Ríkisendurskoðun yfirfer nú fjárframlög til stjórnmálaflokksins Viðreisnar, vegna ábendinga um að flokkurinn hafi brotið lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.
Í lögum er kveðið á um að hámarksframlag lögaðila til stjórnmálasamtaka sé 400 þúsund krónur. Hins vegar megi tvöfalda þá upphæð þegar stjórnmálaflokkur er stofnaður.
Helgi Magnússon fjárfestir veitti Viðreisn styrk sem nemur hámarksupphæðinni, 800 þúsund krónum. Hins vegar veittu félög í hans eigu Viðreisn einnig framlög. Helgi er skráður 100% eigandi Varðbergs ehf. og Hofgarða ehf. sem samtals veittu Viðreisn 800 þúsund króna styrk. Til viðbótar er Helgi einnig tengdur öðrum félögum sem gáfu Viðreisn 800 þúsund krónur til viðbótar, en þar er eignarhald hans langt undir 10 prósentum.
Spurningin er hins vegar hvort hann sé lögformlega „tengdur aðili“, samkvæmt skilgreiningu laganna, og hvort túlka beri lögin svo að framlög frá félögum í hans eigu séu talin með framlögum hans sem lögaðila.
„Við sáum ekkert athugavert í fyrstu skoðun“
„Staðan er bara þannig að við birtum þetta, við skoðum þetta, og ef við sjáum ekki neitt í fyrstu umferð og ef síðan kemur í ljós að eitthvað er að, þá látum við lagfæra það,“ segir Guðbrandur Leósson, sérfræðingur hjá Ríkisendurskoðun, sem nú skoðar fjárframlögin til Viðreisnar, sem nema 26,7 milljónum króna samtals.
„Við sáum ekkert athugavert í fyrstu skoðun,“ segir hann. „Ef í ljós kemur að eitthvað er að, þá er það bara bakfært. Ef eitthvað er í ólagi eru menn látnir endurgreiða.“
Í lögum um fjármál stjórnmálaflokka er kveðið á um að „telja skal saman framlög tengdra aðila.“ Guðbrandur segir að reglur um tengda aðila séu „nokkuð flóknar“.
Í lögum eru tengdir aðilar flokkaðir með þessum hætti: „Lögaðilar þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef einstaklingar eða lögaðilar, sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhlutur og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.“
Þá segir: „Lögaðilar, sem inna af hendi framlög til stjórnmálasamtaka eða frambjóðenda, skulu sérgreina heildarfjárhæð slíkra framlaga í ársreikningum sínum. Telja skal saman framlög tengdra aðila.“
Athugasemdir