Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, hafnar því að Sjálfstæðisflokkurinn sé að hlaupast undan fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar með því að lofa bæði 100 milljarða viðbótarútgjöldum til innviðauppbyggingar og stórfelldum skattalækkunum á næsta kjörtímabili.
„Það er enginn að hlaupast undan þessari fjármálaáætlun,“ sagði hún í kosningaþætti Stöðvar 2 í gær eftir að Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri grænna, hafði bent á að kosningaloforð stjórnarflokkanna væru á skjön við útgjalda- og tekjuramma fjármálaáætlunarinnar sem stjórnarmeirihlutinn samþykkti fyrr á árinu. Sigríður sagði Sjálfstæðisflokkinn kannast vel við fjármálaáætlunina og ekki vera á flótta undan þeirri framtíðarsýn sem þar birtist.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og oddviti Viðreisnar í Kraganum, sagði í viðtali við Stundina á mánudag að loforðin um 100 milljarða útgjaldaaukningu og stórfelldar skattalækkanir væru til marks um örvæntingu og að Sjálfstæðisflokkurinn væri að „fara fram úr sér í kosningabaráttu“.
Þorsteinn Víglundsson, samráðherra hennar í starfsstjórninni, hefur tekið tekið í sama streng. „Flokkurinn hlýtur að þurfa að útskýra hvar eigi að skera niður í ríkisrekstrinum til að fjármagna þetta. Það er augljóst að það er ekki svigrúm fyrir þessar skattalækkanir í nýsamþykktri ríkisfjármálaáætlun sem flokkurinn stóð að. Varla á að skera niður í heilbrigðis- og velferðarkerfinu til að fjármagna skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins?“ skrifaði hann nýlega á Facebook.
Stefna Bjartrar framtíðar í efnahagsmálum er óljós en bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn hafa kynnt kosningaloforð sem munu fela í sér breytingar á gildandi fjármálaáætlun. Viðreisn vill aðeins 11,5 milljarða útgjaldaaukningu til viðbótar við aukningu fjármálaáætlunar sem renni til heilbrigðis- og velferðarmála, menntakerfisins, byggðamála og löggæslu. Sjálfstæðisflokkurinn boðar hins vegar 100 milljarða útgjaldaaukningu vegna innviðauppbyggingar, fjármagnaða með einskiptistekjum í formi óreglulegra arðgreiðslna vegna lækkunar eiginfjár viðskiptabankanna, samhliða tugmilljarða skattalækkana á fólk og fyrirtæki. Vinstriflokkarnir boða einnig tugmilljarða útgjaldaaukningu og vilja fjármagna hana með aukinni gjaldtöku af auðlindum, auknum álögum á hátekju- og stóreignafólk og arðgreiðslum úr bönkunum.
Athugasemdir