Traust kjósenda á stjórnmálamönnum hér á landi hefur mælst ákaflega lítið. Í fréttunum undanfarna daga hefur til dæmis komið fram eitt af skólabókardæmum um hvers vegna. Sigmundur Davíð lofaði í kosningabaráttu að hann myndi sjá til þess að koma á beinum flugsamgöngum til útlanda frá flugvöllum í kjördæmi sínu kæmist hann til valda. Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra og setti nokkrar milljónir í dæmið og hafði samband við flugfélög og bauð þeim aðstoð við að koma þessu í kring. Nú hefur, reyndar ekki í fyrsta skipti, komið í ljós að það eru afskaplega hæpnar forsendur fyrir því að selja saklausu fólki farmiða í þessar ferðir. Endurtekið lenda farþegar í gríðarlegum vandræðum sökum þess að flugvellirnir á landsbyggðinni eru einfaldlega ekki undir það búnir taka á móti reglulegu farþegaflugi með stórum þotum, þó svo að hægt sé að nýta þá til neyðarlendinga.
Það hefur komið fram í viðtölum við þá sem þekkja til að það þurfi nokkra milljarða til þess að koma þessu loforði endanlega í framkvæmd. Stækka flugstöðvarnar svo þær ráði við aukinn farþegafjölda og landamæraeftirlit. Til að mynda þurftu farþegar nýverið að sitja tímum saman í flugvélinni eða í strætó við hlið of lítillar flugstöðvar. Það skortir auk þess betri og traustari aðflugsbúnað, meiri tækjabúnað á flugvellinum og fleira starfsfólk til þess að ráða við verkefnið. Við höfum hins vegar heyrt ráðherrann lýsa því yfir að hann standi ávallt við það sem hann lofi. Jú, það lenti flugvél með farþegaflug erlendis frá á Akureyri. Var þetta einungis það sem ráðherrann lofaði?
Eins mætti benda á loforðin um 260 milljarða til þess að leiðrétta skuldir heimilanna, en þessi leiðrétting reyndist þegar viðkomandi komst í forsætisráðherrastólinn verða einungis fjórðungur af lofaðri upphæð og síðar kom í ljós að 80% af þessum fjármunum fóru til efnaðasta fólksins. Það er að segja til þeirra sem ekkert þurftu á þessari leiðréttingu að halda. Jú, það var nokkrum fjármunum veitt í leiðréttingu. En var þetta í samræmi við það sem hafði verið lofað?
Telja mætti mörg fleiri dæmi sem eru ástæður þess að traustið á Alþingi hefur mælst jafn lítið og raun ber vitni. En stjórnmálamenn hafa í vetur lagt áherslu á að þeir ætli sér að gera stóra bragarbót á þessu og umræðan hefur orðið mildari í þeirra garð. En það gæti breyst á stuttum tíma.
Gerum Ísland samkeppnishæft
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er þannig kveðið á um að efla eigi iðn-, verk- og starfsnám í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags. Styrkja á verk- og starfsnám og einfalda aðgengi nemenda að öðru námi en bóknámi. Ætli Ísland sér að fylgja tæknibyltingunni og tryggja samkeppnishæfi verði íslenskt samfélag að tileinka sér aukna færni og verðum við að koma verkmenntakerfi okkar í fremstu röð. Menntamálaráðherra sagði í viðtali nýverið: „Staðreyndin er sú að við erum að útskrifa mun færri úr þessum greinum en til að mynda Noregur og það er mikill munur þar á. Á Íslandi er verið að útskrifa úr starfs- og iðnnámi í kringum 12% í samanburði við 40% í Noregi.“
Ég efast ekki um að Lilja Alfreðsdóttir, nýorðin menntamálaráðherra, vilji gera vel á nýjum vettvangi, en það verður að segjast eins og það er að við sem höfum starfað í starfsmenntageiranum undanfarna áratugi höfum endurtekið heyrt stjórnmálamenn setja fram nákvæmlega sömu áherslur í umbótaræðum um starfsmenntamálin á þingum og ráðstefnum atvinnulífsins. Í því sambandi mætti til dæmis nefna ræður núverandi forsætisráðherra sem var menntamálaráðherra árin 2009–2013. Þegar starfsmenn starfsmenntakerfisins og talsmenn starfsnefnda vinnumarkaðarins höfðu í framhaldi af úrslitum kosninga samband við starfsfólk ráðuneytanna um efndir á loforðum ráðherranna, og jafnvel undirritaðar viljayfirlýsingar, var svar embættismannanna nánast alltaf: „Það eru einfaldlega ekki til neinir fjármunir til þess að framkvæma þessi loforð.“ Afleiðingar af þessum loforðabresti og hvert hann hafi leitt okkur birtist greinilega í þeim tölum sem menntamálaráðherra hefur bent á í viðtölum undanfarna daga.
Stjórnendum framhaldsskólanna er uppálagt að taka við öllum nemendum innan tilskilins aldurs. Alþingi hefur í vaxandi mæli þrýst á aukna hagræðingu í rekstri menntakerfisins. Þetta á reyndar við um allan ríkisreksturinn og nú er svo komið að uppsafnaður rekstrarvandi ríkisstofnana nemur nú hundruðum milljarða, eins og talsmenn ríkisstofnana hafa lýst fyrir okkur í nánast hverjum einasta fréttatíma undanfarið ár. Ef menntamálaráðherra ætlar sér að efla verknám innan framhaldsskólanna kemst hún ekki framhjá þeirri staðreynd að verknám er töluvert dýrara í rekstri en bóknám.
Bætt verk- og raungreinanám kallar á mun dýrari kennslutæki og hraða endurnýjun þeirra vegna vaxandi hraða tækniþróunar og ekki síður minni bekkjareiningar á hvern kennara en tíðkast í bóknámi og þá um leið töluvert meira rými á hvern nemanda. Skólastjóri sem glímir við rekstrarvanda, sakir þess að Alþingi úthlutar honum takmarkað rekstrarfé, reynir vitanlega að gera sitt besta við að sinna lagalegum skyldum gagnvart nemendum og hagræðingin hefur þá bitnað sérstaklega á verknáminu. Fullbókaðir áfangar í bóknámi eru margfalt hagkvæmari í rekstri skólanna en fámennir og dýrir verknámsáfangar.
Réttur til ævilangrar símenntunar
Það er ástæða að benda nýjum menntamálaráðherra á við upphaf leiðangurs um bætur á starfsmenntakerfinu, að þetta mál er nátengt öðru baráttumáli verkalýðshreyfingarinnar um að ná jafnræði við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Menntamálaráðherra benti réttilega á að foreldrar hafi staðið við hlið námsráðgjafanna að beina börnum sínum frekar inn á bóknámsbrautir og klára stúdentsprófið svo þau hafi víðtækara val um endanleg starfsréttindi. Hjá hinum Norðurlandaþjóðunum er rétturinn til þess að ljúka framhaldsskólanámi á kostnað skattborgaranna talin vera varanleg eign einstaklingsins. Þar skiptir engu hvenær á lífsleiðinni þjóðfélagsþegn nýtir þessa eign sína til þess að ljúka náminu og fær að auki styrki til þess. Það er andstætt því sem tíðkast hér á landi. Ef Íslendingur hverfur, af einhverjum ástæðum, úr framhaldsskólanámi, en vill ljúka því síðar á ævinni er honum gert að greiða svimandi há námsgjöld.
„Hinar Norðurlandaþjóðirnar horfast í augu við þá staðreynd að símenntun er þjóðfélagsleg nauðsyn ef halda eigi vinnumarkaði samkeppnishæfum“
Hagræðingin innan skólakerfisins hefur meðal annars náðst með því að beina nemum í bóknámsáfanga, eins og rakið er ofar í pistlinum. Áfangakerfið hefur auk annarra þátta orðið til þess að það er orðið mun algengara að nemar eru í skólakerfinu fram yfir tvítugt án þess að ljúka neinni námsbraut og fara út á vinnumarkaðinn en hefja síðar nám á verknámsbraut. Hinar Norðurlandaþjóðirnar horfast í augu við þá staðreynd að símenntun er þjóðfélagsleg nauðsyn ef halda eigi vinnumarkaði samkeppnishæfum og ríkisvaldið verði þess vegna að taka virkan þátt í starfsmenntun í atvinnulífinu. Hér á landi hafa iðnaðarmenn hins vegar sætt sig við að 1% af launum þeirra fari í starfsmenntasjóði til þess að bjarga helstu vandamálunum í viðkomandi starfsgrein, en það kemur ákaflega lítið fjármagn frá íslenskum stjórnvöldum, andstætt því sem er hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.
Stéttarfélögin hafa ítrekað, en árangurslaust, reynt að fá íslensk stjórnvöld til þess að jafna þessa stöðu. Menntamálaráðherra sagði í viðtali nýverið „að hún einblíndi á meira samstarf við atvinnulífið því það er mikill skortur eftir ákveðinni menntun í atvinnulífinu. Þá þurfum við sem berum ábyrgð á stefnumótun að huga að því og leita leiða til þess að mæta þeirri þörf. Og líka að sjá af hverju þessi munur er á okkur og hinum Norðurlöndunum.“
Nemar fá styrki á Norðurlöndunum
Í þessu sambandi má benda menntamálaráðherra á að fyrir nokkrum árum voru 12.000 faglærðir iðnaðarmenn frá Austur-Evrópu að störfum í Danmörku, en þeir hafa í vaxandi mæli farið heim til sín og þeim fækkað niður í 5.000, þessi þróun er tilkomin vegna bætts efnahags heima fyrir. Í fjárlögum Dana er nú 30 milljarða innspýting til eflingar starfsnáms iðnaðarmanna, meðal annars með því að hækka styrki til þeirra sérstaklega. Takið einnig eftir því að hjá hinum Norðurlandaþjóðunum fá nemar styrki, ekki námslán.
„Það verður spennandi að sjá hvort núverandi ríkisstjórn ætli að breyta til og standa við loforðin“
Við höfum heyrt yfirlýsingar íslenskra ráðamanna um eflingu verkmenntunar en efndirnar hafa hins vegar verið sáralitlar með þeirri sorglegu þróun sem menntamálaráðherra hefur lýst í viðtölum sínum. Það verður spennandi að sjá hvort núverandi ríkisstjórn ætli að breyta til og standa við loforðin um að gera íslenska starfsmenntakerfið samkeppnishæft. Við erum nefnilega að tala um nokkra milljarða, það dugar ekki að skipa enn eina nefndina og semja vandaða skýrslu.
Athugasemdir