Sumar eitt í byrjun aldarinnar dvöldum við í fallega bænum Montclair í New Jersey. Þótt hluti Sopranos-þáttanna hafi verið tekinn í bænum upplifa flestir sig örugga þar. Reyndar svo örugga að húsinu sem við dvöldum í var aldrei læst.
Í þessum notalega smábæ er hægt að rölta út á strætóstoppistöð og hoppa upp í vagn sem fer með mann beint á Port Authority samgöngumiðstöðina á Manhattan á 20 mínútum. Þar mætti okkur annað andrúmsloft. Þetta var stuttu eftir árásina á Tvíburaturnana og hvarvetna voru hermenn og lögregla með alvæpni. Öryggistilfinningin hvarf sem dögg fyrir sólu. Skilaboðin voru að við værum á hættulegum stað. Stað sem væri skotmark. Vinum okkar fannt vopnaburðurinn líka óþægilegur. Bent var á að verja þyrfti göng og brýr að Manhattan. Sprengja í Lincoln-göngunum myndi ekki einungis valda manntjóni, heldur loka borginni að hluta.
Ég veit ekki hvort það teljist eðlilegt en hausinn á mér er þannig að hann vill sífellt vera að leysa þrautir. Hann fann samstundis leið framhjá öryggisgæslunni. Vildi maður á annað borð sprengja Lincoln-göngin, væri auðvelt að fara með sprengjuna hina leiðina. Í New Jersey var nefnilega engin öryggisgæsla, bara vinalegur vagnstjóri sem bauð okkur góðan daginn. Auk þess væri hægt að fara með sprengju í bíl, á mótorhjóli eða ... möguleikarnir voru óendanlegir og vopnaburðurinn allur í besta falli sýndarmennska.
„Auk þess væri hægt að fara með sprengju í bíl, á mótorhjóli eða ... möguleikarnir voru óendanlegir og vopnaburðurinn allur í besta falli sýndarmennska.“
Í fyrrasumar heimsóttum við París. Eftir voðaverkin, kennd við Charlie Hebdo, voru þar vopnaðir verðir, her og lögregla, nánast á hverju götuhorni. Víða mátti sjá leiðbeiningar um hvað gera skyldi í hryðjuverkaárás. Hlaupa burt. Fela sig. Að kvöldi Bastilludags fórum við út á götu sem var í beinni sjónlínu við Eiffelturninn til að njóta flugeldanna. Öllum aðliggjandi götum var lokað og vopnuð lögregla gætti mannskaparins. Í það skiptið var það ekki bara hausinn á mér sem fann leið í kringum öryggisgæsluna. Ódæðismaður í Nice bjó til nýja gerð hryðjuverka. Hann keyrði vörubíl á fólkið sem horfði á flugeldana þar.
Í desember fórum við svo til Strassborgar. Enn giltu neyðarlög í Frakklandi og miðborginni var lokað fyrir allri bílaumferð meðan á jólamarkaðnum stóð. Þegar við þrömmuðum með töskurnar okkar inn í borgina stoppuðu vopnaðir hermenn okkur, stráklingar á aldur við syni mína, og þóttust skoða töskurnar okkar. Aftur hugsaði ég um falskt öryggi og að ég hefði getað komið hverju sem er fram hjá þeim. Eftir að við höfðum notið jólamarkaða í Strassborg og í Frankfurt á heimleiðinni fann enn einn ódæðismaðurinn leið til að drepa venjulega, saklausa borgara. Ekið var á jólamarkað í Berlín með þeim afleiðingum að tólf létust og tugir særðust. Og alltaf hugsar maður eins og hryðjuverkamennirnir vilja að við hugsum: Þetta hefði getað verið ég.
Þess vegna eru hryðjuverk framin þar sem margir koma saman og margir hafa verið. Okkur er öllum ætlað að hugsa að þetta hefðu einmitt getað verið við. Þótt fáir verði fyrir árásinni fáum við öll sjokkið.
Í sumar heimsótti ég svo London. Í ár hafa þar verið framdar fjórar hörmulegar hryðjuverkaárásir. Engu að síður var þar hvergi að sjá vopnaða hermenn eða lögreglumenn. Í London gekk lífið sinn vanagang. Hryðjuverkamennirnir fá ekki að breyta samfélaginu þar. Bretar hafa fyrir löngu áttað sig á að vopnvæðing veldur einkum vígbúnaðarkapphlaupi við fólk sem á alls ekki að eiga vopn og skapar falskt öryggi því það er alltaf hægt að gera árás annars staðar eða seinna eða með öðrum hætti.
Á Íslandi hefur lögreglan, með samþykki stjórnvalda, ákveðið að bera vopn þar sem margir koma saman. Án lýðræðislegrar umræðu hefur samfélagi okkar verið breytt þótt engin merki séu um að hryðjuverkaárás sé yfirvofandi eða að vopnaburður skili árangri við slíkar aðstæður. Ætlum við að samþykkja það?
Athugasemdir