Öflug barátta þolenda kynferðisofbeldis og aðstandenda þeirra hefur svipt hulunni af þeirri samfélagsgerð sem okkur hefur verið búin. Ráðherrar og forsvarsmenn kerfisstjórnmálaflokkanna hafa gripið til venjubundinna viðbragða með þöggun, oflæti og drambi gagnvart hinum almenna borgara. Óþverrinn hefur verið yfirgengilegur og gengið svo fram af fólki að það krafðist afsagnar ríkisstjórnarinnar. Nákvæmlega sama gerðist fyrir ári síðan og eins má allt eins minnast 8. október 2008 þegar allt hrundi til grunna í boði arfaslakrar stjórnsýslu, eins og rækilega er rakið í Rannsóknarskýrslu Alþingis.
Íslensk stjórnsýsla er, eins og hefur ítrekað komið fram, hreint út sagt ótrúlega léleg. Þar skortir gagnsæi um hvernig ákvarðanir eru teknar. Við blasir mikið getu- eða kannski ekki síður viljaleysi til þess að taka á málum. Ráðherrar og talsmenn stjórnmálaflokka segja helst ekki frá neinu nema þeir séu beinlínis þvingaðir til þess af dómstólum eða sérstökum nefndum sem reiðibylgja almennings hefur þvingað fram. Hver ríkisstjórn kerfisflokkanna eftir aðra virðist vera um megn að bæta stjórnsýslu og framkvæma hlutina af einhverri lágmarksfagmennsku. Svo koma kosningar, þá streyma fram loforðin á báða bóga um bætt lífskjör og loforðum um betrun. Jafnvel send dramatísk bréf til kjósenda full af loforðum.
Já, jafnvel er gengið svo langt að senda loforðabréf til þeirra kjósenda sem minnst mega sín, eins og til dæmis öryrkjum og öldruðum. En svo þegar menn ná kjöri út á loforð sín og verða jafnvel forsætisráðherrar þræta þeir fyrir allt og gera nákvæmlega sem þeim sýnist. Já, og svo má minnast þess að 1. janúar 2009 ákváðu stjórnvöld að frítekjumark atvinnutekna yrði 109.000 kr. á mánuði. Þá var launavísitalan 355,7. Launavísitala júlímánaðar 2017 er hins vegar komin upp í 623,9 og hefur því hækkað um 75,4%. Það merkir að frítekjumarkið vegna atvinnutekna ætti að vera 191.187 kr. á mánuði. En ríkisstjórnin sem sem nú er að hrökklast frá vegna kröfu almennings rausnaðist til þess að gefa okkur um fjórðung af því loforði. En ráðherrarnir ganga hins vegar til kosninga hrósandi sjálfum sér fyrir að skila stórkostlega góðu búi. Menntakerfið á hálfum snúningi og sama má segja um heilbrigðiskerfið. Jú, það blasa við stórkostlegar hækkanir sem renna til þeirra sem mest höfðu og þær lyft meðaltalinu sem súlurit forsætisráðherra eru reist á. Ójöfnuðurinn hefur aldrei verið meiri og fátækt fer vaxandi.
„Ríkisstjórnin sem nú er að hrökklast frá vegna kröfu almennings rausnaðist til þess að gefa okkur um fjórðung af því loforði.“
Hvað veldur því að við búum aðra samfélagsgerð en hefur þróast á hinum Norðurlöndunum? Nýja stjórnarskráin sem samþykkt var af auknum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði, ef hún hefði fengið að standa, gefið almenningi stóraukinn möguleika á að hafa áhrif á samfélagið og um leið lífsferli sitt. Viðbrögð kerfisflokkanna við niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar voru hins vegar ofsafengin og gripið var til róttækra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að vilji þjóðarinnar næði fram að ganga. Og hinn lýðræðislegi heimur starir í forundran á hvað sé að gerast á Íslandi og við drögumst endurtekið inn í heimspressuna. Undanfarna áratugi hefur pólitíska kerfið reynst ófært um að leiða til lykta flest stærstu átakamál sem risið hafa í samfélaginu. Ójöfnuður hefur aukist hér á landi umfram það sem hefur gerst í nágrannalöndum okkar. Hagsmunaöfl í samfélaginu hafa í gegnum sterk ítök sín komið í veg fyrir allar breytingar.
Lýðræðisumbætur nýrrar stjórnarskrár hefðu gefið almenningi hins vegar kost á að skera á þessa hnúta með beinni aðkomu að störfum Alþingis, minnkað ráðherraræðið og gert okkur mögulegt að taka ákvarðanir sem við sem þjóð höfum hingað til verið ófær um að taka. Það eru margir sem átta sig ekki á hversu mikill efnahagslegur ávinningur fólst í þeim möguleikum sem hefðu opnast með nýju stjórnarskránni. Réttmætar tekjur af sameiginlegum auðlindum okkar fást ekki fyrr en við förum að innheimta markaðsverð fyrir þær og jafna þannig stöðuna í samfélaginu. Kerfið sem okkur hefur verið búið var komið á í skjóli úreltrar stjórnarskrár af þeim sem eiga mikla peninga og þeir purkunarlaust sýnt vilja til enn stærri sneiðar af þjóðarkökunni. Sé litið til umræðunnar undanfarna daga blasir við að það á sér stað mikil samfélagspólitísk gerjun undir yfirborðinu. Þeir stjórnmálaflokkar sem markað hafa stefnuna eru í raun og veru orðnir að tilfinningalausum stofnunum undir stjórn hagsmunaaðila og eru sannarlega ekki fulltrúar fólksins í landinu.
Staða Alþingis er afar veik og þar að baki standa hagsmunahópar og gæta þess að halda Alþingi í óbreyttri stöðu. Pólitíska valdið er geirneglt rekstrarhagsmunum í landinu sem sér hag af því að Alþingi sé veikt. Kjörnir fulltrúar eru markvisst veiktir svo þeir geti ekki sett hinu raunverulega valdi í landinu skorður. Alþingi á mjög undir högg að sækja og er ekki miðstöð lýðræðis í landinu. Þetta ástand á reyndar oft við um lönd sem eiga miklar náttúruauðlindir. Hverjir fá aðgang að tekjunum, hverjir fá nýtinguna, hverjir fái að koma sér fyrir á réttum stöðum? Hagsmunirnir snúast um að ná arðinum í stað þess að leggja meiri áherslu á hugvit og aukna framleiðni. Komið er í veg fyrir aukin gæði stjórnsýslu og stjórnunar. Hér viðgengst spilling og það eru annarlegir hagsmunir sem ráða stjórn landsins.
„Pólitíska valdið er geirneglt rekstrarhagsmunum í landinu sem sér hag af því að Alþingi sé veikt.“
Svör ráðherra eru undantekningarlítið á óskiljanlegu stofnanamáli og oftast reistir á útúrsnúningum. Þetta hefur verið mjög áberandi þegar rætt er um stöðu lífeyrisþega. Ráðherra svaraði aðspurður um hvað það myndi kosta ríkið að afnema þá jaðarskatta sem viðgangast í gegnum skerðingar í bótakerfinu, að það myndi kosta ríkið allt að 15 milljarða. Ráðherrann svaraði ekki hvers vegna eldri borgurum væri gert að greiða allt að 100% skatta til ríkisins. Hvers vegna það væri í gildi sérstakt skattkerfi fyrir eldri borgara. Hann svaraði ekki hvers vegna ríkið kæmi beinlínis í veg fyrir að að fólk leitaði út á vinnumarkaðinn, en setti það frekar í fátæktargildrur. Sé málið skoðað þá liggur fyrir að afnám skerðinga á lífeyri gæti haft mjög jákvæð samfélagsleg áhrif.
Það er augljóst að ef ríkið leggur fram fé til afnáms skerðinga mun það fá allt að 60% af kostnaðarauka félagsmálaráðuneytisins við afnám skerðinga endurgreitt í formi tekjuskatts og virðisaukaskatts. Það er hreint út sagt ótrúlegt að horfa upp á ríkisstjórnina sniðganga jafnaugljósar staðreyndir í málflutningi sínum. Þá er eftir að taka tillit til framlags aldraðra og öryrkja í atvinnulífinu með beinum og óbeinum hætti. Atvinnuþátttaka eykst með lækkuðum sköttum og er hvati til þess að að fara út á vinnumarkaðinn og auka þjóðarframleiðsluna. Afnám skerðinga er virk barátta gegn svarta hagkerfinu og eykur tekjur ríkisins. Í nýlegum upplýsingum kemur fram að aldrei hafi verið hér á landi fleiri erlendir starfsmenn. Þeir kalla augljóslega á umtalsverða aukningu kostnaðar í innviðum sem hækkar enn frekar íbúðaverð. Það er síðan svo einkennilegt að hlusta á málflutning fráfarandi ráðherra þar sem einföldum staðreyndum er hiklaust snúið á haus.
Athugasemdir