Árið 1953 var í hinu fimm ára Ísraelsríki komið upp stofnun sem hafði það hlutverk að minnast helfararinnar gegn Gyðingum í síðari heimsstyrjöld.
Yad Vashem heitir hún.
Meðal þess sem hún tók sér fyrir hendur var að heiðra þau sem höfðu lagt sig í hættu við að bjarga Gyðingum, þótt þau væru ekki af Gyðingaættum sjálf.
Þetta fólk fékk heiðursnafnbótina „réttlátir meðal þjóðanna“.
Hingað til hafa 26.513 fengið þessa nafnbót frá Yad Vashem. Flestir eru Pólverjar, eða 6.706.
Næstflestir eru Hollendingar, þá Frakkar, Úkraínumenn, Belgar og Litháar. Næstir í röðinni eru Ungverjar, Ítalir, Hvít-Rússar og síðan Þjóðverjar, sem eru tæplega 600 á listanum.
Þótt nú sé að verða langt um liðið frá því helförinni lauk er Yad Vashem enn að störfum og fyrir fáeinum dögum var 100 ára gamalli pólskri konu veitt viðurkenningin „réttlát meðal þjóðanna“. Látnum eiginmanni hennar var veitt sama viðurkenning.
Ísraelska blaðið Haaretz segir svo frá:
„Aleksandru Cybulska var veitt viðurkenningin ... á heimili sínu á pólsku borginni Gdyniu síðastliðinn fimmtudag [19. október]. Aðstoðarsendiherra Ísraels, Ruth Cohen-Dar, afhenti skjalið [til merkis um viðurkenninguna].
Eiginmaður Cybulska, Kazimierz Cybulska, sem dó árið 2002 94ja ára að aldri var einnig útnefndur „réttlátur meðal þjóðanna“.
Þau hjón fengu þessa viðurkenningu fyrir að hafa verndað stúlku af Gyðingaættum, Soniu Berkowicz. Þau voru vinir foreldra Soniu, Gershon og Idel Berkowicz.
Nasistar fluttu Berkowicz fjölskylduna í Kleck-gettóið nálægt Minsk, sem er nú hluti Hvíta-Rússlands. Vorið 1942 börðu Sonia Berkowicz og bræður hennar að dyrum Cybulska-hjónanna í þorpinu Jakszyce og báðu um mat. Í nokkra daga földu pólsku hjónin systkinin öll á heimili sínu en seinna sneru bræðurnir aftur í gettóið og Sonia varð ein eftir hjá þeim.“
Sonia var þá níu ára gömul.
Jafnframt kemur fram á vefsíðu POLIN, Gyðingasafnsins í Varsjá, að kaþólski presturinn í þorpinu hafi hjálpað til við að útvega Soniu fölsuð fölsuð skilríki þar sem fram kom að hún hefði verið skírð til kristni og héti Zofia Flejow. Hún bjó síðan hjá Cybulska-hjónunum undir því nafni þar til 1943.
Haaretz heldur áfram:
„Seinna var [Sonia] send til annarrar fjölskyldu í þorpi nálægt Pinsk en hún hélt sambandi við Cylbulska-hjónin og sneri að lokum aftur til þeirra. Hún var hjá þeim til 1946 þegar hún var fengin í hendur Gyðingasamtökum sem björguðu munaðarlausum Gyðingabörnum eftir heimsstyrjöldina.
Foreldrar Soniu og bræður hennar voru drepin í helförinni. Hún flutti til Ísraels stuttu eftir stríðið en hélt síðar til Bandaríkjanna.
Á sjötta áratugnum missti hún samband sitt við Cybulska-hjónin. Seinna kom í ljós að hún vissi ekki að þau hefðu flutt til Gdynia og hafði því haldið áfram að reyna að skrifa þeim á gamla heimilisfangið [í Hvíta-Rússlandi].
Fyrr á þessu ári komst hún hins vegar í samband við Aleksöndru Cybulska gegnum netið.
Sonia Liberman (áður Berkowicz) er nú 84ja ára. Hún og börn hennar þrjú búa í Bandaríkjunum.“
Athugasemdir