Allt frá því að Stundin hóf umfjöllun um nýjar upplýsingar sem sýndu fram á að viðskipti Bjarna Benediktssonar samhliða þingmennsku í aðdraganda hruns hefðu verið öðruvísi og umfangsmeiri en hann hefur haldið fram, hafa viðbrögð Bjarna og sumra stuðningsmanna hans verið að grafa markvisst undan trúverðugleika Stundarinnar og starfsmanna hennar.
Þannig varð spurningin ekki um rofin mörk viðskipta og stjórnmála í viðskiptasögu forsætisráðherra, heldur meint pólitískt samsæri fjölmiðlafólksins, jafnvel þótt umfjöllunin hafi verið unnin í samstarfi við breska blaðið The Guardian, sem hefur enga hagsmuni af stjórnmálum á Íslandi, ekki frekar en þeir íslensku blaðamenn sem komu að málinu.
Forsenda Stundarinnar fyrir birtingu á upplýsingunum um viðskipti núverandi forsætisráðherra var að almenningur hefði rétt á að vita staðreyndirnar og meta þær. Þetta er grundvallarhlutverk blaðamanna og fjölmiðla í lýðræðisríkjum. Í ríkjum, sem ekki búa við lýðræði, eða við takmarkað lýðræði, er hins vegar metið ýmist óæskilegt eða ólöglegt að stunda slíka blaðamennsku.
Ósannindi: Tæki til að breyta umræðunni
Það tæki sem Bjarni Benediktsson beitti til að breyta umræðunni í landinu var ósannindi.
Hér eru nefnd þrjú tilfelli ósannra ásakana forsætisráðherra gagnvart Stundinni og starfsfólki:
Í upphafi svaraði forsætisráðherra því til að fréttirnar af viðskiptum hans væru tilraun til að koma á hann höggi. Til þess að undirbyggja ásökunina í garð fréttamanna vitnaði Bjarni í blaðamann Guardian um að blaðamennirnir hefðu „legið á gögnunum“ í margar vikur og tímasett svo nálægt kosningum. Blaðamaðurinn, Jon Henley, sendi hins vegar frá sér yfirlýsingu í kjölfarið og tiltók sérstaklega að íslenskir samstarfsaðilar Guardian hefðu þrýst á að umfjöllunin um staðreyndirnar yrði birt sem fyrst, svo þær kæmu fram sem fjærst alþingiskosningunum. Þannig kom röklega og staðfestanlega fram að annaðhvort var ásökun forsætisráðherrans í garð blaðamanna Stundarinnar og Jóhannesar Kr. Kristjánssonar röng, eða að Guardian bættist í hóp þeirra sem stunduðu samsæri gegn Bjarna Benediktssyni.
Bjarni klippti út setningu úr frétt Stundarinnar, til að ásaka Stundina um að segja ósatt. Ósannindi Stundarinnar, samkvæmt Bjarna, voru þau að Stundin hefði sagt að fundað hefði verið um málefni Glitnis í efnahags- og skattanefnd. Á þeim ósannindum byggði Bjarni að umfjöllunin væri óheiðarleg. Setningin sem Bjarni birti var: „Bjarni, sem á þessum tíma var meðal annars í efnahags- og skattanefnd, sat fundi á þessum tíma þar sem erfið staða Glitnis var rædd.“ Sagði Bjarni að þarna hefði Stundin tilgreint að fundað hefði verið um málefni Glitnis í nefndinni, sem er rangt. En það kom hins vegar aldrei fram í Stundinni. Setningin í heild sinni vísar til annars fundar: „Bjarni, sem á þessum tíma var meðal annars í efnahags- og skattanefnd, sat fundi á þessum tíma þar sem erfið staða Glitnis var rædd. Hann var einn þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sat neyðarfund um framtíð Glitnis í höfuðstöðvum Stoða, stærsta hluthafa Glitnis, nóttina áður en íslenska ríkið fékk bankann í fangið þann 29. september 2008.“ Þegar undirritaður, annar ritstjóra Stundarinnar, gerði athugasemd við að setningin væri klippt úr samhengi, og birti setninguna í heild, ákvað Bjarni að fela athugasemdina svo aðrir sæju hana ekki.
Bjarni fullyrti í viðtali við Fréttablaðið að í Stundinni hefði komið fram að hann væri eigandi félagsins Hafsilfurs ehf., sem tók yfir kúlulán hans skömmu fyrir hrun og tók þátt í vafningsviðskiptunum. Þannig sagði Bjarni að umfjöllunin væri röng, á þeim grundvelli. Hins vegar segir meðal annars orðrétt í umfjöllun Stundarinnar: „Gögnin innan úr Glitni varpa ljósi á það að Bjarni Benediktsson tók virkan þátt í að stýra fjárfestingum föður síns hjá Glitni, meðal annars fjárfestingum eignarhaldsfélagsins Hafsilfurs ehf. sem var félag föður hans sem tók þátt í Vafningsviðskiptununum.“ Í umfjöllun Stundarinnar var sýnt fram á að Bjarni hefði verið virkur sem stjórnandi félagsins gagnvart Glitni, en ítrekað kom fram að faðir hans ætti félagið. „Í eftirfarandi tölvupósti, sem sendur var í lok júlí 2008, kemur til dæmis fram að Bjarni var að reyna að semja við Glitni um breytingar á fjármögnun þessa eignarhaldsfélags föður síns,“ segir meðal annars. „Þeir segja að ég hafi átt félagið. Það er rangt,“ sagði forsætisráðherra hins vegar um Stundina í ásökun um óvönduð vinnubrögð sem er staðfestanlega ósönn.
Fleiri ásakanir hafa komið fram af hálfu forsætisráðherra og fylgismanna hans, sem er auðsýnilega hægt að segja að séu ýmist ósanngjarnar eða rangar, enda þótt ekki sé hægt að afsanna fjölmargar óljósar eða almennar fullyrðingar sem ætlað er að grafa undan trúverðugleika.
Mörk blaðamennsku og stjórnmála
Blaðamaður Viðskiptablaðsins, Andrés Magnússon, sérhæfir sig í að skrifa fjölmiðlarýni og gagnrýna vinnubrögð annarra fjölmiðla. Í þjóðmálaþættinum Silfrinu í byrjun október gagnrýndi hann Stundina harðlega og sakaði hana um að vera með pólitískar fyrirætlanir með birtingu upplýsinga um forsætisráðherra.
Í stuttu máli kom fram hjá honum, titluðum sem blaðamanni, að engin ný frétt væri í umfjöllun Stundarinnar og að pólitískar ástæður væru að baki skrifunum – tilgangurinn að hafa áhrif á alþingiskosningar.
„Þetta er bara „crazy““
„Þetta er bara „crazy“,“ sagði Andrés. „Það er pólitískt,“ sagði hann. „Stundin sagði þessa frétt í mars … Þannig að þeir endurbirtu hana núna.“ Fullyrðing Andrésar um að ekkert nýtt væri í fréttaflutningi Stundarinnar var röng, enda vitnað í ný gögn sem sýndu fram á að tengsl viðskipta og stjórnmála forsætisráðherra voru mun meiri en hann hafði áður talið almenningi trú um, en með slíkum málflutningi hefur verið reynt að gera lítið úr fréttunum og því erindi sem upplýsingarnar eiga við almenning.
Andrés sagði ekki frá því í þættinum, og það hafði hvergi komið fram opinberlega, að hann væri á sama tíma starfandi í Valhöll við kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins.
Ásökun hans gagnvart Stundinni um þau óheilindi að vinna leynilega að stjórnmálalegum markmiðum í gegnum yfirlýsta óháða blaðamennsku, var þannig færð fram á grundvelli þess að mörk blaðamennsku og stjórnmála voru ekki til staðar hjá honum sjálfum. Andrés greindi frá stjórnmálastörfum sínum í pistli sínum í Viðskiptablaðinu daginn eftir að Stundin sendi honum spurningar um störfin, eftir að hafa fengið veru hans í Valhöll staðfesta. Hann kvaðst ætla að svara spurningunum skriflega en sleppti því. Við vitum ekki enn hvenær hann var að störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hvenær ekki, en hann hefur í mörgum tilfellum tekið hart á þeim sem gagnrýna flokkinn í fjölmiðlarýni sinni í Viðskiptablaðinu.
Ósannindin sem komu fram
Lögbann hefur verið sett á umfjöllun Stundarinnar byggða á gögnum úr Glitni, sem snúa meðal annars að viðskiptum forsætisráðherra og fjölskyldu hans samhliða þingmennsku hans. Stundinni er hins vegar ekki óheimilt að vitna í fyrri umfjallanir sínar um málið, þar sem þeirri kröfu Glitnis var harðlega mótmælt. Fulltrúi sýslumanns taldi óframkvæmanlegt að fjarlægja fréttirnar af netinu.
Í Stundinni er því að finna samantekt og úrvinnslu á ósönnum yfirlýsingum forsætisráðherra til almennings í tengslum við viðskipti hans sem kjörinn fulltrúi.
Þar kemur meðal annars fram að forsætisráðherra sagðist ekki hafa átt neitt sem skipti máli í Sjóði 9 í Glitni, en hann átti 165 milljónir króna í sjóðnum og seldi samhliða aðkomu sinni að úrlausn á verulegum vanda sjóðsins og bankans. Ættingjar hans seldu fyrir milljarða. Þar af var föðurbróðir hans svo lánsamur að selja fyrir 1,2 milljarða króna tveimur tímum áður en viðskiptum með sjóðinn var lokað. Faðir forsætisráðherra seldi nokkru áður fyrir 500 milljónir króna og sendi peningana til Flórída, forðaði þeim þannig undan neyðarlögum og gjaldeyrishöftum fyrir hrun krónunnar, sem stórjók verðgildi fjárins.
Forsætisráðherra sagði einnig ósatt um boðsferðir sínar, hann þáði minnst fjórar, eins og sýnt var fram á í Stundinni, en hafði sagt í svörum sínum eftir hrun að hann hefði þegið tvær.
Forsætisráðherra færði fram villandi skýringar á skuldamálum sínum eftir hrun. Hann sagðist hafa greitt upp allar skuldir árið 2008, en reyndin var sú að 50 milljóna króna kúlulán var flutt yfir í einkahlutafélag föður hans, Hafsilfur ehf. Hann var þar með sviptur persónulegri ábyrgð sinni á láninu og þurfti ekki að borga það. Einkahlutafélaginu var hins vegar slitið eftir hrun, með meira en 4 milljarða króna afskriftum á skuldum. Samtals tók faðir Bjarna yfir 106 milljónir króna af skuldum hans mánuðina fyrir bankahrun.
„Þá svörum við því með sannsögli og heiðarleika“
Það er í vaxandi mæli eitt helsta tól forsætisráðherra í opinberri umræðu að ásaka þá sem gagnrýna hann og grafa undan trúverðugleika þeirra.
Í upphafi kosningabaráttunnar boðaði forsætisráðherra hins vegar gagnvart samflokksmönnum sínum að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að fara á æðra plan en „aðrir“.
„Þegar aðrir beita lýðskrumi og illmælgi, þá svörum við því með sannsögli og heiðarleika,“ sagði hann, á fyrsta stóra kosningafundinum.
Það er bæði staðfestanlegt og staðfest að Bjarni hefur beitt ósannindum í eigin þágu. Hann hefur nýtt sér ósannindin til að grafa undan öðrum, í skyni eigin hagsbóta, til að sannfæra fólk um að trúa honum frekar en öðrum á grundvelli ætlaðra persónueinkenna.
Engar flokkspólitískar tengingar
Enginn á ritstjórn Stundarinnar hefur tekið þátt í stjórnmálastarfi. Stundin er eini fjölmiðillinn á Íslandi sem birtir hagsmunaskráningu fyrir ritstjóra. Skráningin er sambærileg við hagsmunaskráningu þingmanna og er henni ætlað að viðhalda gagnsæi.
Þeir sem hafa gagnrýnt Stundina harðast, á grundvelli þess að um pólitískt samsæri gegn formanni Sjálfstæðisflokksins sé að ræða, eru gjarnan meðlimir flokksins.
Bjarni Benediktsson hefur þá vinnureglu að svara ekki fyrirspurnum Stundarinnar. Hann velur sérstaklega úr þann miðil til að sniðganga.
Í svari við því til Fréttablaðsins hvers vegna hann gerði það sagðist Bjarni hafa slæma reynslu af því að svara blaðamönnum Stundarinnar.
„Ég hef ekki góða reynslu af því að koma athugasemdum á framfæri við þá blaðamenn sem þarna eiga í hlut,“ sagði hann.
Um er að ræða þrjá af þeim blaðamönnum á Íslandi sem hafa fengið hvað flestar tilnefningar til verðlauna fyrir störf sín. Ingi Freyr Vilhjálmsson hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til blaðmannaverðlauna, Jóhann Páll Jóhannsson hefur tvívegis hlotið blaðamannaverðlaun og Jóhannes Kr. Kristjánsson hefur hlotið sex tilnefningar til verðlaunanna og vann meðal annars í fyrra vegna umfjöllunar sinnar um leyndan hagsmunaárekstur síðasta forsætisráðherra, sem unnin var upp úr Panama-skjölunum.
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessir sömu blaðamenn reyna að koma á mig höggi,“ sagði Bjarni, þegar fyrstu fréttir um ný gögn bárust.
„Stundarbörn“ og „götustrákar“
En Bjarni, sem boðaði heiðarleika og sannsögli fyrir kosningabaráttuna, vildi fremur koma í viðtal hjá þáttarstjórnanda sem uppnefnir starfsfólk Stundarinnar „Stundarbörn“, „pörupilta“ og „götustráka“ og vænir viðkomandi um „róg“, „illvilja“ og „uppspuna“. „Þetta hlýtur að fara í pirrurnar á þér?“ var fyrsta spurning þáttarstjórnandans, Ingva Hrafns Jónssonar, til forsætisráðherra.
Þáttarstjórnandinn kallaði síðan nafngreindan blaðamann Stundarinnar „verkfæri“ og „böðul“. „Menn velta fyrir sér, hefur einhver ykkar gert þeim eitthvað, þannig að þetta fólk telur sig eiga ofboðslegra harma að hefna?“ spurði hann forsætisráðherra.
Áberandi stuðningsmaður flokksins sagði annars staðar að starfsfólk Stundarinnar væri „illrætið nöðrukyn“, „andaverur vonskunnar“.
Það er ekki praktískt fyrir heildina að óvönduð orðræða þröngs hóps verði aðalatriði umræðunnar. Hún skiptir í reynd engu máli, nema í því samhengi að sameiginlegt gildismat okkar þarf að þróast til hins betra með viðvarandi beitingu viðeigandi félagslegs taumhalds – að andmæla slíkri tjáningu með annarri vandaðri og sýna fram á villuna án þess að færa samskipti yfir í hrein, órökleg átök. En það geta einmitt verið hagsmunir stjórnmálamanna að stimpla fjölmiðlamenn sem pólitíska andstæðinga og ætla þeim lágkúrulegar hvatir.
Viðnámsþróttur kerfis og samfélags
Starfsfólk Stundarinnar er ekki að sækjast eftir valdastöðum í samfélaginu, þiggur ekki þingfararkaup eða ráðherralaun frá ríkinu. Þvert á móti þiggur Stundin engar ívilnanir frá ríkinu, ólíkt því sem væri ef Stundin væri starfrækt í Noregi, til dæmis, þar sem ríkið reynir að tryggja rekstrargrundvöll fyrir fjölmiðla á þeim forsendum að rannsóknarblaðamennska sé grunnurinn að virku lýðræði og tjáningarfrelsi.
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins fara hins vegar fram á að halda valdastöðum samfélagsins fyrir hönd okkar allra. Flokkurinn hefur í gegnum árin nýtt sér stöðu sína og styrkt hana með því að skipa flokksmenn í ráðandi stöður innan opinbera kerfisins. Með þeim hætti minnka þeir viðnámsþrótt kerfisins og samfélagsins alls við því sem þeir gera sem er óæskilegt fyrir heildina. Sumir flokksmenn hafa síðan því sem næst afmáð mörk stjórnmála og frjálsrar fjölmiðlunar. Á sama tíma er gert ljóst með reynslu að óflokksbundnir gagnrýnendur flokksins muni þola ákveðnar afleiðingar.
Þrátt fyrir að ritstjórn Stundarinnar eigi enga aðkomu að flokkapólitík er reynt að draga hana í pólitískar skotgrafir með staðfestanlega fölskum ásökunum.
Ritstjórn treystir á að ávinna sér og viðhalda trausti almennings, á sama tíma og hún rækir það hlutverk sitt að birta gagnrýnar umfjallanir og koma á framfæri upplýsingum um hagsmunaárekstra kjörinna fulltrúa, sem samkvæmt virkni lýðræðissamfélags gerir almenningi kleift að taka upplýsta ákvörðun um hverjum skuli fela störf í sína þágu.
Ef störf sem beinast gegn óheiðarleika, með birtingu upplýsinga sem stangast á við yfirlýsingar valdamanna, eru samsömuð við baráttu gegn einstökum stjórnmálaflokkum eða stjórnmálamönnum – að þeirra eigin mati – ættu þeir að sjá tilefni til að endurskoða samband sitt við sannleikann.
Athugasemdir