Undanfarin ár hafa sýnt okkur að sjálfstæð peningastefna getur virkað fyrir Ísland þótt ekki sé endilega víst að sú verði raunin um alla framtíð. Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri á fundi Viðskiptaráðs um peningamál sem haldinn var í Gamla bíói á dögunum. Ræða hans af fundinum var birt á vef Seðlabankans í dag.
„Ef litið er framhjá eftirmálum þess að fastgengisstefnan steytti á skeri, fjármálakreppunni og tímabili fjármagnshafta er ekki að sjá að skammtímasveiflur krónunnar skilji sig mikið frá skammtímasveiflum annarra norræna króna, sem eru sveigjanlegar, eða hrávörugjaldmiðla. Það koma einnig toppar í flökt þessara gjaldmiðla,“ sagði Már.
Þetta er í samræmi við ummæli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, sem hefur bent á að ekki sé til neitt fyrirkomulag peningamála sem láti sveiflur á gengi og vöxtum hverfa. Raungengissveiflur þekkist bæði í löndum sem búi við sveigjanlegt gengi og fastgengisstefnu.
„Peningastefnan getur t.d. ekki til lengdar haft áhrif á raungengið. Hún getur þannig lítið gert í því að draga úr ruðningsáhrifum mikils vaxtar nýrrar útflutningsgreinar. Ef hún myndi reyna það yrðu áhrifin aðeins tímabundin en á kostnað þess að fórna þeim markmiðum sem henni hafa verið sett og hún getur náð,“ sagði Már á fundinum í Gamla bíói. „Atvinnuvegastefna og ríkisfjármálastefna getur hins vegar haft slík raunáhrif til langs tíma og það er þangað sem þeir eiga að leita sem hafa af þessu áhyggjur.“
Már velti því upp hvað hefði breyst síðan Seðlabankinn birti ítarlega skýrslu um valkosti Íslands í peningamálum árið 2012. Meginniðurstaða skýrslunnar var sú að æskilegustu valkostirnir væru annars vegar full aðild að evrusvæðinu í gegnum samningsferli við Evrópusambandið og hins vegar áframhald sveigjanlegs gengis með verðbólgumarkmiði.
Ljóst var þá að sjálfstæð peningastefna og sveigjanlegt gengi höfðu ekki virkað sérlega vel í gegnum tíðina, en að sama skapi hafði fjármálakreppan afhjúpað alvarlega veikleika í uppbyggingu evrusvæðisins. Hvorki þá né nú er afgerandi stuðningur við það á Alþingi að Ísland freisti þess að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru.
„Hefur eitthvað breyst? Evrusvæðið er enn að innleiða þær umbætur sem taldar eru nauðsynlegar til að það virki vel og ekki sýnist mér að pólitískur stuðningur við slíkt ferli hafi mikið aukist síðan skýrslan var gefin út. Hins vegar hafa margvíslegar umbætur verið gerðar á framkvæmd peningastefnunnar hér á landi,“ sagði Már. „Þá hefur fjármálastöðugleikastefna verið stórbætt. Miklu af því sem ég hef kallað verðbólgumarkmið plús hefur þegar verið hrundið í framkvæmd. Við höfum nú séð á síðustu árum að sjálfstæð peningastefna getur virkað rétt, líka hér. Þar erum við nú. Það þarf ekki að þýða að við verðum þar um alla framtíð. Það er engin eilíf lausn til í peningamálum og mismunandi kostir þróast í tímans rás.“
Athugasemdir