Þrátt fyrir að fyrrverandi kærasti hennar hafi verið handtekinn fyrir að beita hana ofbeldi og hann láti hana ekki í friði, hefur Hanna Kristín Skaftadóttir ekki fengið Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til að samþykkja að manninum verði meinað að nálgast hana.
Maðurinn kom að heimili hennar í gær. „Síminn hringir og hringir og sms hrúgast inn. Hann er að leita að mér,“ lýsir hún í færslu á Facebook.
Þarf meira slæmt að gerast?
Í færslunni á Facebook vill Hanna Kristín láta fólk vita, rétt eins og hún hefur tilkynnt málið til 112. Hún óttast nefnilega að eitthvað svakalegt þurfi að gerast til þess að hún fái frið.
Hún hefur kært manninn fyrir að beita sig ofbeldi, ásamt því að leggja fram áverkavottorð. Maðurinn setur sig stöðugt í samband við hana og sinnir því ekki þegar hún biður hann að hætta.
„Beiðni minni um nálgunarbann á hendur fyrrum kærasta míns var hafnað fyrir nokkru síðan. Síðan þá hefur ekki liðið sá dagur að maðurinn með einum eða öðrum hætti setji sig ekki í samband við mig. Við erum að tala um mann sem sérsveitin var kölluð til út af fyrir ca 3 vikum, þegar hann var handtekinn fyrir ölvunarakstur. Sérsveitina. Eftir ölvunarakstur. Hvernig getur lögreglan talið að öryggi mínu sé ekki ógnað?“
„En hvað þarf til?“
Hanna Kristín segist horfa í kringum sig þegar hún fer út um dyrnar á heimili sínu. Hún spyr sig hvort eitthvað fleira slæmt þurfi að gerast til þess að hún fái frið. Því kerfið vill ekki taka af skarið og takmarka rétt mannsins til að nálgast hana.
„Tilfinningin að vera í mínum sporum er ólýsanleg. Skrýtið sambland af baráttuvilja en á sama tíma fullkomnu skorti á þreki og depurð. Mikill ótti en samt öryggi í að á einhverjum tímapunkti mun eitthvað svo slæmt gerast og ÞÁ verður hann handtekinn. En hvað þarf til?“ spyr hún.
Lög um nálgunarbann virka með þeim hætti að ef lagt er á nálgunarbann getur sakborningur áfrýjað því til héraðsdóms. Ef því er hins vegar synjað getur þolandi skotið synjuninni til ríkissaksóknara. Hanna Kristín hefur áfrýjað málinu til ríkissaksóknara og er beðið niðurstöðu hans.
„Hún fær ekki frið“
„Við teljum vera rök fyrir nálgunarbanni og sér í lagi eftir samskipti undanfarna daga, þar sem maðurinn er stöðugt að hafa samband við hana. Hún fær ekki frið,“ segir Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Hönnu Kristínar. „Það er einhver rannsókn í gangi, láttu þá bara brotaþolann í friði,“ bætir hann við.
Sendi lögfræðihótun
Hanna Kristín er ekki eina konan sem greint hefur frá sambærilegri reynslu af manninum. „Ég var í sömu sporum með þessum sama manni í allt, allt of langan tíma,“ sagði önnur kona á Facebook, sem lýsti einnig ofbeldi af hans hálfu.
Fyrir utan að setja sig í samband við hana og koma að heimili hennar hafa viðbrögð mannsins, Magnúsar Jónssonar, verið að senda Hönnu Kristínu lögfræðikröfu þar sem hann fer fram á að hún greiði henni 1,5 milljónir króna vegna meiðyrða. Þar er einnig lögð fram krafa um að hún „verði látin sæta ýtrustu refsingu sem lög leyfa“, en meiðyrði flokkast undir almenn hegningarlög og er hámarksrefsing fangelsisvist. Meðal annars hótar Magnús að kæra Hönnu Kristínu á grundvelli þess að hún hafi sagt frá „einkamálefnum“ og svo að hún hafi breitt út hatursáróður og móðgað eða smánað fyrrverandi maka. Lagagreinar sem lögmaður Magnúsar vitnar hafa refsiramma upp á tveggja ára fangelsisdóm, og er farið fram á hámarksrefsingu.
Sjálfur hefur hann tvívegis verið handtekinn fyrir ölvunarakstur frá því að hann kom aftur frá Texas, þar sem hann var handtekinn fyrir líkamsárás á hendur þáverandi kærustu sinni, Hönnu Kristínu, í mars.
Færsla Hönnu Kristínar
Ég heyri strákana mína hlægja. Þeir eru í rúminu mínu að horfa á Guardians of the Galaxy fyrir háttinn. "Mamma! er baðið nice?" Mikael skottast inn og strýkur mér um hárið og kyssir mig á ennið. Ég rétt náði að þurrka tárin. Þeir vita ekkert. Bað og kertaljós. Það hjálpar manni aðeins að slaka á. Síminn hringir og hringir og sms hrúgast inn. Hann er að leita að mér.
Beiðni minni um nálgunarbann á hendur fyrrum kærasta míns var hafnað fyrir nokkru síðan. Síðan þá hefur ekki liðið sá dagur að maðurinn með einum eða öðrum hætti setji sig ekki í samband við mig. Við erum að tala um mann sem sérsveitin var kölluð til út af fyrir ca 3 vikum, þegar hann var handtekinn fyrir ölvunarakstur. Sérsveitina. Eftir ölvunarakstur. Hvernig getur lögreglan talið að öryggi mínu sé ekki ógnað?
Núna er ég fangi. Frelsi mitt er lítið sem ekkert. Stöðugur ótti. Mig langar ekkert meira en að einhver taki utan um mig og segi af fullkomnu öryggi "þetta verður allt í lagi".... en nei, ég kasta daglega Molotov kokteilum í átt að öllum þeim sem koma nálægt mér því ég vil ekki að fleiri flækist inn í líf mitt. Tel mig vera að vernda fólk með því að halda þeim frá mér. Þetta er mitt vandamál, mín barátta og ég þarf að þrauka. Verð að sigra. Vera sterk. Alltaf að vera sterk og jákvæð.
Ef ég sýni ótta þá skynja strákarnir mínir það og umfram allt þarf ég að halda daglegri rútínu án þess að þeir skynji hvað sé í gangi. Ég þarf að vinna mína vinnu með bros á vör og skýrri hugsun. Halda fókus. Koma drengjunum í skólann og vera til staðar með hlýju í hjarta og hella upp á kakó og gefa þeim köku. Aftur, vera sterk og með bros á vör. Leyfa þeim að upplifa það frelsi að búa við öryggi.
En... hoppandi höfrungar! - hvað þetta er hrikalega erfitt. Stöðugt áreiti allan daginn, sama hvaða leiðir hann notar til að nálgast mig.
Er ekki nóg að ég hafi lagt fram kærur í nokkrum liðum um líkamlegt ofbeldi? Að það sé til áverkavottorð af líkamsáverkum mínum, nokkur? Að hann hafi í beinum orðum haft í hótunum við mig? Að hann hafi birt nektarmynd af mér á facebook? Að hann setji sig stöðugt í samband við mig allan sólarhringinn? Að hann komi upp að heimili mínu til að athuga hvort ég sé heima? Að hann sé með ágiskanir um að ég sé að hitta hinn og þennan mann og leiti þá uppi?
Hvar drögum við mörkin? Hvað er hægt að gera?
Tilfinningin að vera í mínum sporum er ólýsanleg. Skrýtið sambland af baráttuvilja en á sama tíma fullkomnu skorti á þreki og depurð. Mikill ótti en samt öryggi í að á einhverjum tímapunkti mun eitthvað svo slæmt gerast og ÞÁ verður hann handtekinn. En hvað þarf til?
Þetta er ekkert líf fyrir þann sem þarf að þola stöðugt áreiti. Maður einangrast mikið og upplifir vanmátt gagnvart aðstæðum. Ég lít stöðugt um öxl þegar ég fer út að skokka ein. Opna hurðina heima varlega og lít í kringum mig.
En að hlusta á hlátur drengjanna minna, óttaleysið þeirra... það fleytir mér áfram. Það hjálpar mér að vera sterk og brosa. Sama hversu erfitt þetta er. Það er býsna stór áskorun að standa keik í þessum aðstæðum og viðurkenna vanmátt sinn og þurfa að horfast í augu við að þetta eru aðstæður núna og vonandi kemur betra tímabil eftir þetta. Eins og pabbi minn hefur alltaf sagt af sinni stóísku ró "This too shall pass".
Búin að hringja í 112 í kvöld og láta vita af áhyggjum mínum. Þið vitið af áhyggjum mínum. Lögmaður minn stendur þétt við bakið á mér. Krossum fingur og vonum að næst fáist nálgunarbannið í gegn án þess að það þurfi eitthvað svakalegt að gerast í millitíðinni.
Athugasemdir