Ef skipun dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur dregst langt fram yfir næstu helgi gæti orðið talsverð röskun á starfsemi réttarins. Fyrir vikið þyrfti að fresta málum sem þar eru til meðferðar. Þetta segir Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, í samtali við Stundina.
Landsréttur tók til starfa í morgun, en af 15 dómurum hins nýja dómsstigs störfuðu fimm áður við Héraðsdóm Reykjavíkur. Þetta eru þau Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Hervör Þorvaldsdóttir, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Harðardóttir. Þá eru dómarar sem áður störfuðu við Héraðsdóm Reykjavíkur að færa sig um set, Ingimundur Einarsson, til Héraðsdóms Reykjavíkur og Halldór Björnsson til Héraðsdóms Norðurlands eystra.
„Þetta er auðvitað stór hópur sem vantar, sjö dómarar, og lætur nærri að vera einn þriðji af dómarahópnum við Héraðsdóm Reykjavíkur,“ segir Símon. „Gert hefur verið ráð fyrir að nýir dómarar taki yfir mál sem forverar þeirra skilja eftir, því aðrir dómarar hér eru einfaldlega með fullar hendur af málum og þurfa að sinna þeim.“
Átta dómarastöður voru auglýstar lausar til umsóknar í september síðastliðnum, þar af sex fastar stöður við Héraðsdóm Reykjavíkur og tvö embætti eins konar flökkudómara en annar þeirra mun hafa starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Við skipun héraðsdómaranna ákvað Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra að víkja sæti vegna umsóknar Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns sem stóð þá í málarekstri gegn íslenska ríkinu eftir að gengið hafði verið framhjá honum við skipun dómara við Landsrétt. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fól Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að taka við hlutverki dómsmálaráðherra í málinu.
Gert var ráð fyrir að í desember kæmi endanlega í ljós hverjir tækju við dómarastöðunum, enda átti skipunin að taka gildi frá og með 1. janúar 2018. Dómnefnd um hæfni umsækjenda skilaði þó ekki umsögn sinni fyrr en 21. desember. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur gagnrýnt umsögn og vinnubrögð dómnefndarinnar og óskað eftir frekari rökstuðningi á mati hennar. Í ljósi þess má ætla að málið tefjist enn frekar.
„Nú verðum við bara að horfa á þetta frá degi til dags,“ segir Símon Sigvaldason héraðsdómari, en sem dómstjóri ber hann ábyrgð á starfsemi Héraðsdóms Reykjavíkur og skiptir verkum milli dómara og starfsmanna réttarins. „Ef skipunin kemur öðru hvoru megin við næstu helgi, þá sleppur þetta sennilega sæmilega. Að öðrum kosti, ef þetta fer að dragast eitthvað frekar, þá þarf einfaldlega að fresta málum og það er bagalegt.“
Athugasemdir