Grínistinn og kvikmyndaleikstjórinn Armando Iannucci er fæddur í Glasgow í Skotlandi og lítur á sig sem Skota þótt hann sé af rammlega ítölskum ættum eins og nafn hans bendir til. Hann hóf feril sinn sem grínisti sem útvarpsmaður hjá BBC og færði sig svo yfir í sjónvarp. Þar sló hann í gegn með þáttaröðinni The Thick of It þar sem Peter Capaldi lék afar aðsópsmikinn og kjaftforan aðstoðarmann ráðherra í bresku ríkisstjórninni. Þáttaröðin gaf svo af sér kvikmyndina In the Loop 2009 sem Iannucci leikstýrði við heilmiklar vinsældir. Hann endurhannaði svo sjónvarpsþáttaröð sína fyrir bandarískan markað þar sem hún kallast The Veep, eða Varaforsetinn.
Á síðasta ári sendi Iannucci frá sér nýja kvikmynd og þótt hún hafi ekki hlotið náð fyrir augum amerísku kvikmyndaakademíunnar, þegar tilnefningum til Óskarsverðlauna var úthlutað um daginn, þá hefði vel mátt veita Skotanum knáa einhverja viðurkenningu fyrir frumlega og djarflega hugmynd.
Þurfti úr fáránleikanum
Hin upprunalega hugmynd er að vísu komin frá franskri teiknimyndasögu eftir Fabien Nury en handritið skrifaði Iannucci sjálfur ásamt nokkrum öðrum og breyttu þeir því sem þeim sýndist. Og það sem er merkilegt við hugmyndina er að myndin fjallar um dauðdaga einhvers grimmasta harðstjóra sögunnar, Jósefs Stalíns, sem ábyrgur var fyrir dauða tugmilljóna manna, en í stað þess að dramatísera endalok Stalíns hefur Iannucci gert úr efninu grínmynd, nokkuð í stíl við hinar pólitísku satírur sínar úr bresku og bandarísku stjórnmálalífi. Og hefði líklega ekki hver sem er látið sér detta í hug að búa til grín úr því þegar morðingi milljóna manna geispar golunni.
Iannucci hefur hins vegar látið hafa eftir sér að dauði Stalíns og eftirmál hafi í raun boðið upp á svo hrottalegan húmor að eftir að hafa rannsakað heimildir hafi hann og félagar hans við handritsgerðina þurft að tóna niður kómedíu raunveruleikans, svo fáránlegir og í raun hlægilegir hafi atburðir verið – þótt um grafalvarleg mál hafi verið að ræða í bókstaflegum skilningi.
Og Iannucci virðist hafa haft rétt fyrir sér að því leyti að dauði einræðisherrans byði upp á absúrd og grínaktuga túlkun, því mynd hans hefur mælst einkar vel fyrir. Nema reyndar á einum stað.
Móðgun við Rússa?
Austur í Rússlandi er yfirvöldum ekki hlátur í hug. Þar er litið á myndina, sem heitir einfaldlega The Death of Stalin, sem grófa móðgun við Rússa og rússneska sögu, og yfirvöldin eru að velta fyrir sér að banna myndina eða að minnsta kosti leyfa ekki sýningar á henni fyrr en eftir að liðnar eru minningarathafnir vegna endaloka orrustunnar ógurlegu við Stalíngrad í síðari heimsstyrjöldinni. Þeirri orrustu, sem markaði þáttaskil í hinni tröllauknu baráttu Þjóðverja og Rússa (þá Sovétmanna), lauk í byrjun febrúar 1943 eða fyrir 75 árum.
Orrustan tengist vitaskuld mjög nafni Stalíns og þótt Sovétmenn hafi að nafninu til snúið baki við Stalín eftir andlát hans og fordæmt persónudýrkunina og kúgunina og grimmdina sem fylgdu stjórnartíð hans, þá hefur orðspor hans í baráttunni gegn Hitler alltaf verið nærri óhaggað.
Af hverju treysta Rússar ekki sjálfum sér?
Rússar, sem sýndu ótrúlegt þolgæði og baráttuþrek í stríðinu gegn nasistum, hafa af einhverjum ástæðum allt fram á þennan dag kosið að trúa því að þeir hefðu aldrei getað snúið vörn í sókn gegn Hitler, nema af því Stalín leiddi þá. Það er eins og þeir treysti ekki baráttunni í eigin brjósti heldur verði að trúa því að einhver hljóti að hafa rekið þá áfram og tuskað þá til í eymd þeirra, það er að segja Stalín. Honum beri því endalaust þakklæti fyrir frammistöðu sína í heimsstyrjöldinni þótt honum kunni að hafa orðið eitthvað á á öðrum sviðum.
Sannleikurinn er þó sá að auðvelt er að færa rök fyrir því að þvert á móti hafi það verið sök Stalíns hversu litlu virtist muna að Sovétmenn yrðu knésettir af Hitler í stríðinu.
Innrásin var feigðarflan
Í rauninni var innrás Þjóðverja í Sovétríkin feigðarflan frá upphafi og nánast dæmd til að mistakast, þótt ekki væri nema vegna mannfjöldans þar eystra. Sovétmenn voru meira en tvisvar sinnum fleiri en Þjóðverjar og gátu alltaf teflt fram nýjum og nýjum hersveitum, sama hve miklu liði þeir töpuðu. Þá ollu vegalengdirnar þar eystra, þar sem nóg rými var til að hörfa svo langt sem þurfa þótti, því að mjög ólíklegt var að þýskum innrásarherjum tækist að greiða sovéska varnarliðinu þvílíkt rothögg strax í byrjun að Sovétríkin yrðu að gefast upp.
Þá höfðu sovéskir herforingjar, með Mikhaíl Tukhatévskí marskálk í broddi fylkingar, sett saman á fjórða áratugnum nákvæmar varnaráætlanir gegn einmitt þess konar innrás sem Hitler hratt svo í framkvæmd 1941.
En þá hafði Stalín látið „hreinsa“ Tukhatévskí og tugþúsundir hæfustu herforingja Rauða hersins svo allt fór í handaskolum þegar innrás Þjóðverja hófst, enda treysti Stalín bandalagi sínu við Hitler frá 1939 og bannaði hermönnum sínum lengi vel að undirbúa raunverulegar varnir.
Stalín bjóst við að vera settur af
Skömmu eftir upphaf Barbarbossa-innrásar Þjóðverja sumarið 1941 höfðu Sovétmenn farið slíkar hrakfarir að Stalín bjóst fastlega við að hann yrði settur af. Þá hafði hann hins vegar farið allt frumkvæði svo úr Kommúnistaflokknum að undirsátar hans gátu ekki hugsað sér lífið án hans og staða hans varð á endanum traustari en nokkru sinni fyrr. Framlag hans til stríðsrekstrar var svo fyrst og fremst að hvetja herforingja til að bruðla óspart með mannafla sinn. Vegna atbeina Stalíns varð mannfall í liði Rauða hersins og meðal óbreyttra borgara áreiðanlega mun meira en það hefði þurft að vera. En jafnframt komu fram á sjónarsviðið hæfir hershöfðingjar, eins og Georgí Zhúkov marskálkur, svo allt fór vel að lokum.
Stalín stóð í lappirnar!
En það varð að trúaratriði í Sovétríkjunum að enginn nema Stalín hefði getað staðið svo fast í lappirnar að innrás Hitlers var hrundið. Það er að sjálfsögðu fjarri öllum sanni.
En í ársbyrjun 1953 var Stalín orðinn 74 ára og greinilega farinn að lýjast líkamlega. Hugur hans var hins vegar enn jafn tortrygginn og grimmur og nokkru sinni og hann var að undirbúa nýjar hreinsanir sem vel má vera að hefðu orðið jafnvel enn blóðugri og viðurstyggilegri en hreinsanirnar á 4. áratugnum. Þá var svo langt gengið að böðlar hans frömdu fjöldamorð samkvæmt kvóta. Ákveðið var að í þessu héraði eða hinu skyldu 5.000 „andstæðingar“ Stalíns upprættir og svo voru bara einhverjir handteknir og drepnir þangað til kvótanum var náð.
Stalín fær slag
Ekki kom þó til þess að hinar nýju hreinsanir hæfust fyrir alvöru. Síðasta kvöld febrúarmánaðar 1953 var Stalín á fylleríi í Kreml ásamt þeirri sníkjudýrahjörð sem hann hafði að aðstoðarmönnum. Næturfyllerí Stalíns voru alræmd en þar gekk oft mikið á og Stalín hikaði ekki við að niðurlægja og svívirða aðstoðarmenn sína.
Einn helsti pótintátinn, Nikíta Krússjof, þurfti einu sinni að stíga kósakkadans að kröfu Stalíns, Molotov utanríkisráðhera þurfti að skríða og smjaðra fyrir Stalín alveg stöðugt þótt einræðisherrann hefði látið setja konuna hans í fangabúðir – og svo framvegis.
Eftir að Stalín hafði skemmt sér nægjanlega var ekið með hann út í sveitasetrið þar sem hann hélt til skammt utan við Moskvu og þar gekk hann til sængur að talið var. Hann kom hins vegar ekki fram morguninn eftir eins og hann var vanur og klukkustundir liðu án þess að nokkuð bólaði á honum. Þjónalið Stalíns var alveg miður sín en slíkur var óttinn við einræðisherrann að jafnvel fólk sem hafði þjónað honum árum saman þorði ekki einu sinni að opna dyrnar að svefnherbergi hans til að vita hvers vegna hann kæmi ekki fram.
Mýs undir fjalaketti
Ekki er að efa að Armando Iannucci hefur getað gert sér ýmsan mat úr þeirri senu en þegar einhver þorði loksins að gá inn í herbergi Stalíns lá hann ósjálfbjarga á gólfinu, hafði bersýnilega fengið alvarlegt slag af einhverju tagi og mátti hvorki mæla né hreyfa sig. Hann var þó enn á lífi og sennilega með einhvers konar meðvitund, að minnsta kosti á stundum.
Stalín var nú settur upp í rúm sitt, kallaðir voru til læknar en þeir þorðu eiginlega ekkert að gera né kveða upp úr með nokkurn skapaðan hlut af ótta við að gera einhver mistök sem kæmi þeim í koll síðar, ef Stalín næði sér aftur. Helstu aðstoðarmenn einræðisherrans mættu á svæðið og voru eins og mýs undir fjalaketti í nokkra sólarhringa meðan lífið fjaraði úr Stalín.
Bería grét og barmaði sér
Fljótlega þótti þeim ljóst að Stalín myndi ekki jafna sig og þá fóru þeir að huga að sinni eigin framtíð og þeirri valdabaráttu þeirra á milli sem allir vissu að tæki nú við. Einn þeirra, hinn svívirðilegi nauðgari Lavrentí Bería, sem alltaf hafði skriðið fyrir Stalín eins og hann mögulega gat, tók eitt sinn til við að formæla leiðtoganum og bölva honum í sand og ösku og fabúlera um hve gott væri að losna við hann, en þá virtist Stalín hjarna við um stund og hvessti augun á Bería.
„Og umsvifalaust kastaði Bería sér á hnén, kyssti hönd Stalíns og grét fögrum tárum af fögnuði“
Og umsvifalaust kastaði Bería sér á hnén, kyssti hönd Stalíns og grét fögrum tárum af fögnuði yfir því að leiðtoginn væri að komast til sjálfs sín, og baðst margfaldlega afsökunar á orðum sínum.
En Stalín komst ekki til heilsu, hann dó þann 5. mars umkringdur pótintátum sínum sem allir önduðu áreiðanlega léttar þótt nú tæki við óvissan ein. Og það er heilmikið rannsóknarefni í þjóðarsálfræði (ef það fag er þá til!) að þótt allir í Sovétríkjunum vissu vel að Stalín var purkunarlaus fjöldamorðingi, þá grét fjöldi fólks einlægum tárum við fréttir af dauða hans.
Aðeins einn talaði hlýlega um Stalín
Arftakarnir reyndu í bili að búa til ímynd af „samvirkri forystu“ og gerðu útför Stalíns með gífurlegri viðhöfn en það þótti áberandi að aðeins einn þeirra þriggja sem héldu tölu við útförina fór hlýlegum orðum um Stalín sem persónu. Sníkjupaddan Georgí Malenkov og Bería töluðu bara um mátt Sovétríkjanna, en sá eini sem talaði um Stalín sem „góðan vin og okkar elskuríka mann“ var aumingi Molotov á sína heittelskuðu eiginkonu í fangabúðum „vinarins“. Strax eftir útförina lét Bería sleppa konunni úr haldi og þau Molotov sameinuðust á ný.
Í valdabaráttunni eftir útförina, sem er mun ítarlegur og allt að því fáránlegur kafli í bíómynd Ianuccis, reyndi Bería að bregða yfir sig skikkju hins milda umbótamanns og vildi umsvifalaust draga úr harðstjórninni og slaka á klóm Sovétmanna í Austur-Evrópu.
Bería handtekinn og líflátinn
Miðað við að Bería var í raun samviskulaus og purkunarlaus morðvargur, þá voru þetta ansi ótrúleg umskipti, en sennilega vakti það eitt fyrir Bería að skapa sér sérstöðu innan arftakahópsins. Þeir óttuðust hann takmarkalaust en náðu að sameinast gegn honum og Bería var handtekinn með hjálp Zhúkovs marskálks þegar kom fram á sumar. Haldin voru leynileg sýndarréttarhöld yfir honum og hann var dæmdur til dauða í desember og líflátinn. Bería, sem hafði aldrei sýnt neinum miskunn, grét þegar hann bað sér vægðar.
Allt þetta túlka Iannucci og menn hans í nýju bíómyndinni sem sé á húmorískan hátt og það hefur farið verulega fyrir brjóstið á Rússum. Fjölmargir háttsettir embættismenn og silkihúfur í Rússlandi hafa fordæmt myndina sem sé bersýnilega gerð til að efla hatur á Rússlandi, „svívirða heiður rússnesku (sovésku) þjóðarinnar … og skrumskæla fortíð okkar svo að fólk hugsi aðeins með hryllingi til Sovétríkjanna á sjötta áratugnum“. Enn fremur segir að „frumsýning myndarinnar skömmu fyrir 75 afmæli orrustunnar við Stalíngrad sé hráki í andlit allra þeirra sem þar dóu og þeirra sem enn eru á lífi“.
Mikhalkov fordæmir myndina
Þeir sem skrifuðu undir þessa yfirlýsingu hvöttu til þess að sýningar á myndinni yrðu bannaðar í Rússlandi.
Meðal þeirra sem skrifuðu undir var kvikmyndaleikstjórinn Nikíta Mikhalkov sem á að baki myndirnar Urga, Sólbruna og 12 sem allar hafa hlotið fjölda verðlauna á Vesturlöndum.
Já, ef þjóðarsálfræði er ekki til, þá held ég að það sé tímabært að stofna þá fræðigrein til að rannsaka þjóðarsál Rússa og afstöðu þeirra til Stalíns bæði fyrr og nú. En ég hlakka mikið til að sjá þessa bíómynd.
Athugasemdir