Ég hugsa oft um það hvað ég er þakklát fyrir að hafa alist upp á Íslandi, og sérstaklega fengið að læra íslensku. Ég er talmeinafræðingur og doktorsnemi í íslenskri málfræði, og ég geri í rauninni ekkert annað en að pæla í íslensku og fólkinu sem talar hana. En samt á ég franska mömmu og argentískan pabba, þannig að það er kannski undarlegt að ég endi á þessum stað í lífinu, en það er handahófskennd röð atvika og margar tilviljanir sem leiddu að því að við fluttum saman til Íslands 1997 þegar ég var sex ára.
Það er óþægileg tilfinning að hugsa til þess hvað þetta var lítið mál fyrir okkur, miðað við hvað þetta er erfitt fyrir aðra. Að það sé svona mikill munur á réttindum manns eftir því hvar maður fæddist og hvaða vegabréf maður kemur með til Íslands; að það ráði því hvort fólk fái tækifæri til að búa hér og skila sínu til samfélagsins. Það virkar eins og svo mikill geðþótti í því að við höfum fengið að koma til Íslands, á meðan aðrar fjölskyldur sem fæddust bara nokkrum hundruð kílómetrum frá okkur fá ekki sömu tækifæri.
Þetta snýst ekkert um hverju maður getur skilað af sér, eða hvað við höfum gert í rauninni til að auðga Ísland – þetta snýst bara um réttindi manns sem manneskju.
Athugasemdir