Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að traust á stjórnmálunum verði ekki endurheimt öðruvísi en með baráttu gegn „þeirri spillingu, leyndarhyggju og frændhygli“ sem varð tveimur síðustu ríkisstjórnum að falli.
Þetta kom fram í ræðu hans í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld, en þar gagnrýndi hann Katrínu Jakobsdóttur og Vinstrihreyfinguna grænt framboð fyrir að hafa leitt „aðalleikarana úr tveimur síðustu harmleikjum á sviðið á ný“ og vísaði þar til Bjarna Benediktssonar og Sigríðar Á. Andersen.
„Það ekki trúverðugt að fela núverandi fjármálaráðherra endurskipulagningu bankanna og láta hann sýsla með arð af ríkisfyrirtækjum. Kaldhæðni að hann leiði baráttu gegn skattsvikum og undanskotum.
Og það eru vonbrigði að dómsmálaráðherra sem tók flokkinn sinn fram yfir almenning í nýlegu máli, er varðar uppreist æru, skuli leidd aftur til valda. Dapurlegt að treysta henni fyrir málefnum flóttamanna,“ sagði Logi.
Logi sagði nauðsynlegt að styrkja innviði og almannaþjónustu. Til þess þyrfti þó að afla varanlegra tekna. „Ekki berja aðeins í brestina og nota afgang og arð sem eru jafn hverfulir og íslenskt veður. Á toppi hagsveiflu er besti tíminn til þess að auka tekjur og jafna kjörin. Það er auk þess skynsamlegt, til þess að fresta og milda næstu niðursveiflu, lækka vexti og halda aftur af verðbólgu. Ríkisstjórnin ætlar hins vegar að setjast í sófann, éta úr ísskápnum og hirða ekki um að fara út og draga björg í bú. Líklega nóg til að þeirra mati. Afleiðingum þess er velt yfir á næstu ríkisstjórn,“ sagði hann.
Þá benti hann á að endurskoðun á tekjustofni fjármagnstekjuskatts kynni að éta upp megnið af hækkun skattsins. „Hækkun skatts á fjármagnstekjur mun litlu sem engu skila vegna nýrrar reiknireglu. Lækka á neðra þrep tekjuskatts, sem færir þeim tekjuhæstu þrefalt meira í vasann en öðrum á lágmarkslaunum. Fólki sem getur með engu móti náð endum saman. Ríkissjóður verður af milljörðum króna í tekjur sem gætu nýst til að ráðast gegn ójöfnuði og fátækt,“ sagði hann.
Logi lauk svo ræðu sinni með þessum orðum: „Kæru landsmenn. Hæstvirtur forsætisráðherra segir að í augum alþjóðasamfélagsins séum við fyrirmyndar þjóðfélag að ýmsu leiti. Og að við eigum að gleðjast yfir því sem vel gengur. Þó það sé vafalaust rétt að allir hafi það nokkuð gott að meðaltali birtast daglega óhuggulegar andstæður; líka hér á Íslandi.
Eldri hjón sitja fyrir framan arineld í rándýru einbýlishúsi og skrifa jólakort meðan gömul kona hýrist í kjallaraholu og veltir því fyrir sér hvort hún eigi að greiða rafmagnsreikninginn eða sækja sér læknishjálpar. Miðaldra kall sankar að sér íbúðum til að leigja á gróðavæddum skortmarkaði, meðan annar heldur upp á fimmtugsafmælið sitt í húsbíl í Laugardal og vonar að nóttin verði ekki köld. Útsjónasamur auðkýfingur andar léttar í lok dags eftir að hafa komið peningunum sínum fyrir á Panama en lítill strákur fær ekki bestu mögulegu lyf vegna þess að það vantar tugi milljarða af týndu fé í samneysluna. Ung fjölskylda, með börn, situr í þotu á leið til Þýskalands í aðventuferð. Fáum sætum aftar er ungur maður, veik ófrísk kona og lítið barn þeirra á leið burt úr öryggi, út í óvissuna, vegna þess að Ísland hafði ekki tök á því að veita þeim skjól. Lítill strákur fer að sofa á Þorláksmessukvöldi, fullur tilhlökkunar. Hann er sannfærður um að Kertasníkir verði rausnarlegur morguninn eftir og vonast svo eftir leikjatölvu í jólagjöf. Bekkjarfélagi hans skríður upp í rúmið sitt á sama tíma, veit að hann fær ekkert í skóinn og sofnar með kvíðatilfinningu vegna jólanna. Kæru landsmenn við getum gert svo mikið betur; gleðilega aðventu.“
Athugasemdir