„Við teljum svo mikilvægt að laga heilbrigðiskerfið, samgöngurnar og menntakerfið að við tókumst það á hendur, við Vinstri græn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, að efna til samstarfs við þá flokka sem við höfum gagnrýnt hvað mest og aldrei unnið með áður,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld.
„Það er stundum talað um að við séum ekki að stuðla að kerfisbreytingum í þessari ríkisstjórn. Það er rangt. Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna. Það er búið að rétta við efnahagslífið eftir hrunið. Eftir standa innviðirnir, margir hverjir vanræktir til langs tíma. Viðfangsefnin eru alls staðar. Þess vegna erum við hér.“ Svandís sagði nýja ríkisstjórn leggja áherslu á að gera við samfélagsinnviðina en um leið að „virða samfélagssáttmálann, hefja aftur á loft þá sýn okkar flestra að enginn verði skilinn eftir og vinna samkvæmt því“.
Hún sagði að leggja þyrfti grunn að róttækri stefnu í loftslagsmálum og umhverfismálum. „Við erum að efla opinbera heilbrigðiskerfið, hlut aldraðra og öryrkja, skólana, tungutæknina og náttúruverndina. Við ætlum okkar að styrkja stöðu barnafólks, kvennastétta og brotaþola kynferðisbrota. Þetta eru mikilvægar samfélagsumbætur.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði einnig áherslu á uppbyggingu innviða, heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins, í stefnuræðu sinni. „Það er eðlileg krafa að íslenska heilbrigðiskerfið standist samanburð við það besta sem gerist í heiminum. Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu og mun ríkisstjórnin leggja áhersla á að draga úr kostnaði sjúklinga, bæta geðheilbrigðisþjónustu sérstaklega og forvarnir og byggja upp hjúkrunarrými,“ sagði hún. „Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í dag er lögð sérstök áhersla á heilbrigðismál en nánari uppbygging hennar mun svo koma fram í þeirri fjármálaáætlun sem verður lögð fyrir þingið í lok mars á næsta ári.“
Þá sagði hún að í menntamálum yrði ráðist í stórsókn. „Fjárframlög til háskóla munu ná meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og stefnt verður að því að þau nái meðaltali Norðurlandanna fyrir árið 2025. Iðn-, verk- og starfsnám verður eflt og rekstur framhaldsskólanna styrktur í takt við það sem þeim var lofað í fjármálaáætlun þarsíðustu ríkisstjórnar. Aðgerðaáætlun um máltækni verður fjármögnuð sem er alveg gríðarlega mikilvægt mál til að íslenskan geti orðið gjaldgeng í stafrænum heimi. Þar erum við beinlínis í kapphlaupi við tímann enda hafa tækniframfarir verið hraðar.“
Athugasemdir