Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, segir stórmerkilegt að forsætisráðherra hafi staðfest í stefnuræðu sinni að skattbyrði tekjulægstu fjölskyldna hafi þyngst frá árinu 1998.
„Hann staðfestir hér í heyranda hljóði að helsta áherslumál Sjálfstæðisflokksins í áratugi, lægri skattar, er ekki ætlað þeim sem verst hafa það, heldur einungis hinum betur settu. Það er svosem gott að fá það staðfest, sem margir hafa löngum vitað, sem er að Sjálfstæðisflokkurinn vinnur markvisst að því að bæta hag hinna efnameiri á kostnað hinna efnaminni,“ sagði Þórhildur í eldhúsdagsumræðunum í kvöld.
„Verra er að fylgjast með forsætisráðherra og flokki hans halda áfram sínum blekkingarleik gagnvart þjóðinni og saka þá um geðveiki, sem ekki trúa möntru þeirra um að allir landsmenn sitji við sama gnægtaborðið í hagvaxtarveislunni þeirra. Þessi gamalgróna taktík Sjálfstæðisflokksins er vel þekkt og þaulreynd aðferð yfirgangsseggja í valdastöðu, í raun andlegt ofbeldi sem felst í því að gefa þolandanum viðstöðulaust rangar upplýsingar með það að markmiði að fá hann til þess að efast um eigið minni, skynjun og skynsemi – efast um eigin geðheilsu.“
Þá sagði hún aðferðafræði Sjálfstæðisflokksins hafa smitast yfir á samstarfsflokkana í ríkisstjórn. Þeir sjái það sem eitt af sínum mikilvægustu verkum að sannfæra þjóðina um að hún skilji ekki neitt og sé ósanngjörn. „Það er sko ekkert verið að einkavæða heilbrigðiskerfið, segir hæstvirtur heilbrigðisráðherra á meðan hann klippir á borða í Klíníkinni og mokar fé í einkageirann í fjárlögum þessa árs. Erfiðara finnst mér að segja til um viðhorf stjórnarliða í heild til þessarar aðferðafræði kúgarans, hvort þeir láti blekkjast af síendurteknum og vísvitandi rangfærslunum eða taki virkan þátt í að halda þeim á lofti. Þó má segja að viðstöðulaust áreiti hæstvirts þingmanns Brynjars Níelssonar gagnvart brotaþolum Róberts Árna Hreiðarssonar um að það hafi nú ekkert verið brotið svo illa á þeim sé ágætt dæmi um þessa ógeðfelldu taktík.“
Þórhildur segir stjórnarliða hafa þagað í kjölfar þess að í ljós kom að ráðherra hafði ranglega haldið því fram að fjölmiðlar og brotaþolar ættu ekki eiga rétt á upplýsingum um málsmeðferð við veitingu uppreist æru. „Stjórnarliðum finnst líka allt í lagi að dómsmálaráðherra hreyti því í almenning að ákall hans um mannúðlega meðferð tveggja ungra stúlkna á flótta sé bara eitthvað mál sem dúkki upp í umræðunni fyrir tilviljun og henni detti ekki í hug að gera neitt í,“ sagði hún.
Athugasemdir