Stundum flækist fyrir mér að hafa kosningarétt. Tilhugsunin ein um ábyrgðina æsir upp meðfædda taugaveiklun mína, sama þótt ég sé yfirleitt skráð sem höfuðborgarbúi og atkvæði mitt vegi ekki meira en fiðrildaprump. Í aðdraganda kosninga líður mér yfirleitt eins og nýbakaðri móður í hormónarússi af skelfingu yfir að bera ábyrgð á ósjálfbjarga manneskju.
Nú síðast tókst mér að mana fólk í kringum mig til að kjósa ýmist Bjarta framtíð eða Pírata í íslenska sendiráðinu í Berlín; studdi Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, á samfélagsmiðlum, pældi í Viðreisn í augnabliks óráðsíu og gældi við að veðja á Samfylkinguna. Ég var alveg í ruglinu, búsett í Berlín og á þeim tímapunkti skotnust í Angelu Merkel, íhaldssamri prestsdótturinni, þó að það meiki ekki sens í ljósi þessara afhjúpana.
Meðvirku fjölskylduboðin
Í kosningunum þar á undan gerði ég mig líka að fífli, féllst á að vera aftarlega á lista hjá flokki í einhverju kjördæminu sem ég man ekki lengur hvert var en kaus síðan annan flokk. Ég er pólitískt viðrini og það býður upp á leiðinda uppákomur þegar maður á vini í nokkrum flokkum og lendir reglulega í því að einhver verður sár út í mann fyrir að hafa sagt eða skrifað eitthvað einhvers staðar.
Nýlega keyrði um þverbak þegar ég frétti að þrír aðilar mér nákomnir hefðu allir verið samtímis sárir út í mig fyrir eitthvert pólitískt blaður en samt flokksbundnir í þremur ólíkum stjórnmálaflokkum.
Það má ekkert segja! kvartaði ég við vinkonu mína sem svaraði að bragði: Jú, en stundum er líka bara hægt að sleppa því.
Brot úr sekúndu var ég sammála og iðraðist – en sá svo að mér. Voðinn er vís þegar misskilin tilitssemi á að koma í veg fyrir skoðanaskipti, sama hversu vel meinandi vinir manns eru.
Lýðræði á að ganga út á að ólíkar skoðanir takist á en málið vandast þegar þrjú hundruð þúsund manneskjur eiga að láta lýðræðið fúnkera, því í flestum fjölskylduboðum er einhver sem studdi ekki frænda frænku sinnar í prófkjöri (eða eitthvað álíka) eða græddi á óförum afa síns í viðskiptaumhverfi sem virðist lúta svipuðum lögmálum og íslensk veðrátta.
Þurftafrekur karl
Fyrir einhverjum mánuðum síðan las ég pistil í þýsku tímariti þar sem höfundur hélt því fram að á tímum sem þessum væri ekki nóg að tjá sig um pólitísk álitamál á samskiptamiðlum heldur þyrfti fólk að ganga í stjórnmálaflokk til að taka þátt og hafa áhrif á hugmyndavinnuna og axla þannig ábyrgð í verki. Þessi pistill sat í mér og um tíma velti ég því í alvöru fyrir mér að ganga í stjórnmálaflokk – getur reyndar verið að ég sé skráð í fleiri en einn – og taka þátt í grasrótarstarfi, eins og hugmyndin um það birtist mér í rómantískum ljóma.
Vandinn er bara sá að um leið og kona mætir í jólahlaðborð eins stjórnmálaflokks frekar en annars er hún búin að skilyrða hugsanir sínar og líður svipað og þurftafrekum karli í fjölkvæniskúltúr sem á bara eina púrítanska eiginkonu. Einkvæni hlýtur þó að vera uppbyggilegra en fjölkvæni – gæti samt einhver bent á.
En í huga mínum er það að verða sjálfskipaður talsmaður stjórnmálaflokks versta hlutverk sem höfundur pistla um samfélagsmál getur lent í, múlbundinn öllu því sem gerist og gerist ekki innan raða flokksins. Skotheld aðferð til að missa allan trúverðugleika, sama hver og hvernig flokkurinn er, og í rauninni væri slíkt misnotkun á aðstöðu. Líka það að sneiða laumulega hjá því að fetta fingur út í einn flokk umfram aðra því þjónusta við flokk snýst ekki síður í því að sleppa að gagnrýna hann en að gagnrýna aðra flokka.
Undiralda hagsmunaafla
Skömmu eftir kosningar heyrði ég ýjað að því að sveimhugar og flautaþyrlar eins og ég ættu sinn þátt í að koma þessari ríkisstjórn til valda – fólk hér og þar sem gagnrýndi hitt og þetta hjá fleiri flokkum en bara Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Að ef sveimhugarnir hefðu nú bara getað sleppt því að gagnrýna passíva afgreiðslu búvörusamninganna (og smala þannig atkvæðum til Bjartrar framtíðar), hnýta í úrræðaleysi jafnaðarmanna eða ásaka heiðvirt fólk um popúlisma, þá væri staðan önnur og vænlegri og þessi ríkisstjórn, sem minnir mest á skrýtna skemmtinefnd í gaggó, aðeins draumur drukkins manns. Ég veit það ekki – kannski ...
Kannski ekki.
Persónulega trúi ég að fyrir utan eilífa sundrungu á vinstri og miðjuvæng stjórnmálanna ráði hyldjúp hagsmunaöfl mestu um pólitíska framvindu og þessi hagsmunaöfl virka á mann eins og þung undiralda í hinum svokölluðu fjórflokkum, þó að þeir hafi auðvitað náð að hreiðra misjafnlega vel um sig. Viðkvæmni stjórnmálamanna í ólíkum flokkum gagnvart því sem lýtur að samningum til sjávar og sveita ber því vitni. Í það minnsta fær maður stundum á tilfinninguna að samtryggingin eigi til að vera víðtækari og snerta fleiri svið en heppilegt þyki.
„Síðan þá hefur hvert vandræðamálið rekið annað og landslag fjölmiðlanna orðið ævintýralega dramatískt“
Bætt menning
En það þarf ekki að þýða að svarið felist fyrst og fremst í því að stofna nýja flokka, eins og lá í loftinu eftir hrunið og var látið reyna á. Um að gera að prófa það, allar þessar hræringar eiga kannski eftir að fæða af sér flokk með eitthvert bolmagn, eitthvað slíkt gerðist til dæmis í Frakklandi með sigurgöngu Macron. Hið óvænta gerist jú alltaf á endanum – en einhvern veginn finnst manni eins og nýlegar tilraunir með endurnýjun á Íslandi hafi byrjað með krafti en endað út í móa, að minnsta kosti hingað til.
Í árslok 2008 blasti við að það þyrfti að endurhugsa svo margt í samfélaginu. Fólk var upp til hópa sammála um að það þyrfti að huga að sjálfstæði fjölmiðla, gagnsæi og regluverki viðskiptanna, ábyrgð jafnt sem meintum siðferðisskyldum ráðherra og þingmanna, upplýsingagjöf, vanköntum á stjórnarskránni og svo má lengi upp telja.
Í stuttu máli sagt þurfti að bæta menningu stjórnmálanna. Bæta samspil stjórnmála, eftirlits og vandaðra fjölmiðla – þessara grunnstoða samfélagsins – strekkja á siðferðiskröfum og auka gagnsæi samvaxinna hagsmunaafla svo efla mætti neytendapólitík í takti við almenna vitund um umhverfið.
Eitthvað í þessum dúr frekar en að einblína á að skipta út gömlum flokkum fyrir nýja. En síðan þá hefur hvert vandræðamálið rekið annað og landslag fjölmiðlanna orðið ævintýralega dramatískt. Það hefur ekki tekist betur upp með að bæta menninguna en að boða nýja pólitík.
Eitt skref áfram, tvö aftur á bak
Auðvitað hafa ferskir vindar blásið með nýjum flokkum og ljáð samfélagsumræðunni raddir sem kröfðust einmitt nýrrar stjórnmálamenningar, samræðustjórnmála en líka nauðsynlegrar pólaríseringar eins og það er kallað, breytinga á stjórnarskrá og svo framvegis – en á sama tíma blasir við að tilraunir með nýja flokka síðasta áratuginn hafa ekki skilað miklu, eins og staðan er. Frekar að þær minni á frasann um að fara eitt skref áfram og tvö aftur á bak.
En pólitíska viðriðnið botnar reyndar lítið í stjórnmálum nútímans sem verða æ fáránlegri með hverjum deginum sem líður og langt í frá fáránlegust hér á landi. Raunar eru sviptivindar stjórnmálanna úti í heimi svo háskalegir, stórkarlalegir og ófyrirsjáanlegir að þessir ólíku stjórnmálaflokkar á Íslandi (en ýmsir þó um margt líkir, þrátt fyrir ólíkar áherslur í velferðarmálum) neyðast til að vera samtaka í að stuðla að betri siðum svo samfélagið geti siglt nokkuð öruggt milli skers og báru í alþjóðasamvinnu og heimi sem verður sífellt erfiðara að lesa úr einhvers konar framtíðarhorfur. Ef það er eitthvað sem við getum sameinast um að sé öruggt, þá er það óvissan.
Athugasemdir