Nú þegar engin engin goðgá virðist að trúa því að Donald Trump forseti Bandaríkjanna muni hrökklast úr embætti fyrr en síðar og Mike Pence taka við embætti hans, þá eru Demókratar vestan hafs þegar farnir að velta fyrir sér hver þeirra verði sigurstranglegastur í forsetakosningunum í nóvember 2020.
Samkvæmt fréttum eru ýmsir vongóðir stjórnmálamenn þegar byrjaðir að leggja drög að framboði og fjölmiðlamenn þekkja engin dæmi þess að svo margir hafi áður verið byrjaðir að máta sig við forsetaembættið svo snemma.
Sumir eru meira að segja þegar byrjaðir að safna fé fyrir framboð sitt, þótt ekki fari hátt ennþá.
Meðal þeirra sem á þessari stundu eru taldir líklegir til að verða í framboði 2020 eru þessi hér:
Kamala Harris er fædd 1964 í Kaliforníu og hefur búið þar alla sína tíð. Móðir hennar er innflytjandi frá Indlandi, læknir og stundar krabbameinsrannsóknir. Faðir hennar er ættaður frá Jamaíka. Harris nam hagfræði, stjórnmálafræði og lögfræði og fór ung að láta til sín taka í löggæslumálum í Kaliforníu.
Árið 2010 var hún kosin dómsmálaráðherra fylkisins, þótti dugmikil og röggsöm og var endurkjörin 2014. Í fyrra var hún svo kosin öldungadeildarþingmaður Kaliforníu. Hún þykir aðsópsmikil og hefur beitt sér heilmikið gegn Trump forseta.

Kamala gifti sig 49 ára gömul og á ekki börn. Systir hennar Maya er stjórnmálaskýrandi hjá sjónvarpsstöðinni MSNBC.
Önnur kona sem oft er nefnd sem hugsanlegur forsetaframbjóðandi er Elizabeth Warren. Hún fæddist 1949 í Oklahoma, lærði lög og var prófessor í lögfræði áður en hún fór út í pólitík og var kosin í öldungadeildina fyrir Massachusetts 2012.
Warren hefur vakið mikla athygli fyrir skörungsskap og róttækni (á ameríska vísu) og margir Demókratar hefðu frekar vilja sjá hana etja kappi við Trump en Hillary Clinton. Óvíst er hvort hún hefur metnað til að leggja út í baráttu um forsetaembættið en sumir sem til þekkja fullyrða að hún muni láta slag standa í þetta sinn og bjóða sig fram.
Sumum finnst hún vera of vinstrisinnuð til að þorandi sé að bjóða hana fram. En hún er altént ein fárra frambjóðenda sem ekki er hægt að efast um að hafi fyrst og fremst hugsjónir í fyrirrúmi.

Í því sambandi er samt athyglisvert að hún kaus jafnan Repúblikana fram til ársins 1995 af því hún taldi að þeir styddu betur en Demókratar við frjálsan markað.
Warren gekk í hjónaband ung að árum, eignaðist tvö börn og skildi síðan. Um 1980 giftist hún öðru sinni.
Þriðja konan sem oft er nefnd í sambandi við forsetaframboð af hálfu Demókrata er Kirsten Gillibrand.
Hún fæddist 1966 í New York, foreldrar hennar eru vel stæðir lögfræðingar og bæði í innsta hring Demókrata í fylkinu. Faðir hennar hefur iðulega unnið fyrir sér sem hagsmunagæslumaður ýmissa fyrirtækja - öðru nafni lobbyisti.
Gillibrand gekk 2001 að eiga breskan fjármálaspekúlant og eiga þau tvö börn.
Hún lærði lög og fór að starfa fyrir Hillary Clinton þegar hún bauð sig fram til öldungadeildarinnar fyrir New York um aldamótin.

Árið 2006 var Gillibrand kosin í fulltrúadeild Bandaríkjaþings en varð svo öldungadeildarþingmaður þegar Hillary Clinton varð utanríkisráðherra í stjórn Obama. Því starfi hefur hún gegnt síðan.
Gillibrand þótti í upphafi ferils síns í hópi hægri sinnuðustu stjórnmálamanna Demókrataflokksins en hefur færst til vinstri með árunum.
Þá er talið víst að Terry McAuliffe ali með sér vonir um forsetaembættið. Hann fæddist 1959 í New York-fylki, faðir hans var fasteignasali og McAuliffe hóf kornungur feril sem allsherjar athafnamaður - og með góðum árangri.

Hann fékkst við allt mögulegt og fór síðan að hafa afskipti af stjórnmálum sem Demókrati. Hann var kosinn fylkisstjóri Virginíu 2013. McAuliffe þykir litríkur og aðsópsmikill og hafa þá sannfæringu sem heppilegust er hverju sinni. Um þrítugt gekk hann að eiga dóttur viðskiptafélaga síns og eiga þau fimm börn.
Þá er Bernie Sanders aftur nefndur til sögu en hann mun ferðast víða um Bandaríkin og safna fé.
Sanders verður orðinn 79 ára þegar kosningarnar 2020 fara fram en lætur víst lítinn bilbug á sér finna enn.

Þá er talið að Joe Biden fyrrum varaforseti Obama ráði illa við forsetafýsnina. Hann verður orðinn 78 ára þegar kosið verður.
Aðeins einn Demókrati hefur þó enn sem komið er lýst því afdráttarlaust yfir að hann ætli að sækjast eftir forsetaembættinu.
Það er John Delaney, fulltrúardeildarþingmaður frá Maryland, kvæntur fjögurra barna faðir og áður kaupsýslumaður. Hann er ekki talinn eiga mikla möguleika, en hvað vitum við? Ekki var Trump talinn eiga mikla möguleika!
Hið eina sem telja má víst er að margir fleiri frambjóðendur eiga eftir að koma við sögu áður en talið verður upp úr kjörkössum í nóvember 2020.
Athugasemdir