Fellibylurinn Irma fer nú um Karíbahafið með ofsa og óveðri og hefur þegar valdið gífurlegu tjóni á ýmsum hinna litlu eyríkja sem þar eru í hafinu. Hér verður ekki fjallað um afleiðingar stormsins heldur athyglinni beint að ríkjum Karíbahafsins.
Eyjarnar í Karíbahafi byggðust flestar fyrir þúsundum árum. Þær eru afar frjósamar, enda vel í sveit settar, en þar reis ekki tæknimenning og þegar Spánverjar komu askvaðandi í lok 15du aldar voru íbúar eyjanna helstil „frumstæðir“ og fengu ekki rönd við reist.
Spánverjar murkuðu lífið úr fjölda frumbyggja, aðrir féllu af sjúkdómum sem fylgdu Evrópumönnum og nú er varla hægt að finna einn einasta íbúa á svæðinu sem á ættir að rekja til frumbyggjanna.
Þeir hafa fátt skilið eftir sig nema nafnið, en margir frumbyggjanna voru af ættbálki sem kallaðist Karíbar.
Evrópumenn fluttu hins vegar til eyjanna gífurlegan fjölda þræla frá Afríku og flestir íbúar eru af blönduðu kyni þeirra og Evrópumanna.
Eftir að reglulegar siglingar Evrópumanna yfir Atlantshafið hófust ætluðu margar þjóðir sér hlut í hinum frjósömu eyjum. Spánverjar, Frakkar og Englendingar lögðu undir sig margar eyjar og eyjaklasa, og ýmsar eyjar skiptu oftar en einu sinni um eigendur eftir því hvernig vindurinn blés í innbyrðis valdatafli stórveldanna.
En sumum eyjum réðu sjóræningjar, jafnvel langtímum saman.
Fleiri Evrópuríki slógu eign sinni á eyjar á svæðinu, ekki síst ekki Hollendingar en einnig Danir og jafnvel Svíar um tíma.
Hér á eftir verður saga hvers eyríkis ekki rakin í neinum smáatriðum heldur fyrst og fremst fjallað um stærð þeirra, mannfjölda og svo framvegis. Efnahagurinn er misjafn, víða ríkir fátækt en sums hafa ferðamenn fært mjög björg í bú, auk þess sem þjónusta við aflandsfélög og þess háttar svikamyllur er víða í gangi.
Kúba
Kúba er stærst eyjanna í Karíbahafi. Hún er góðum sjónarmun stærri en Ísland, rúmir 109.000 ferkílómetrar en Ísland er rétt tæplega 103.000. Kúba er líka fjölmennust, en þar búa 11,2 milljónir manna.
Spánverjar héldu Kúbu allt þar til upphófst stríð þeirra og Bandaríkjamanna 1898 en þá voru þeir hraktir frá eyjunni og þar var stofnað lýðveldi undir ægishjálmi Bandaríkjanna. Árið 1959 tóku kommúnistar völdin.
Á myndinni hér að neðan má sjá eyríkin í Karíbahafinu og Ísland til samanburðar.
Bahamaeyjar
eru 700 talsins, stórar sem smáar, og eru samtals um 13.000 ferkílómetrar eða rúmlega einn tíundi af stærð Íslands. Stærst þeirra er Andros, sem um 6.000 ferkílómetrar. Andros er reyndar nánast eins og sérstakur eyjaklasi sem hangir saman á eiðum, rifjum og skerjum.
Íbúar á Bahamaeyjum eru 376.000, sem sé góðum sjónarmun fleiri en Íslendingar. Auðlegð er öllu meiri á eyjunum en flestum öðrum Karíbaríkjum og lifa flestir á ferðamönnum og fjármálaþjónustu.
Á eyjunum réðu Spánverjar lengi, þar léku sjóræningjar líka löngum lausum hala en Bretar tóku eyjarnar á ofanverðri 17du öld. Þær öðluðust sjálfstæði 1973.
Turks og Caicos eyjar
Tveir eyjaklasar sem liggja í suðaustur af Bahama-eyjaklasanum. Ótal margar smáeyjar sem samtals eru aðeins 616 ferkílómetrar. Íbúar eru rúm 31.000 og búa langflestir á eyjunni Provenciales.
Eyjarnar eru sjálfstjórnarsvæði undir handarjaðri Breta.
Cayman eyjar
Annað breskt sjálfstjórnarsvæði sem er í hafinu suður af Kúbu. Samtals eru eyjarnar 264 ferkílómetrar og þar búa 57.000 manns. Þar eins og á Turks og Caicos og víðar er rekin umfangsmikil „fjármálaþjónusta“.
Jamaíka
Þar kemur ýmsum á óvart þegar þeir uppgötva hvað Jamaíka er smá, miðað við margvísleg áhrif sem eyjaskeggjar hafa haft, ekki síst í tónlist, en þaðan er reggí-tónlistin upprunnin og þar réði Bob Marley ríkjum.
Upp á síðkastið hefur eyjan einnig orðið fræg fyrir magnaða hlaupara og aðra íþróttamenn.
Er þar Usain Bolt fremstur meðal jafningja.
Jamaíka er aðeins einn tíundi hluti Íslands að stærð en íbúar eru 3 milljónir.
Eyjan öðlaðist sjálfstæði frá Bretum 1962.
Haítí
Eyjan Hispanjóla er um það 75 prósent af stærð Íslands og þar eru tvö ríki, Haítí og Dómínska lýðveldið. Þar af er Haítí 27.000 ferkílómetrar og þar búa tæpar 10 milljónir manna.
Haítí á sér mjög merkilega sögu. Þar var nýlenda Frakka en í kjölfar frönsku byltingarinnar á ofanverðri 18du öld gerðu þrælar þar uppreisn og eftir ýmsar vendingar og blóðug átök hlaut landið sjálfstæði í upphafi 19du aldar.
Dómíníska lýðveldið
er 48.000 ferkílómetrar og þar eru íbúar 10 milljónir. Íbúar á Hispanjólu eru því samtals nærri helmingi fleiri en íbúar Kúbu.
Landið var mestalla 19du öld ýmist sjálfstætt eða undir stjórn Spánverja en hlaut endanlega sjálfstæði árið 1924 eftir að Bandaríkjamenn höfðu setið þar í aldarfjórðung eftir að hafa tekið landið af Spánverjum.
Púerto Ríkó
er næst hinna svokölluðu stóru Antillaeyja í austur frá Hispanjólu. Landið er 9.000 ferkílómetrar, tæplega einn tíundi af Íslandi. Eyjan var undir stjórn Spánverja þar til Bandaríkjamenn tóku hana eftir stríð sitt við Spán undir aldamótin 1900.
Síðan hefur eyjan verið undir stjórn Bandaríkjanna sem sjálfstjórnarsvæði. Hugmyndir um að eyjan yrði 51sta ríki Bandaríkjanna hafa ekki hlotið hljómgrunn en sjálfstæðishugmyndir hafa heldur ekki komist verulega á legg.
Íbúar eru tæplega 3,5 milljónir.
Og nú er best að færa sig inn á nýtt kort til að sjá betur til á Karíbahafinu austanverðu.
Spænsku jómfrúreyjar
Austur af Púertó Ríkó koma fyrst Spænsku jómfrúreyjar en þær eru tvær stærstar og heita Culebra og Viquez.
Spænsku Jómfrúareyjar sjást lítt eða ekki á kortinu hér að ofan en þær eru alls 378 ferkílómetrar og íbúar eru 11.000.
Eins og vænta mátti eru eyjarnar undir stjórn Spánar og nálega hið eina sem eftir stendur af þeirra mikla nýlenduveldi í nýja heiminum.
Bresku jómfrúreyjar
Þá kom Bresku jómfrúreyjar undir stjórn Breta eins og nafnið bendir til. Þær eru allmargar en samtals ekki nema 158 ferkíómetrar og íbúar eru 28.000.
Stærst Bresku jómfrúreyja er hin víðfræga og vel metna Tortóla.
Bandarísku jómfrúreyjar
Stærst þeirra er eyjan St. Croix en tvær þær næststærstu heita St. John og St. Thomas. Þær voru dönsk nýlenda en Bandaríkjamenn keyptu nýlenduna árið 1917 af því þeir óttuðust að Þjóðverjar myndu hrifsa hana af Dönum og koma sér þar upp kafbátastöð.
Dönum hafði farnast illa við stjórn nýlendunnar og til dæmis ríkti þar ekki prentfrelsi svo seint sem 1915.
Gegn því að fá að kaupa eyjarnar féllust Bandaríkjamenn á yfirráðarétt Dana yfir Grænlandi, en þeir höfðu ekki viljað viðurkenna þann rétt fram að því.
Eyjarnar eru samtals 346 ferkílómetrar og þar búa rúmlega 100.000 manns.
Anguilla
er sjálfstjórnarsvæði Breta. Eyjan og nokkrar nálægar smáeyjar eru samtals um 90 ferkíómetrar og þar búa 15.000 manns.
Saint Martin
Steinsnar í suður af Anguilla er eyjan St. Martin sem er samtals ekki nema 87 ferkílómetrar, sem sé einn þriðji eða svo af stærð Reykjavíkur. Þótt stærðin sé ekki mikil, þá hefur eyjan síðan um miðjan 17du öld verið tvískipt.
Hlutarnir eru nokkurn veginn jafn stórir og á norðurhlutanum er hollenska sjálfstjórnarsvæðið Sint Maarten. Þar búa 40.000 manns.
Á syðri hlutanum er franska sjálfstjórnarsvæðið St. Martin þar sem íbúar eru 37.000. Ekki mun í undirbúningi að sameina þessi svæði, eins og kynni þó að liggja beint við.
St. Barthélemy
Spöl í suður frá St. Martin er svo smáeyjan St. Barthélemy sem er franskt sjálfstjórnarsvæði. Hún er ekki nema 25 ferkílómetrar sem samsvarar tæplega tveim Heimaeyjum. Íbúar eru 10.000.
Þessi eyja var í eigu Frakka 1784 þegar hún var fengin Svíum í skiptum fyrir verslunarréttindi franskra kaupmanna í Gautaborg.
Þess vegna heitir stærsti bærinn á St. Barthélemy Gustavia eftir einhverjum Gústaf Svíakóngi.
Svíar áttu eyjuna til 1878 þegar þeir seldu hana aftur til Frakka.
St. Kitts og Nevis
Tvær eyjar, eins og nafnið bendir til, og um þrír kílómetrar milli þeirra. Samtals eru þær 271 ferkílómetri og má til samanburðar geta þess að Reykjavík (án Kjalarness) er 274. Íbúar eru um 55.000 og er landið bæði hið minnsta og fámennasta af sjálfstæðum ríkjum í Karíbahafi. Það er líka nýjasta ríkið, því það fékk sjálfstæði 1983.
Antíga og Barbúda
eru sjálfstætt ríki, 440 ferkílómetrar samtals, og íbúar eru 92.000. Langflestir búa á Antíga en um 1.800 manns á Barbúda. Sjálfstæði fengu eyjarnar 1967 frá Bretum.
Monserrat
Sextán ferkílómetrar, hluti Bretlands. Íbúar eru tæplega 5.000. Virkt eldfjall er á eyjunni sem lætur reglulega á sér kræla.
Gvadelúp
Eða Guadeloupe. Tvær allstórar eyjar með mjótt sund á milli sín og nokkrar smáeyjar. Samtals 1.600 ferkílómetrar en íbúar eru 400.000. Franskt sjálfstjórnarsvæði.
Árið 1813 tóku evrópsku stórveldin Gvadelúp af Frökkum, en í Frans var veldi Napóleons þá að hrynja. Eyjurnar voru afhentar Svíum í þakklætisskyni fyrir aðstoðina við að kveða Napóleon í kútinn. Það stóð þó ekki lengi því ári seinna var Gvadelúp aftur tekin af Svíum og látin í hendur Frakka þar sem nýtt Bourbon-kóngaveldi var að komast á laggirnar.
Á Gvadelúp eins og víðar í Karíbahafi hefur þróast fjörug og litrík músík.
Dómíníka
Ekki skal rugla þessari litlu en sérlega gróðursælu og frjósömu eyju saman við Dóminíska lýðveldið. Eyjan er eitt yngsta land heims og þar er bullandi jarðhiti og einn stærsti hver jarðar.
Eyjan er 750 ferkílómetrar og íbúar 72.000. Þeir fengu sjálfstæði frá Bretum 1978 en Bretar höfðu tekið eyjuna í lok 18du aldar frá Frökkum.
Martiník
Eyjan er 1.100 ferkílómetrar og þar búa 385.000 manns. Þetta er franskt sjálfstjórnarsvæði. Eyjan er frægust fyrir ógurlegt eldgos árið 1902 en þá dóu 30.000 manns.
Árið 1763 fæddist á Martiník Jósefína nokkur sem seinna varð keisaraynja Napóleons Frakkakeisara. Hún var auðugum kreólaættum, en Kreólar voru þeir kallaðir sem áttu uppruna að rekja bæði til Evrópu og Afríku.
St. Lucia
617 ferkílómetrar og íbúar eru tæplega 185.000. Frakkar og Bretar börðust lengi um eyjuna en hún var á endanum dæmd Bretum eftir Napóleonsstríðin. Árið 1967 fékk eyjan sjálfstæði frá Bretum.
Þessi eyja er orsök þess að Halldór Laxness dugar ekki til að færa Íslendingum heimsmet fyrir flesta Nóbelsverðlaunahafa miðað við mannfjölda. Lúsíumenn státa nefnilega af tveimur Nóbelsverðlaunahöfum.
Árið 1979 fékk Arthur Lewis verðlaunin í hagfræði og 1992 fékk Derek Walcott bókmenntaverðlaunin.
St. Vincent og Grenadín-eyjar
St. Vincent er langstærsta eyjan í þessu eyríki en samtals eru ferkílómetrarnir 389 og íbúar 103.000.
Eldvirkni er töluverð á St. Vincent. Bretar og Frakkar skiptust á um að kasta eign sinni á eyjuna á fyrri tíð en Bretar héldu henni að lokum. Sjálfstæði fékk ríkið 1979.
Barbados
er 438 ferkílómetrar en þar búa 278 þúsund manns. Eyjan fékk sjálfstæði frá Bretum 1966 en eins og raunin er um flestar gömlu nýlendur Breta á svæðinu er Elísabet drottning formlegur þjóðhöfðingi.
Grenada
344 ferkílómetrar og íbúar eru 110.000. Eyjan fékk sjálfstæði frá Bretum 1974 og er frægust fyrir að ameríski herinn gerði innrás 1983 vegna þess að Ronald Reagan forseti óttaðist að eyjan væri að lenda í klóm kommúnista.
Trínídad og Tóbagó
Árið 1976 fengu eyjarnar sjálfstæði frá Bretum. Trínídad er langstærst eyjanna sem tilheyra ríkinu en á Tóbagó búa þó allmargir. Þar er borgin Scarborough, sjá kortið hér að ofan.
Alls eru eyjarnar 5.100 ferkílómetrar og þar búa 1,3 milljónir. Óvenju stór hluti íbúa (um 35 prósent) á ættir að rekja til Indlands en eftir að þrælahald á Afríkumönnum var afnumið á 19du öld fluttu Bretar tæplega 150.000 Indverja til landsins til að púla á sykurreyrsplantekrum sínum og var hlutskipti þeirra ekki ýkja frábrugðið þrælahaldi.
Meðal afkomenda þeirra er rithöfundurinn V.S.Naipaul sem fékk bókmenntaverðlaun Nóbels 2001.
Arúba og Curacao
Út af ströndum Venesúela eru svo eyjar tvær sem lúta Hollandi og eru hvor sitt sjálfstjórnarsvæðið. Arúba er 178 ferkílómetrar og þar búa 100.000 manns en Curacao er 444 ferkílómetrar og þar búa 160.000 manns.
Bermúda
er oft talin til eyjanna í Karíbahafi þótt hún sé í raun víðsfjarri. Hvorki meira né minna en 1.400 kílómetrar eru milli Bermúda og Bahama-eyja. Það er ámóta vegalengd og milli Íslands og Írlands. Altént er eyjan 53 ferkílómetrar og þar búa 56.000 manns!
Þrettán sjálfstæði ríki
eru sem sagt í Karíbahafi. Talin eftir mannfjölda eru þau þessi: Kúba, Dómíníska lýðveldið, Haítí, Jamaíka, Trínídad og Tóbagó, Bahama-eyjar, Barbados, St. Lúsía, St. Vincent og Grenadín-eyjar, Grenada, Antíga og Barbúda, Dómíníka, St. Kitts og Nevis.
Og að lokum má sjá nokkrar af þessum eyjum og eyjaklösum í réttum samanburði við Færeyjar, þar sem margir Íslendingar þekkja vel til. Færeyjar eru 1.400 ferkílómetrar og þar búa 50.000 manns, aðeins fleiri en á St. Kitts og Nevis.
Athugasemdir