Snemma að morgni 13. desember 1939 var þýska vasaorrustuskipið Admiral Graf Spee statt um 750 kílómetra austur af borginni Montevideo í Úrúgvæ. Skipið hafði verið sent til hafs í lok ágúst þegar Þjóðverjar sáu fram á að styrjöld myndi brjótast út milli þeirra og Breta og Frakka eftir fyrirhugaða þýska innrás í Pólland.
Þá hafði Admiral Graf Spee stímt til Suður-Atlantshafs og beið þar átekta eftir skipun um að hefjast handa við að herja á kaupskip óvina Þýskalands.
Þann 20. september hófst vasaorrustuskipið handa og sigldi víða um Suður-Atlantshafið næstu þrjá mánuði og meira að segja inn á Indlandshaf.
Leiðangurinn þótti ganga vel. Hans Langsdorff skipherra Admiral Graf Spee náði að stöðva eða sökkva níu breskum kaupskipum, sem samtals voru um 50.000 tonn.
Langsdorff fór nákvæmlega eftir öllum Genfar-reglum um hátterni í stríði og enginn týndi lífi af áhöfnum bresku skipanna.
Bretar og Frakkar voru í öngum sínum og sendu fjölda herskipa á þessar slóðir til að reyna að hafa upp á vasaorrustuskipinu.
Og það var sem sagt að morgni 13. desember sem Admiral Graf Spee sigldi fram á þrjú bresk beitiskip þarna í hafinu austur af Úrúgvæ.
Þau hétu Exeter, Ajax og Achilles. Stærst þeirra var hið fyrstnefnda en Henry Harwood „commodore“ sem stýrði aðgerðum af hálfu Breta var um borð í Ajax.
Langsdorf hélt í fyrstu að Exeter væri að fylgja kaupskipalest og réðist strax til atlögu. Í raun hefði hann átt að flýja af hólmi. Hættan á að skip hans yrði fyrir skemmdum í orrustu var mjög umtalsverð og ljóst að engin leið yrði að gera við þær skemmdir svo langt frá vinveittri höfn.
Admiral Graf Spee hafði stærri og langdrægari fallbyssur en bresku beitiskipin og Langsdorff hefði því væntanlega getað haldið bresku skipunum frá sér meðan hann freistaði þess að komast undan - þótt bresku skipin væru raunar hraðskreiðari.
Nú tókst stutt og snörp orrusta. Þýska skipið hitti öll bresku beitiskipin og olli sérlega miklu tjóni á Exeter sem þó hélst á floti. Eftir að allar stóru fallbyssur Exeters urðu óvirkar ákvað skipstjóri beitiskipsins, Bell að nafni, að reyna að sigla á þýska skipið og sökkva því þannig.

Það hefði að sjálfsögðu leitt um leið til þess að Exeter færist.
Ekkert varð þó úr þessu, enda leitaði Admiral Graf Spee brátt undan.
Talsvert tjón hafði orðið á þýska skipinu og 36 menn höfðu farist af um 1.100 manna áhöfn.
Vasaorrustuskipið gekk fyrir díselolíu og olíuhreinsibúnaður skipsins hafði skemmst svo mjög að nú lá í augum að skipið myndi eiga mjög erfitt með að ná alla leið heim til Þýskalands.
Langdorff sigldi sem leið lá í höfn í Montevideo í Úrúgvæ og hugðist reyna að fá gert við skipið þar en fljótt varð ljóst að þar yrði ekki hægt, allra síst á þeim stutta tíma sem Langsdorff hafði.
Bæði var herskipum stríðsaðila bannað að vera nema 72 stundir í höfnum hlutlausra ríkja - eins og Úrúgvæ var - og svo vissi þýski skipherrann mæta vel að ef hann stoppaði lengi í Úrúgvæ myndi Bretum og Frökkum vinnast tími til að safna heilum flota fyrir utan höfnina, sem tæki síðan á móti Admiral Graf Spee þegar þýska skipið hætti sér úr höfn.
Og þar yrði Admiral Graf Spee auðveld bráð, ekki síst af því Langsdorff hafði eytt meirihluta skotfæra sinna í orrustunni við Exeter, Ajax og Achilles.
Bretar náðu reyndar með miklum blekkingum að sannfæra Þjóðverja um að heilmikill floti væri þegar kominn á þessar slóðir svo þegar Admiral Graf Spee varð að leggja úr höfn 18. desember ákvað Langsdorff að sökkva skipi sínu frekar en hætta lífi áhafnar sinnar í bardaga, sem hann taldi vonlausan.
Reyndin var sú að úti fyrir ströndinni biðu þó aðeins Ajax og Achilles. Exeter hafði haldið til Falklandseyja til bráðabirgðaviðgerða.
Auk Langsdorff var aðeins 40 manna áhöfn um borð þegar lagt var upp frá Montevideo og skipinu var sökkt þegar það var vart komið út úr hafnarmynninu.
Langsdorff og hin 40 manna áhöfn flýtti sér í land og Þjóðverjarnir hröðuðu sér síðan til Buenos Aires í Argentínu á dráttarbát. Aðrir úr áhöfninni urðu eftir í Montevideo.
Langsdorff tók með sér orrustufána Admiral Graf Spee og þann 20. desember breiddi hann fánann á gólfið á hótelherbergi sem hann hafði leigt sér í Buenos Aires og skaut sig.
Áður hafði hann skrifað bréf þar sem stóð:
„Ég get nú aðeins sannað með eigin dauða að hermenn Þriðja ríkisins eru tilbúnir til að láta lífið fyrir heiður fánans. Ég einn ber alla ábyrgð á því að brynskipið Admiral Graf Spee var sökkt. Það er mér ánægja að borga með lífinu fyrir það álit sem sá atburður kann að hafa haft á heiður fánans. Ég horfist í augu við örlög mín með fjallgrimma trú á hlutverk og framtíð þjóðar minnar og Foringja míns.“
Svo fór náttúrlega að dauði Langdorffs varð þýðingarlaus með öllu, nema hvað þýsk flotayfirvöld urðu ráðin í að koma framvegis í veg fyrir aðra eins „smán“ og þá að þýskt herskip berðist ekki til síðustu byssukúlu til þess eins að bjarga lífi áhafnar.
Þetta leiddi meðal annars til þess að þegar þýska orrustuskipið Scharnhorst lenti í bardaga við breska orrustuskipið Duke of York á annan í jólum 1943 var það fyrsta verk þýska flotaforingjans um borð í Scharnhorst að senda skeyti til Hitlers um að hann myndi berjast til síðustu kúlu.
Um þá sorgarsögu má reyndar lesa í bókinni minni, Til orrustu frá Íslandi, sem fæst í öllum bókabúðum!!
Athugasemdir