Bandaríkin voru eina aðildarríki NATO sem greiddi atkvæði gegn samþykkt skýrslu sem Lilja Alfreðsdóttir, núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, vann fyrir efnahagsnefnd bandalagsins um efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga í fyrra. Bent er á þetta í skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2017 sem birtist á vef Alþingis í gær.
Í skýrslunni lagði Lilja áherslu á að hlýnun jarðar væri hraðari en margir vísindamenn hefðu spáð fyrir um og hop hafíssins á norðurslóðum umtalsvert. Brýnt væri að ríki heims ynnu markvisst að því í sameiningu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum og stæðu við þær skuldbindingar sem felast í Parísarsamkomulaginu.
„Þá sagði Lilja áhrif loftslagsbreytinga margvíslegar og ekki með öllu ljóst hverjar afleiðingarnar yrðu. Þær mundu með beinum eða óbeinum hætti hafa áhrif á efnahag heimsins. Fram kemur í skýrslunni að kostnaður fylgi því að bregðast við loftslagsbreytingum en það sé mikilvægt fyrir þjóðir heims að fjárfesta í þeirri tækni sem verði til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir í frásögn Íslandsdeildar NATO af ársfundi NATO-þingsins sem haldinn var í Búkarest dagana 6.-9. október 2017.
Ný tækifæri opnist á Norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga
Í umfjöllun um vorfund NATO sem haldinn var í Tíblisi dagana 26. til 29. maí 2017 kemur fram að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem þá var formaður Íslandsdeildarinnar, hafi tekið til máls og beint sjónum að málefnum norðurslóða, meðal annars tækifærum sem væru að opnast á svæðinu vegna loftslagsbreytinga.
„Hún sagði landfræðilega legu, áhrif loftslagsbreytinga og bætt aðgengi að náttúruauðlindum hafa opnað augu umheimsins fyrir tækifærum og áskorunum á svæðinu. Loftslag hefði hlýnað og hafís hopað hraðar en spáð hefði verið fyrir um og áhrifin verið mikil á hefðbundna lifnaðarhætti. Á sama tíma hefðu opnast ný tækifæri meðal annars með opnun nýrra siglingaleiða og ferðaþjónustu,“ segir í skýrslunni. „Með auknu mikilvægi svæðisins varðandi viðskipti og landfræðistjórnmálalegar breytingar óttuðust menn aukna spennu milli strandríkja á svæðinu en Rússar hefðu nú þegar aukið hernaðarviðbúnað sinn þar.“
Fram kemur að Áslaug hafi spurt Rose Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóra NATO, hvort hún hefði áhyggjur af hröðum loftslagsbreytingum á norðurslóðum og hvort hún teldi þær hafi áhrif á öryggismál á svæðinu. Jafnframt hafi hún spurt hvort Gottemoeller teldi að NATO ætti að hafa meiri afskipti af málefnum norðurslóða. „Gottemoeller svaraði því til að málefni norðurslóða væru afar mikilvæg og þær loftslagsbreytingar sem þar hefðu orðið hefðu beint aukinni athygli að svæðinu. Hún sagði að NATO ætti að vera virkara þegar kæmi að málefnum norðurslóða og bandalagið treysti á aðildarríki sín á norðurslóðum eins og Ísland og Noreg til að leiðbeina og upplýsa í þeim málum.“
Vilja að skólabörn kynnist NATO betur
Í frásögn Íslandsdeildar af fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins í Berlín kemur fram að fjallað hafi verið um tillögu að stofnun vinnuhóps sem hefði það hlutverk að skoða leiðir til að auka menntun og þekkingu á NATO í aðildarríkjunum.
„Bent var á að ungt fólk þekkti lítið til starfa og gildis NATO enda væri það ekki alið upp í skugga kalda stríðsins. Lilja Alfreðsdóttir tók undir nauðsyn þess að auka vitund um gildi bandalagsins. Hún benti á að loftslagsbreytingar hefðu að einhverju leyti svipaðan sess í hugum ungs fólks og kalda stríðið hefði áður haft og að ein leið væri að tengja og horfa í vaxandi mæli til öryggisþátta í umfjöllun um loftslagsbreytingar og þar með kæmi NATO með auknum hætti inn í umræðuna,“ segir í skýrslunni.
„Þá gætu upplýsingar um NATO verið
hluti af heimsóknum skólabarna
í þjóðþing aðildarríkjanna“
„Þá gætu upplýsingar um NATO verið hluti af heimsóknum skólabarna í þjóðþing aðildarríkjanna eins og skólaþing Alþingis. Þingmenn hefðu mikilvægu hlutverki að gegna við að auka skilning og stuðning við NATO. Meðal hugmynda sem komu fram í umræðunni var að beina athygli að NATO á dögum þjóðhetja sem haldinn er hátíðlegur í sumum aðildarríkjum og að halda NATO-þing æskunnar. Samþykkt var að stofna vinnuhópinn og verður einn fulltrúi hverrar landsdeildar í honum.“
Athugasemdir