„Íslendingar eru góðir í fótbolta og þið kunnið að gera svona skýrslur,“ segir Karl-Henrik Grinnemo, læknir á Uppsala-sjúkrahúsinu í Svíþjóð sem var einn af þeim fjórum læknum sem upphaflega kærði plastbarkaaðgerðir Paulos Macchiarinis. Grinnemo er búinn að lesa skýrsluna um plastbarkamálið sem birt var í gær og er mjög ánægður með hvað hún er vönduð: „Hér í Svíþjóð hefur aldrei, aldrei, aldrei verið gerð svona ítarleg og nákvæm skýrsla um þetta mál. Það er bara mikill munur á þessari skýrslu og sænsku skýrslunum,“ segir hann en höfundar skýrslunnar eru þau Páll Hreinsson, Georg A. Bjarnason og María Sigurjónsdóttir.
Niðurstöður skýrslunnar eru mjög skýrar og segir Karl-Henrik aðspurður að þetta sé einn af helstu kostum hennar. „Niðurstöðurnar í hverjum kafla í skýrslunni eru mjög skýrar og gefa litla eða enga möguleika á öðrum túlkunum en nefndin kemst að niðurstöðum um. Sænsku skýrslurnar hafa ekki verið með eins skýrar niðurstöður og hafa verið óljósari.“
Grinnemo og samstarfsfélagar hans Oscar Simonsson, Matthias Corbiasco, og Thomas Fux, fengu meðal annars uppljóstraraverðlaun frá alþjóðlegu samtökunum Transparency International vegna vinnu sinnar við að koma upp um Macchiarini-málið í Svíþjóð.
Hafa sjálfir talað um brot gegn réttindum
Grinnemo segir aðspurður að hann og félagar hans telji að Paulo Macchiarini, Karolinska-sjúkrahúsið og Karolinska-háskólinn hafi brotið gegn mannréttindum Andemariams Beyene og hinna tveggja plastbarkaþeganna sem fengu gervibarka í Svíþjóð. Þetta er ein af niðurstöðum skýrslunnar um plastbarkamálið; niðurstaða sem ekki hefur verið talað um hingað til í sænskum skýrslum um málið. „Já, það er alveg rétt. Við höfum sagt allan tímann að sjúkrahúsið og háskólinn hafi brotið gegn réttindum þessa fólks, þó við höfum ekki notað orðalagið mannréttindabrot. En það var brotið gegn flestum þeirra laga og reglna sem til eru og eiga að gilda um veitingu heilbrigðisþjónustu.“
„Það var brotið gegn flestum þeirra laga og reglna sem til eru og eiga að gilda um veitingu heilbrigðisþjónustu.“
Grinnemo segir líka að hann hafi alltaf mælt með því að Karolinska-sjúkrahúsið og háskólinn eigi að borga skaðabætur til aðstandenda þeirra sem Paulo Macchiarini græddi plastbarka í. Þetta er líka ein af niðurstöðunum í íslensku skýrslunni. „Það voru engin leyfi fyrir þessum aðgerðum, hvorki frá vísindasiðanefnd eða læknisyfirvöldum og það var ekki búið að reyna þessar aðgerðir á dýrum. Þessar stofnanir hafa stofnað þessu fólki í hættu án þess að þetta fólk hafi vitað það fyrirfram. Og það er enginn annar en Macchiarini, sjúkrahúsið og háskólinn sem gerðu þetta,“ segir Karl-Henrik.
Skýrslan sýnir blekkingar Macchiarinis
Sænski læknirinn segir að lykilatriði í íslensku skýrslunni sé hvernig Paulo Macchiarini blekkti Tómas Guðbjartsson til að breyta lýsingu sinni á sjúkdómstilfelli og greiningu á krabbameini Andemariams Beyene í aðdraganda aðgerðarinnar til að fá fram réttlætingu á henni. Með þessu er átt við að lýsingu á tilfelli Andemariams hafi verið breytt þannig að tilraunaaðgerð eins og plastbarkaaðgerð hafi verið eina leiðin til að bjarga lífi hans en ekki aðrar aðgerðir. „Við teljum að íslenska rannsóknin geti leitt til þess að ákæruvaldið taki Macchiarini-málið upp aftur og ákæri hann fyrir brot. Og ekki bara Macchiarini heldur líka yfirmenn á sjúkrahúsinu og í háskólanum,“ segir Karl-Henrik, en ákværuvaldið sænska felldi niður rannsókn á máli Macchiarinis fyrr í haust.
„Þetta eru upplýsingar sem ekki hafa legið fyrir áður. Ég þekki Tómas Guðbjartsson og hann er að mörgu leyti góður maður. Það sem skýrslan sýnir er að Paulo Macchiarini blekkti hann í aðdraganda aðgerðarinnar á Andemariam Beyene til að fá hann til að samþykkja meðferðina sem þessi sjúklingur fékk svo á Karolinska-sjúkrahúsinu. Þetta er það nýja í málinu, þessar blekkingar. Þetta ætti að vera nóg til þess að ákæruvaldið taki málið gegn Paulo Macchiarini upp aftur og ákæri hann,“ segir Karl-Henrik en aðstandendur þeirra sem fengu grædda í sig plastbarka þurfa þá að kæra Macchiarini aftur til ákværuvaldsins í Svíþjóð.
Oscar Simonsson, annar af fjórmenningunum sem kærðu málið á sínum tíma, tekur undir það að skýrslan sýni blekkingar Macchiarinis. „Að mínu mati getur Ísland verið stolt af því að hafa staðið fyrir svona nákvæmri og ítarlegri rannsókn. Skýrslan sýnir hvernig Macchiarini notaði blekkingar til að ná sínu fram en þetta kom einnig fram í upphaflegri kæru okkar í málinu. [...] Það er einnig gleðiefni að nefndin mælir með því að ekkja íslenska sjúklingsins fái greiddar bætur. Þetta er atriði sem við höfum krafið Karolinska-sjúkrahúsið um í 3 ár.“
Tómas sendur í leyfi frá störfum
Í svari frá Landspítalanum um stöðu Tómasar Guðbjartssonar á spítalanum í ljósi niðurstöðu skýrslunnar kemur fram að hann hafi verið sendur í leyfi frá störfum.
„Það staðfestist að Landspítali ákvað að Tómas Guðbjartsson yrði í leyfi frá störfum um sinn í ljósi heildarhagsmuna.“
Orðrétt segir í svarinu: „Landspítali tekur niðurstöður og ábendingar nefndarinnar mjög alvarlega og mun bregðast við þeim. Þegar hefur verið ákveðið að vísa málinu til siðfræðinefndar spítalans, taka upp samskipti við vísindasiðanefnd varðandi ábendingar skýrslunnar, meðal annars um mun á gagna- og sjúklingarannsóknum sem og að taka afstöðu til tillögu skýrslunnar um bætur til ekkju sjúklingsins.
Að öðru leyti mun spítalinn taka sér tíma til að rýna skýrsluna gaumgæfilega og bregðast við frekari ábendingum og málum sem upp kunna að koma í þeirri rýni. Það staðfestist að Landspítali ákvað að Tómas Guðbjartsson yrði í leyfi frá störfum um sinn í ljósi heildarhagsmuna.“
Samkvæmt heimildum Stundarinnar er um fjögurra vikna leyfi frá störfum að ræða í tilfelli Tómasar.
Athugasemdir