Ég er útlendingur sem býr ekki á Íslandi. Ég tala hins vegar íslensku og fylgist með fréttum frá landinu á hverjum degi – íslenskur vinur minn kallar mig Íslandsgeggjara. Nokkrum sinnum á ári fer ég með sænska ferðamenn til Íslands og leiðsegi þeim um land og þjóð. Ég hef því orðið sæmilega þekkingu á Íslandi og verð að segja að mér finnst skrítið hvernig oft er talað um ferðamenn á Íslandi.
Túristar eru oft útmálaðir eins og villimenn og siðleysingjar sem gera innrás í hið heilaga (Ís)land. Í staðinn fyrir Trójuhesta nota þeir húsbíla og skilja svo eftir sig hrauka af klósettpappír, vörðum og rusli auk allrar gróðureyðingarinnar. Auðvitað er ekki í lagi að kúka hvar sem er á víðavangi; að brjótast inn í kirkjur; slátra sauðfé eða rústa sæluhúsum. En það væri flott hjá Íslendingum að sýna smá auðmýkt og líta í eigin barm. Í ferðamannabransanum á Íslandi er oft stunduð allt annað en ábyrgt markaðsstarf.
Tökum Icelandair sem dæmi. Fyrirtæki sem ósjaldan auglýsir Ísland sem land þar sem alls konar vitleysa er í lagi.
Á samfélagsmiðlum birtir Icelandair daglega myndir sem ferðamenn hafa tekið. Fyrirtækið er með 283 þúsund fylgjendur um allan heim á Instagram. Á Instagram-síðu fyrirtækisins er mynd af manni sem stendur á ísjaka í Jökulsárlóni. Myndatextinn hefði kannski átt að vera „Stórhættulegur bjánaskapur”. En Icelandair valdi að skrifa undir myndina: ”All you hear is the sound of ice cracking”. Jú, við skulum bara vona að ísinn brotni ekki undan fótum mannsins!
„Það væri flott hjá Íslendingum að sýna smá auðmýkt og líta í eigin barm.“
Ísjakinn á myndinni er að vísu alveg við ströndina en aðstæður geta breyst mjög hratt í náttúru Íslands. Í fyrra var Björgunarfélag Hornafjarðar kallað að Jökulsárlóni þar sem sirka 50 ferðamenn voru í vandræðum á ísjaka sem hafði rekið frá landi. Ferðamennirnir þurftu aðstoð við á komast aftur í land. Icelandair hvetur til nákvæmlega sama brjálæðis á Instagram.
Fyrirtækið birtir líka reglulega myndir frá Dyrhólaey og Reynisfjöru. Icelandair sýnir okkur áhyggjulausa ferðamenn sitja á brúninni á stuðlaberginu í Reynisfjöru og láta fæturna dingla niður. Enginn af myndatextanum fjallar um hættuna á aurskriðum og grjóthruni. Myndir eins og þessar eru eins og fokkmerki í andlit leiðsögumanna sem reyna að brýna fyrir ferðamönnum að sýna aðgát og fara ekki út fyrir girðingar á svæðinu.
Markaðssetning Icelandair á samfélagsmiðlum er ekki eina dæmið um kynningarstarf félagsins á Íslandi sem ýtir undir ábyrgðarlausa hegðun í náttúru Íslands. Í upplýsingakvikmyndinni sem er sýnd um borð í öllum flugvélum Icelandair sem fljúga til landsins heyrist rödd segja að öryggi í háloftunum sé í forgangi hjá fyrirtækinu. En hvað með öryggið á jörðu niðri, úti í nátturunni?
Í myndbandinu sjáum við konu á jökli. Hún er klædd í töff tískuútivistarföt sem henta engan veginn í óútreiknanlegri veðráttu Íslands, eins og hún væri að taka smá rölt um miðbæ Reykjavíkur. Hún tjaldar við Jökulsárlón, hoppar niður í foss og fer upp á fjöll á Suðurlandi með Íslandskort í kvarða sem hentar augljóslega ekki fyrir göngu af þessu tagi. Er það skrítið ef ferðamenn halda að þeir geti sömuleiðis farið upp á jökul á Íslandi nánast án undirbúnings? Eins og sænski ferðamaðurinn sem fannst látinn í sprungu í sex hundruð metra hæð á Sólheimajökli fyrir sex árum síðan?
Vel útbúnir ferðamenn, sem vita hvað þeir eru að gera, verða sér yfirleitt ekki að voða á Íslandi. Enginn á að fara einn og illa búinn upp á íslenskan jökul. Þetta er það sem Icelandair, og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustunni á Íslandi, eiga að kynna og ítreka fyrir fólki. Í staðinn kýs Icelandair að markaðssetja Ísland sem skemmtigarð þar sem allt er leyft og náttúran er bara bakgrunnur fyrir ógleymanlegar ljósmyndir.
Að kvarta yfir ferðamönnum er nýjasta og hugsanlega stærsta þjóðaríþrótt Íslendinga. Að líta í eigin barm kemst hins vegar ekki nálægt toppnum á gátlistanum hjá stærsta flugfélagi landsins.
Athugasemdir