„Í dag er ástæða til að fagna,“ sagði forsætisráðherra á Alþingi í vor, og vísaði til góðrar efnahagslegrar stöðu þjóðarinnar.
Í byrjun mánaðar var síðan tilkynnt að Ísland væri í efsta sæti á lista yfir efnahagslegan árangur, samkvæmt Positive Economy Index 2017.
Til hamingju.
Heimsmetið
Þær voru ekki eins góðar fréttirnar sem bárust frá Landlæknisembættinu um að andlegri heilsu ungs fólks hefði hrakað á undanförnum árum. Frá árinu 2007 hefur hlutfall ungmenna sem metur andlega heilsu sína sæmilega eða lélega meira en tvöfaldast. Merki kvíða, depurðar og þunglyndis aukast, ungu fólki líður einfaldlega verr en áður. Árið 2011 settu um 3.000 ungmenni sig í samband við heilsugæslu vegna geð- og kvíðaraskana, en 8.000 árið 2015.
Áður hefur verið sýnt fram á að notkun þunglyndislyfja er margfalt meiri hér en annar staðar á Norðurlöndunum og sprenging hefur orðið í svefnlyfjanotkun barna. Íslendingar eiga heimsmet í geðlyfjanotkun.
Embættið leggur til ýmsar leiðir til úrbóta, svo sem eflingu geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum, fleiri sálfræðinga á heilsugæslustöðvar og geðræktarstarf í skólana, svo hægt sé að grípa ungt fólk strax, áður en í óefni er komið. Veruleikinn er hins vegar sá að alvarlegur kennaraskortur er í landinu, hjúkrunarfræðingar hverfa úr stéttinni og samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar í geðheilbrigðismálum á að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðvum í einn á hverja 9.000 íbúa. Til samanburðar eru sex prestar á hverja 9.000 íbúa.
Tækifæri til uppbyggingar
En þetta er ekki efni yfirlýsinga forsætisráðherra þegar hann segir Íslendinga aldrei hafa haft það jafn gott. Þá vísar hann aðeins í efnahagslega stöðu ríkisins, sem hann hreykir sér ítrekað af án þess að láta þess getið að árangurinn er ekki síst tilkominn vegna ásóknar erlendra ferðamanna í íslenska náttúru, sem ríkið, undir stjórn flokks hans, hefur takmarkað gert til þess að vernda. Eða að virkni samfélagsins er grundvöllur þessa árangurs — og þar af leiðandi fjárhagslega hagkvæmt að tryggja tækifæri fólks til þess að fullnýta hæfileika sína og getu.
Inntur eftir því hvort það væri ekki tímabært að nýta góða stöðu til að styrkja innviðina sagðist Bjarni ósammála því. „Ég held að það sé varasamt að gera það. Ég held að við gætum með því verið að feta okkur inn á braut sem við höfum áður þrætt, sem er að kunna okkur ekki hóf þegar vel árar. Þá þurfum við aðeins að búa í haginn fyrir framtíðina, fyrir erfiðari tíma.“
Viðhorf til samfélagsins
Meirihluti þjóðarinnar lítur svo á að efnahagsstaðan á Íslandi sé góð, eða um 65 prósent. Reyndar eru karlar frekar en konur, eldra fólk og betur menntað, líklegra til að líta svo á að staðan sé góð en ekki slæm, og sömuleiðis fylgjendur Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar. Almennt fólk sem hefur það fínt. Staða fólks í samfélaginu mótar afstöðu þess til samfélagsins.
Alveg eins og fólk er líklegra til þess að líta svo á að lífið sé sanngjarnt eftir því sem heimilistekjurnar aukast. Eða ef það kýs Sjálfstæðisflokkinn. Eins og formaðurinn, sem sagðist „vorkenna fólki sem líður svona“ um fólk sem hefur neikvæðara viðhorf til samfélagsins en hann sjálfur, sem býr í stóru einbýlishúsi í Garðabænum, byggðu fyrir andvirði af sölu af hlutabréfum skömmu fyrir hrun, og fékk nýverið svimandi háa launahækkun.
Viðhorf Bjarna Benediktssonar birtust ágætlega í svari við vonbrigðum forsvarsmanna Landspítalans með fjárlagafrumvarpið. „Hver hefur sinn mælikvarða á það hvort hann hafi nóg,“ sagði hann. „Fólk hefur upplifun af samfélaginu sem enginn er í stöðu til þess að, í sjálfu sér, gagnrýna. Það hefur hver sitt leyfi til þess að hafa sína skoðun á því. Ef við skoðum mælingarnar, það sem tölurnar eru að segja, þá er ekkert efni í eitthvert rifrildi hér.“
Forréttindastaða Bjarna Benediktssonar birtist ekki aðeins í þessum ummælum. Hún blasti einnig við við í kynningarmyndbandi fyrir kosningar. Þar gekk hann um bæinn í bláum jakkafötum, sat í stofunni heima umkringdur listaverkum, og birti myndir úr skíðaferð fjölskyldunnar í útlöndum, á meðan hann lýsti því hvernig forsætisráðherra hann yrði: Sveigjanlegur, sá sem hlustar eftir hjartslætti þjóðarinnar og bregst við í samræmi við það.
Hamfarir af mannavöldum
Stundum er eins og við búum ekki í sama samfélagi. Sumir hafa aldrei efni á því að eignast þak yfir höfuðið. Eða skíði fyrir alla fjölskylduna. Sumir eiga ekki einu sinni fyrir skóm á börnin.
Kannski er erfitt fyrir fólk sem hefur aldrei búið við fátækt að skilja fátækt, hvernig það er að þurfa að berjast í bökkum. Kannski geta ráðherrarnir þannig réttlætt það fyrir sér að þiggja umtalsverða launahækkun en vara við kjarabótum almennra launþega. Fjármálaráðherra gekk svo langt að tala um „hamfarir af mannavöldum“ fengi almenningur almennilega launahækkun.
Eftir því sem tekjurnar lækka, heilsan versnar og vandinn eykst, því líklegra er að fólk hafi neikvætt viðhorf til samfélagsins. Ástæðan er kannski sú að hér hefur verið rekin fjármálastefna sem þjónar þeim sem þéna best og eiga mest en bitnar verst á þeim tekjulægstu og eignalitlu. Þegar fólk þarf mest á stuðningi að halda fær það að kynnast því hvernig það er að vera afskipt og jaðarsett í samfélaginu. Í einu ríkasta landi heims getur það verið ávísun á fátækt að veikjast. Eitthvað er rangt við það.
Stærsti hópur öryrkja glímir við geðsjúkdóma í kerfi sem hefur hvorki úrræði né fjármagn til þess að sinna þeim skyldi. Svo eru það hinir, sem hafa aldrei kynnst öðru en að búa við fátækt. Gamla fólkið sem býr við skort. Rannsóknir hafa sýnt að 30–50 prósent aldraðra eru vannærðir, hafa ekki áhuga á að borða eða tök á að sækja sér mat. Eða þeir sem leita hingað á flótta frá fátækt, stríði eða annarri ömurð en mæta svo fullkomnum skorti á mannúð að stundum verður ekkert eftir nema örvæntingin. Menn sem enda í hungurverkfalli, kveikja í sér, deyja.
Kostnaðurinn af aðhaldinu
Hvers virði er efnahagslegur árangur í raun þegar fólkið sem þarf helst á stuðningi að halda situr fast í kerfi sem virðist frekar vinna gegn því en með því?
Hvar sem borið er niður virðist hið mannlega verða undir í samfélagi sem drifið er áfram af efnahagslegum mælikvörðum, en ekki þeim sem Bjarni sagði þó sjálfur að væru þeir mikilvægustu allra, lífshamingju fólks.
„Ég held að sá mælikvarði sem mestu skiptir er sá hvort það tekst að auka lífshamingjuna hjá fólki.“
Samkvæmt honum er besta leiðin til að auka lífshamingju fólks sú að veita því tækifæri til þess að láta til sín taka. Forsenda þess hlýtur að vera sú að fólk búi við fjárhagslegt, félagslegt og tilfinningalegt öryggi. Að vandi fólks í veikri stöðu sé viðurkenndur og því rétt hjálparhönd við að rísa upp úr erfiðleikunum, byggja sig upp og stíga sterkt inn í samfélagið. Að fólki sé veitt skjól þegar á þarf að halda.
Samt virðist uppbygging ekki vera álitin fjárfesting, jafnvel þótt sýnt hafi verið fram á langtímahagræðingu fyrir samfélagið og sömuleiðis ómældan kostnað vegna vanrækslu þess. Jafnvel þótt lífshamingja og líf fólks sé að veði.
Innantóm loforð
Á meðan við eigum að fagna árangrinum syrgja fjölskyldur tveggja ungra manna sem fyrirfóru sér báðir á geðdeild með tveggja vikna millibili.
Erfitt er að sætta sig við að það hafi gerst í fjársveltu heilbrigðiskerfi. „Við þurfum að gera betur,“ segir heilbrigðisráðherra, en skortur á fjármagni og úrræðum skapar vanda í geðheilbrigðiskerfinu. Framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans benti á það í mars, skömmu eftir að fjárveitingar til Landspítalans voru kynntar, að aðgerða væri þörf til að hægt væri að grípa fólk fyrr, létta á álaginu og sinna þeim veikustu betur.
Eins og lofað var fyrir kosningar. Þá talaði núverandi forsætisráðherra fyrir „uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og þéttingu velferðarkerfisins“. Í stjórnarsáttmálanum var áfram lofað að setja heilbrigðismálin í forgang. Allt þar til fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð fram og í ljós kom að fimm milljarða niðurskurður blasti við. Þegar stjórnendur spítalans fullyrtu að það myndi hafa skelfileg áhrif á heilbrigðiskerfið ef áætlunin yrði samþykkt, beitti formaður velferðarnefndar sér fyrir því að fá stjórn yfir spítalann svo stjórnendur hans kæmu ekki í þingið að „betla pening“. Áætlunin var samþykkt með eins atkvæðis mun.
Ætli tilfinningin hafi verið svipuð og þegar jafnlaunavottunin var samþykkt af stjórnarliða sem þurfti að „kyngja ælunni“? Eða hver ætli ástæðan hafi verið fyrir því að félags- og jafnréttismálaráðherra varð síðan uppvís að því að ýkja framlög ríkisins til spítalans um 8,5 milljarða.
Í skugga sjálfsvíga
Í skugga sjálfsvíga á nú loks að vinna að úrbótum á húsnæði geðdeildar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að umhverfið hefur áhrif á bataferlið, en samt hefur húsnæði geðdeildanna verið með því versta á Landspítalanum.
Fyrir nokkrum árum var athygli vakin á ástandinu með landsöfnunni Á allra vörum. Þar var safnað fyrir bráðageðdeild, en samkvæmt framkvæmdastjóra geðsviðs var ágóðinn meðal annars nýttur í að laga brunavarnir og lagnir. Hvar erum við stödd ef það þarf landssöfnun til þess?
Deildirnar eru of stórar og undirmannaðar, áreitið of mikið. Aðeins á einni deild fær fólk sérherbergi, rétt á meðan það er í bráðu geðrofi og með alvarlegar hegðunartruflanir. Annars þarf fólk í alvarlegum þunglyndisköstum og í sjálfsvígshættu að deila þröngu herbergi með ókunnugum. Ef það kemst á annað borð að. Fjölmörg dæmi eru þess að fárveiku fólki hafi verið vísað frá.
Það er engin lausn að fylla vasa fólks af lyfjum og senda það síðan heim.
Að hlusta á hjartsláttinn
„Hvernig forsætisráðherra yrði ég?“ velti Bjarni fyrir sér fyrir kosningarnar. Niðurstaðan var að hann myndi taka hlutverkið að sér af mikilli auðmýkt. „Ég held líka að forsætisráðherra þurfi að vera sveigjanlegur og hlusta eftir hjartslættinum hjá þjóðinni og bregðast við í samræmi við það. Ég held að sá mælikvarði sem mestu skiptir er sá hvort það tekst að auka lífshamingjuna hjá fólki. Er það ekki besti mælikvarðinn á það hvernig mönnum hefur tekist til? og ætti að vera svona leiðarljós.“
Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill meira fjármagn í heilbrigðisþjónustuna og er andvígur frekari einkavæðingu. Ekkert veldur landsmönnum eins miklum áhyggjum og heilbrigðiskerfið, samkvæmt nýlegri könnun. Þar kom einnig fram að fólk hefur helst áhyggjur af spillingu, fátækt og félagslegum ójöfnuði, og velferðarkerfinu.
Fáir vilja búa í samfélagi þar sem krabbameinssjúkir fá ekki lyfin sín vegna þess að þau eru of dýr, aldraðir svelta og litlum börnum á flótta er vísað úr landi á grundvelli reglugerðar sem heimilar slíkt en kveður ekki á um það.
Ef forsætisráðherra sér ekki fjárhagslegan ávinning í því að fjárfesta í fólki, heilsu þess og velferð, má biðja um að það sé að minnsta kosti staðið við gefin loforð.
Athugasemdir