Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kallar Katrínu Jakobsdóttur sósíalista og segir Bjarna Benediktsson vera farþega sem hljóti að hætta í stjórnmálum, ef hann fellst á forsendur núverandi stjórnarmyndunarviðræðna, í færslu sinni um viðræðurnar. Sjálfur hafði Sigmundur farið fram á stjórnarmyndunarumboð eftir kosningarnar í lok október, en virtist hvorki vera inni í myndinni fyrir myndun vinstri stjórnar né íhaldsstjórnar frá vinstri til hægri. Hann finnur báðum stjórnarmyndunarviðræðum margt til foráttu og segir þær fyrri „leiksýningu“.
Fyrir fjórum árum rúmum vann Sigmundur að því með Bjarna að mynda ríkisstjórn. Fóru þeir saman í sumarbústað fjölskyldu Bjarna við Þingvallavatn, borðuðu vöfflur með rjóma, fóru í göngu, grilluðu og báðu um óskalag í útvarpinu, Wild Boys með Duran Duran.
Nú er Sigmundur hins vegar ekki hluti af stjórnarmyndunarviðræðum fyrrverandi félaga hans, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, heldur Katrín Jakobsdóttir. Í færslunni virðist Sigmundur reyna að reka fleyg í samstarfið.
„Óvenjuleg hegðun“
Sigmundur kallar Katrínu sósíalista og segir Bjarna Benediktsson og Sjálfstæðisflokkinn sýna „einkar óvenjulega hegðun“. Hann sé „farþegi í allri þessari atburðarás“.
„Auk þess áformar hann að brjóta blað með því að gera sósíalista að forsætisráðherra á Íslandi í fyrsta skipti.“
„Formaður flokksins þráir nú að komast í ríkisstjórn með fólki sem hefur um langt skeið kallað hann glæpamann og öðrum verri nöfnum. Hann leitast við að koma til valda fólki sem gekk hart fram við að reyna að koma fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í fangelsi, ásamt fjármálaráðherra flokksins. Auk þess áformar hann að brjóta blað með því að gera sósíalista að forsætisráðherra á Íslandi í fyrsta skipti. Full ástæða verður til að óska Katrínu Jakobsdóttur til hamingju með að ná þessum áfanga og að hafa tekist ætlunarverkið með því að beygja bæði grasrót eigin flokks og allan Sjálfstæðisflokkinn samtímis. Það er ekki lítið afrek.“
Þá segir hann skattkerfisbreytingarnar munu sýna hvort hægri eða vinstri verði sterkara í viðræðunum. „Ef formaður Sjálfstæðisflokksins gefur eftir bæði forsætisráðuneytið og efnahagsmálin má heita öruggt að hann ætli sér ekki að verða í framboði í næstu kosningum.“
Og Sigmundur vandar Framsóknarflokknum ekki heldur kveðjurnar. „Nú er útlit fyrir að markmiðið um bandalag Sjálfstæðisflokks og sósíalista náist með hjálp Framsóknarflokksins.“
Hagsmunaárekstur afhjúpaður - hótar lögsókn
Sigmundur hafði því sem næst hætt að mæta á Alþingi og nefndarfundi þingsins eftir að hann tapaði formannskosningu í Háskólabíói í október í fyrra, hvaðan hann yfirgaf salinn samstundis við úrslitin og sagði síðar að brögð hefðu verið í tafli. Aðdragandinn að því að flokksmenn kusu annan formann var að Sigmundur Davíð hafði reynst vera í leyndum hagsmunaárekstri persónulegrar og opinberrar stöðu sinnar sem forsætisráðherra, þar sem félag sem var áður í eigu hans og eiginkonu hans, sem Sigmundur sendi konu sinni að helmingi fyrir einn Bandaríkjadal, átti meira en hálfs milljarðs króna kröfu í þrotabú íslensku bankanna sem Sigmundur sýslaði með sem forssætisráðherra. Sigmundur hafði sem forsætisráðherra það hlutverk að tryggja að hagsmunir ráðherra væru uppi á borðinu og siðareglum ráðherra fylgt, en gerði það ekki í eigin tilfelli. Sigmundur hefur hótað þremur fjölmiðlum málsókn vegna umfjöllunar um hagsmunaárekstur hans sem lá hulinn á aflandssvæði áður en sýnt var fram á hann í umfjöllun um Panamaskjölin. Hann vann hins vegar kosningasigur í Alþingiskosningunum í lok október og fékk 10,9 prósent atkvæða á landsvísu og sjö þingmenn kjörna.
Athugasemdir