Samkomulag um þinglok náðist milli fimm þingflokka í kvöld, en Samfylkingin og Píratar sátu hjá við afgreiðslu þess. Að því er fram kom í yfirlýsingu sem Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, las upp mun þing koma saman á morgun. Á meðal mála sem sett verða á dagskrá eru breytingar á lagaákvæðum um uppreist æru og breytingar á lögum um útlendinga.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tjáir sig um samkomulagið á Facebook og segir ömurlegt að hafa þurft „að semja um þinglok bak við lokaðar dyr, þar sem öryggi og velferð barna var notað sem skiptimynt“.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata, tekur í sama streng og segir Bjarna Benediktsson forsætisráðherra hafa reynt að stilla þingflokkunum „upp við vegg á þann hátt að það yrði ekkert samkomulag nema við féllum frá stjórnarskrármálinu“. Þannig hafi hann í raun verið að „hóta að ógna lífi barna og neita þolendum kynferðisofbeldis um réttlæti, ef ekki yrði fallið frá mjög eðlilegri kröfu um lýðræðisúrbætur“.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist hafa lagt fram málamiðlunartillögu um stjórnarskrárbreytingar og að allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið vel í tillöguna. Snerist tillagan um að samþykkt yrði breytingaákvæði við stjórnarskrá í anda þess sem var í gildi á tímabilinu 2013 til 2017.
Hér að neðan má sjá, í tímaröð, innleggin sem Katrín, Smári og Logi birtu á Facebook í kvöld. Þegar þetta er ritað hafa fulltrúar annarra flokka ekki tjáð sig um þinglokin.
Smári McCarthy:
„Þetta var stórfurðulegur dagur. Samningaviðræður flokkanna um þinglok hafa verið í gangi síðan fyrir helgi, en Píratar hafa haldið því á lofti að tryggja öryggi þeirra barna sem hafa leitast eftir öryggi á Íslandi, að klára málin með uppreist æru og ýmislegt fleira, en jafnframt að tillaga okkar um að þjóðin fái að ákveða stjórnarskrárbreytingar í þjóðaratkvæðagreiðslum hljóti meðferð á þinginu. Í dag reyndi Bjarni Benediktsson að stilla okkur upp við vegg á þann hátt að það yrði ekkert samkomulag nema við féllum frá stjórnarskrármálinu. Með því var hann hóta að ógna lífi barna og neita þolendum kynferðisofbeldis um réttlæti, ef ekki yrði fallið frá mjög eðlilegri kröfu um lýðræðisúrbætur. Við harðneituðum að lúffa fyrir svona ósmekklegum hótunum, og fyrir rest varð niðurstaðan sú að fimm flokkar urðu aðilar að samkomulaginu, en Píratar og Samfylkingin héldu sínu striki: við ætlum að tryggja réttlætið, öryggi barna, og að krafan um lýðræðisúrbætur fái þinglega meðferð.“
Katrín Jakobsdóttir:
„Ég lagði það til áðan á fundi formanna flokkanna að við myndum sameinast um nýtt breytingaákvæði við stjórnarskrá í anda þess sem var í gildi 2013-2017, þ.e. að ásamt því að hægt væri að samþykkja stjórnarskrárbreytingar með gömlu aðferðinni væri hægt að afgreiða slíkar breytingar með auknum meirihluta á Alþingi og vísa því svo til þjóðarinnar og afgreiða þær svo fremi sem 25% kosningabærra manna myndu samþykkja þær.
Þessi tillaga var tilraun til að miðla málum og skapa aukna samstöðu um stjórnarskrárbreytingar og tóku allir flokkar, nema Sjálfstæðisflokkurinn, jákvætt í hana. Því miður náðist ekki samkomulag allra um málið og því metum við Vinstri-græn það svo að best sé að ljúka þinginu þannig að börnum í hópi hælisleitenda verði komið í skjól, stigin verði fyrstu skref í átt að því að afnema uppreist æru úr hegningarlögum og Alþingi sæki svo nýtt umboð til þjóðarinnar.“
Logi Einarsson:
„Það er ömurleg staða að þurfa að semja um þinglok bak við lokaðar dyr, þar sem öryggi og velferð barna var notað sem skiptimynt.
Í viðræðum formannanna lagði Samfylkingin alla áherslu á að:
1. – Mannúð réði för í útlendingamálum og Hanyie og Mary fengju að vera áfram á Íslandi og tekið yrði meira tillit til sjónarmiða barna við afgreiðslu hælisumsókna. Þar náðist fram áfangasigur. Það náðist að berja fram breytingar til bráðabirgða sem munu vonandi bjarga þeim og nokkrum öðrum börnum. Það sorglega er að ákvæðið er ekki varanlegt og fjarar út skömmu eftir kosningar. Því er brýnt að í næstu kosningum veljist flokkar sem byggja stefnu sína á mannúð og munu bæta lögin strax á nýju kjörtímabili.
2. - Þjóðin fengi að ráða för í stjórnarskrármálinu. Að Alþingi myndi samþykkja nýtt breytingarákvæði sem gerði þjóðinni kleift að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili. Þar höfðum við og Píratar því miður ekki erindi sem erfiði en við berjumst áfram!“
Bætt við kl. 23:10:
Bjarni Benediktsson:
„Nú hafa tekist samningar um þinglok. Í grófum dráttum má segja að tvær leiðir hafi verið færar. Annars vegar að takmarka málafjöldann sem mest, og ljúka þinginu á 1-2 dögum. Hins vegar að setja þingfund og hefja vinnu við þessi helstu mál og bæta svo við stjórnarskrá og eftir atvikum öðru sem þingmenn vildu ræða.
Samkomulag var gert um hið fyrrnefnda milli allra flokka utan Pírata og Samfylkingar.
Við munum samkvæmt þessu fella uppreist æru úr hegningalögum. Breytingar á lagaákvæðum sem varða hælisleitendur koma á dagskrá. Önnur mál varða kosningar eða formsatriði.
Nokkrir þingmenn fara mikinn í kvöld vegna þess að breytingar á stjórnarskránni (breytingaákvæðinu) eru ekki hluti samkomulagsins. Þannig segir Smári Mccarthy sem nýlega var í fréttum fyrir rætnar samlíkingar við mál Jimmy Savile, að ég hafi með aðkomu minni að þinglokasamningum hótað ,,að ógna lífi barna og neita þolendum kynferðisofbeldis um réttlæti, ef ekki yrði fallið frá mjög eðlilegri kröfu um lýðræðisúrbætur."
Afsakið, en er ekki bara komið ágætt af svona löguðu? Hvað eiga svona skrif að þýða? Er þetta framlag til bættrar þjóðfélagsumræðu - leiðin til að endurheimta traust á stjórnmálum?
Þingið getur í krafti meirihlutavilja sett á dagskrá það sem það kýs. Það er hins vegar niðurstaða langflestra þingflokka, eftir fjölda funda, að ljúka þinginu með fáeinum málum og láta stjórnarskrána bíða.
Fyrir nokkrum dögum lagði ég fram tillögu að verklagi við breytingarnar sem allir formenn tóku nokkuð vel í á formannafundi. Píratar höfðu mestan fyrirvara og kröfðust þess á næsta fundi að breyting á breytingaákvæði stjórnarskrárinnar næði fram að ganga. Að þessu sinni skyldi þó farin önnur leið en þegar slíkt ákvæði var síðast í gildi, með lægri samþykkisþröskuldum. Fyrirvarar Pírata urðu á endanum til þess að ekkert varð úr samkomulaginu.
Það er mín skoðun að ef hrófla á við einhverju í stjórnarskránni skuli vandað til verka, gefinn tími til umsagna og nefndameðferðar. Er það svo að þeir sem fara fram á vandað verklag við breytingar á stjórnarskrá verðskuldi ásakanir að skeyta engu um líf barna eða fálæti vegna kynferðisbrota? Ég hélt við hefðum fundið botninn í umræðu um þau mál í síðustu viku, en lengi getur vont versnað.“
Athugasemdir