Nichole Leigh Mosty, þingkona Bjartrar framtíðar og formaður velferðarnefndar Alþingis, telur að þingmenn hafi engin áhrif í íslensku samfélagi.
Þetta kemur fram í viðtali við hana á Mbl.is. Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, tilkynnti í viðtali við Kópavogsblaðið í dag að hún ætlaði að hætta þingmennsku um áramótin. Haft er eftir Theodóru að þingmenn komi „hvergi að neinni stefnumótun eða ákvarðanatöku um strauma og stefnur“ og segist Nichole sammála henni.
Alþingi er valdamesta stofnun í íslenskri stjórnskipan. Þingið fer með löggjafar- og fjárstjórnarvald, sinnir eftirliti með framkvæmdavaldinu og ræður því hvernig ríkisstjórn er skipuð á hverjum tíma. Þiggja þingmenn há laun, meira en 1,1 milljón króna á mánuði, vegna ábyrgðarinnar og valdsins sem störfum þeirra fylgir.
Theodóra og Nichole tilheyra báðar Bjartri framtíð, en flokkurinn á aðild að ríkisstjórn sem reiðir sig á eins manns stjórnarmeirihluta. Því má leiða líkum að því að einstakir stjórnarþingmenn hafi einmitt nú óvenju mikil völd og áhrif.
Svo virðist þó ekki vera ef marka má orð Nichole og Theodóru.
„Það vantar eftirfylgni eftir málum og þingmenn eru svo langt frá því að geta haft áhrif þó svo að þingmennska eigi að teljast áhrifastaða,“ er haft eftir Nichole á Mbl.is.
Theodóra telur að þingstörf snúist ekki um stefnumótun og framkvæmd verkefna. „Þau eru meira eins og málstofa. Flest mál sem samþykkt eru koma úr ráðuneytum í gegnum ríkisstjórn. Við þingmenn höfum svo það hlutverk að fjalla um þau en komum hvergi að neinni stefnumótun eða ákvarðanatöku um strauma og stefnur,“ segir hún. „Reyndar geta þingmenn óskað umræðu um allt á milli himins og jarðar. Oft er sú umræða á flokkspólitískum nótum, sett upp til að berja sér á brjóst eða berja á pólitískum andstæðingum. Það hentar mér ekki enda leiða þær sjaldnast til nokkurrar niðurstöðu.“
Theodóra hefur sjálf aldrei lagt fram þingmál, hvorki lagafrumvarp né þingsályktunartillögu, en var meðflutningsmaður að frumvarpi atvinnuveganefndar til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (brottfall og framlenging bráðabirgðaákvæða) sem fékkst samþykkt þann 1. júní síðastliðinn.
Nichole Leigh Mosty, sem segir þingmenn áhrifalausa, hefur verið meðflutningsmaður að fimm þingsályktunartillögum og lagt fram tvö frumvörp sem formaður velferðarnefndar en bæði voru samþykkt. Annað frumvarpið fól í sér afturvirka skerðingu á fimm milljarða réttindum sem ellilífeyrisþegar höfðu öðlast fyrir mistök.
Nichole hefur 394 sinnum greitt atkvæði með lagabreytingum á Alþingi og 37 sinnum á móti. Theodóra hefur 382 sinnum greitt atkvæði með málum og 38 sinnum á móti. Ýmis málanna hafa, með beinum hætti, falið í sér „ákvarðanatöku um strauma og stefnur“ og sumar atkvæðagreiðslurnar hafa verið hnífjafnar.
Athugasemdir