Einn helsti leyndardómur dýrafræðinnar nú á dögum snýst um hvort vera kunni að Tasmaníu-tígrar séu enn á lífi á eyjunni sem þeir eru kenndir við.
Þessi sérkennilegu pokadýr voru stærstu rándýrin á Tasmaníu þegar Evrópumenn komu þangað á 17. öld. Þau höfðu áður einnig búið á meginlandi Ástralíu en höfðu dáið út þar töluvert fyrr, þótt ekki sé ljóst hvenær.
Tígrarnir voru á stærð við allstóran hund og líktust reyndar hundum mjög í útliti, ef rákirnar á aftanverðum skrokknum eru undanskildar, en vegna þeirra kölluðu Evrópumenn dýrið tígrisdýr þótt sé alls ekki skylt tígrisdýrum.
Tasmaníu-tígurinn var heldur ekki skyldur hundum. Vísindamenn hafa komist að því með því að skoða DNA úr tígrunum að sameiginlegur forfaðir hunda og Tasmaníu-tígra var uppi fyrir hvorki meira né minna en rúmlega 150 milljón árum, eða á Júra-tímabilinu meðan risaeðlur réðu ríkjum á jörð.
Það hversu svipaðir tígrarnir eru dýrum af hundakyni, einkum gráúlfi og rauðref, segja vísindamenn að sé stórmerkilegt dæmi um hliðstæða þróun - það er að segja hvernig dýr sem búa í svipuðu umhverfi og við svipaðar aðstæður þróast á svipaðan hátt og enda áþekk í útliti þótt skyldleikinn sé lítill eða enginn, eins og segja má um frændsemi sem nær meira en 150 milljón ár aftur í tímann.
En hinar nýju DNA-rannsóknir á uppstoppuðum Tasmaníu-tígrum hafa leitt fleira í ljós. Svo virðist sem einangrun og lítil viðkoma dýranna hafi leitt til svo mikillar „innræktunar“ að tegundin hafi nánast verið dauðadæmd áður en Evrópumenn á Tasmaníu tóku sér fyrir hendur að útrýma henni.
Fyrir um 70.000 árum varð stofninn fyrir miklu en óþekktu áfalli, líklega vegna loftslagsbreytinga, og þegar menn komu nokkru síðar til Ástralíu, formæður og -feður núverandi frumbyggja, þá varð ljóst að tegundin myndi vart eiga sér viðreisnar von.
Eftir að hundar komu til Ástralíu, hinir svonefndu dingóar, fengu Tasmaníu-tígrarnir svo mikla samkeppni að einstaklingum fækkaði enn, innræktun varð enn meiri og leiddi til þess að tegundin varð sífellt viðkvæmari fyrir sjúkdómum.
Tasmaníu-tígrarnir voru sem sagt heilsuveilir og þurfti lítið til að ganga sífellt nær stofni þeirra.
Fyrir um 10.000 árum rofnaði sambandið milli Ástralíu og Tasmaníu og eftir það voru tígrarnir á Tasmaníu einir á báti og DNA þeirra hnignaði enn.
Vandséð er, segja vísindamennirnir, að tegundin hefði lifað af þótt Evrópumenn með veiðiriffla sína hefðu ekki komið til Tasmaníu.
En svo fór að Evrópumennirnir gengu af Tasmaníu-tígrunum endanlega dauðum og síðasti tígurinn sem vitað er um dó árið 1936.
Reyndar herma þrálátar sögur að tígrar kunni enn að leynast í þéttum skógum Tasmaníu og jafnvel á meginlandi Ástralíu, en þær sögur verða að teljast í besta falli vafasamar.
Athugasemdir