Bergur Þór Ingólfsson, faðir stúlku sem barnaníðingurinn Robert Downey braut gegn, segir að fulltrúar ríkisstjórnarinnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd neiti að sinna skyldum sínum og snúi þannig baki við brotaþolum. Þannig bregst hann við frétt Stundarinnar um að maður sem dæmdur var fyrir að misnota stjúpdóttur sína nær daglega í 12 ár hafi fengið uppreist æru þann 16. september, sama dag og Robert Downey.
Vísar Bergur til þess að fulltrúar stjórnarmeirihlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gengu út af fundi þann 14. ágúst þegar upplýsingar um Robert Downey og veitingu uppreist æru hans voru til meðferðar.
„Fulltrúar ríkisstjórnarinnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd neita að sinna skyldum sínum. Þau snúa baki við brotaþolum og óttast að það blæði úr augum þeirra líti þau sannleikann,“ skrifar Bergur Þór á Facebook í dag.
„Formaður nefndarinnar segir í sífellu að verri brot hafi verið framin. Forsætisráðherra finnst að ekki skuli gert upp á milli einstakra brota þegar veitt er uppreist æru. Forsetinn skrifar upp á óflekkað mannorð barnaníðinga í kippum því stjórnarskráin skipar honum að gera það. Upplýsingum er haldið frá brotaþolum og öllum almenningi. Það er löngu komið nóg. Fáum allar upplýsingar á borðið og nýja stjórnarskrá í kjölfarið til að vernda venjulegt fólk gegn þessu óskiljanlega rugli.“
Athugasemdir