„Það kemur bara enn og aftur fram að við eigum að fá afhent gögn frá Isavia sem við höfum ekki ennþá fengið. Isavia strikaði yfir upplýsingar í gögnum sem við fengum og við vildum fá þessi gögn óyfirstrikuð,“ segir Aðalheiður Héðinsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Kaffitárs, aðspurð um úrskurð sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp fyrr í mánuðinum í deilu fyrirtækisins við ríkisfyrirtækið Isavia.
Kaffitár hefur átt í áralöngu stappi við Isavia um veitingu upplýsinga um útboð á verlsunarrými í Leifsstöð sem fram fór árið 2014. Í útboðinu fékk Kaffitár ekki að leigja áfram verslunarrými í Leifsstöð og var fyrirtækið Lagardére Travel Retail ehf., sem er í eigu fransks flugvallarfyrirtækis og íslenskra aðila sem meðal annars tengjast Kaupfélagi Skagfirðinga.
Aðalheiður segir hins vegar að Isavia hafi sótt um frestun réttaráhrifa vegna úrskurðarins en þetta þýðir að ríkisfyrirtækið mun ekki þurfa að veita Kaffitári aðgang að gögnunum strax. „Isavia hefur farið fram á frestun réttaráhrifa, alveg eins og þeir hafa gert áður. Þetta er áttundi úrskurðurinn sem kemur og alltaf er þetta okkur í vil,“ segir Aðalheiður.
Í úrskurðinum er fallist á að Kaffitár eigi að fá hluta af gögnunum um útboðið óyfirstrikuð en að hluta er fallist á Isavia þurfi ekki að veita fyrirtækinu aðgang að öllum gögnunum í málinu.
„Við viljum bara að þetta ríkisfyrirtæki
fari að lögum eins og aðrir“
Aðalheiður segir aðspurð að hún ætli ekki að hætta málarekstrinum gegn Isavia þrátt fyrir að málið hafi dregist nokkuð á langinn. „Ég borða bara góðan og hollan mat og er í ræktinni og sef vel svo að mér endist ævin til að reka þetta mál. Það er bara þannig. Við viljum bara að þetta ríkisfyrirtæki fari að lögum eins og aðrir. Ef það reynist rétt að svo hafi verið, með engum útstrikunum, þá er það bara þannig og við fáum að sjá það,“ segir Aðalheiður og bætir því við hún telji að taktík Isavia í málinu sé að reyna að þæfa það og flækja eins mikið og mögulegt sé til að þreyta Kaffitár í rekstri málsins.
Athugasemdir