Valhöll í dag. „Ég var búin að undirbúa erindi og þetta kom mér auðvitað í opna skjöldu,“ segir Áslaug í samtali við Stundina.
Vísir greindi frá því áðan að rétt áður en fundurinn hófst hefði formaður Hvatar fengið símhringingu frá yfirkjörstjórn um að einn af mótframbjóðendum Áslaugar hefði gert athugasemd við að hún héldi erindi á fundinum. Ástæðan væri sú að fundurinn færi fram í Valhöll, í sömu byggingu og leiðtogakjörið. Var ákveðið að Áslaug fengi ekki að halda ræðu á fundinum, enda áróður á kjörstað bannaður.
„Hvers vegna var þá ekki búið að gera athugasemd fyrr við að þessi fundur væri í Valhöll?“ segir Áslaug í samtali við Stundina. „Kannski eru menn eitthvað að fara á taugum. Ef svo er ég þá lít ég á þetta sem styrkleikamerki fyrir mitt framboð.“
Athugasemdir