Hanna Katrín Friðriksson, fulltrúi Viðreisnar í nefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi sem nú er hætt störfum, lagði fram tillögu um að gerðir yrðu 25 ára nýtingarsamningar við útgerðir með árlegu uppboði 4 prósenta aflahlutdeilda og að um leið yrðu veiðigjöld afnumin.
Þetta kemur fram í greinargerð Þorsteins Pálssonar, formanns nefndarinnar, sem segist hafa slitið störfum nefndarinnar vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins við breytingar á núverandi fyrirkomulagi fiskveiða og gjaldtöku í sjávarútvegi.
Greinargerðina er að finna á vef stjórnarráðsins og birtir hann þar vinnugögn nefndarinnar, meðal annars tillögu Viðreisnar um framkvæmd gjaldtöku af sjávarútvegsauðlindinni.
Í minnisblaði Hönnu Katrínar, þar sem gjaldtökuhugmyndirnar eru settar fram, er lagt til að gerðir verði „nýtingarsamningar í samræmi við álit sáttanefndar undir forystu Guðbjarts Hannessonar frá 2010 og drög að frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar frá 2014 og með tilvísun í hugmyndir Jóns Gunnarssonar frá 2016“.
Yrðu samningarnir einkaréttarlegs eðlis og samhliða þeim yrðu veiðigjöld aflögð. „Núverandi gjaldtöku verði hætt, en í stað þess verði lausir samningar seldir á markaði. Öll íslensk fiskiskip með leyfi til veiða geti keypt aflahlutdeild á markaði, í samræmi við gildandi reglur,“ segir í skjalinu. „Reglur um rétt til kaupa og sölu á aflamarki og aflahlutdeild, sem og um hámarkseign einstakra aðila, verði óbreyttar frá núverandi fyrirkomulagi.“
Með umræddu fyrirkomulagi yrði nýtingarsamningum í upphafi úthlutað til núverandi eigenda aflahlutdeildar þannig að 4 prósent samninga yrði laus á hverju ári. Samið yrði til 25 ára og myndi hluti tekna af sölu aflahlutdeilda renna í sjóð sem hefði það verkefni að efla byggð utan höfuðborgarsvæðisins.
Athugasemdir