Dómsmálaráðherra braut lög. Og reyndar ekki hvaða lög sem er.
Sigríður Andersen braut lög sem lúta að skipan dómsvalds í landinu, einu mikilvægasta og um leið viðkvæmasta sviði stjórnvalds í nokkru landi.
Hún braut lög um nákvæmlega það svið ríkisvaldsins sem framkvæmdavaldið á að umgangast af mesti varúð.
Og Sigríður braut reyndar ekki bara lög.
Með klúðri, flumbrugangi og yfirlæti dró hún stórlega úr trausti því sem fólk vonaðist til að geta haft á nýjum dómstól.
Hún gerði nýjan dómstól að leiksoppi sínum.
Og hún ætlar að bregðast við með því að breyta reglunum sem hún braut.
Hvað ætlar þú að gera í þessu, Katrín Jakobsdóttir?
Það átti svo margt að breytast þegar þú settist í stól forsætisráðherra, manstu?
Ef Sigríður Andersen kemst upp með þetta, þá hefur ekkert breyst.
Og það dugar ekki að þú masir eitthvað um hvað þetta sé „óheppilegt“ en „á það sé að líta að blablabla“ og þú hafir rætt við Sigríði og hún hafi lofað að gera þetta aldrei aftur.
Ef eitthvað þvíumlíkt verður niðurstaðan, þá er það bara sönnun þess að ekkert hefur breyst.
Athugasemdir