Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins ætlar að auka framlög til sjúkrahúsþjónustu um 3 milljarða til viðbótar við það sem til stóð samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar.
Þá verða fjárframlög vegna málefna öryrkja og aldraðra samtals um 3 milljörðum hærri og framlög vegna samgöngu- og fjarskiptamála um 1,7 milljörðum hærri.
Þetta má sjá af frumvarpi Bjarna Benediktssonar til fjárlaga sem dreift var á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu nú um níuleytið og birtist á vef stjórnarráðsins rétt í þessu.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar, fyrrverandi fjármálaráðherra, áttu heildarútgjöld til sjúkrahússþjónustu að hækka úr 83 milljörðum upp í 88,5 milljarða á fjárlagaárinu 2018.
Í frumvarpi Bjarna er hins vegar gert ráð fyrir 91,5 milljörðum til málefnasviðsins á árinu 2018.
Jafnframt aukast framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa 1,3 milljörðum meira en til stóð og framlög vegna lyfja og lækningavara verða 3 milljörðum hærri.
Þetta er nokkur breyting frá stefnu fyrri ríkisstjórnar að því er varðar eflingu samneyslunnar.
Hins vegar er ljóst að jákvæði tekjumismunurinn milli fjárlagafrumvarps Benedikts og fjárlagafrumvarps Bjarna er að mestu til kominn vegna þess að efnahagslegar forsendur og þjóðhagsspár hafa breyst.
Af þessum sökum, og vegna fyrirhugaðrar hækkunar fjármagnstekjuskatts, verða tekjur hins opinbera hátt í 7 milljörðum meiri samkvæmt fjárlagafrumvarpi nýrrar stjórnar heldur en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi Benedikts. Afgangurinn af rekstri ríkissjóðs er áætlaður 35 milljarðar á árinu 2018.
Athugasemdir