Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að reyna að svara öllum þeim útúrsnúningum og rangfærslum sem á mér hafa dunið að undanförnu vegna þess sem ég hef sagt um málefni Róberts Downey og ákvörðun dómstóla um að fella niður sviptingu málflutningsréttinda hans.
Í Stundinni sendir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir mér opið bréf nýlega. Hér skal leitast við að svara því.
Sæl Þórdís!
Þú skrifar mér bréf þar sem mér sýnist þú aðallega vera að andmæla ábendingu minni um að fyrirgefning sé farsælasta leiðin fyrir þolendur afbrota til að vinna sig frá afbrotinu. Þetta finnst mér frekar skrítið vegna þess að erindi þitt snýst að verulegu leyti um að lýsa því, hvernig þér tókst að fyrirgefa manni sem hafði framið á þér gróft ofbeldisbrot og hlotið verðskuldaðan dóm fyrir. Mér finnst þú eiga aðdáun skilið fyrir það.
Í stað þess að benda á fyrirgefninguna á þann hátt sem ég gerði, hefði ég kannski átt að láta við það sitja að benda brotaþolum Róberts á að kynna sér mál þitt og skoða huga sinn um hvort þar væri að finna fordæmi sem gæti gagnast þeim.
Þegar ég segi að afstaða manna til þess er dómstólar felldu niður sviptingu á málflutningsleyfi mannsins einkennist af hatri vegna brota hans, er ég fyrst og fremst að vísa til almennrar afstöðu. Þessu er ekki sérstaklega beint að brotaþolunum eins og þú virðist telja. Ég skil vel að þeir beri haturshug til hans, þó að ég telji fyrirgefninguna betra úrræði, eins og reyndist verða raunin hjá þér Þórdís. Ummæli mín um þetta helguðust af því að engin „málefnaleg“ tengsl væru milli brotanna sem maðurinn var dæmdur fyrir og niðurfellingarinnar á sviptingunni. Það varð því að leita sérstakra skýringa á þessum ofsafengnu viðbrögðum frá fólki. Ég sá ekki skýringu aðra betri en að kalla þetta haturshug til hans. Vel má vera að einhverjir hafi talið að hann hafi átt skilið þyngri refsingu en hann hlaut. Það hefur hins vegar ekkert í sjálfu sér að gera með niðurfellingu sviptingar málflutningsleyfisins. Þú segir að „reiði“ hefði verið betra orð en „hatur“. Vera má að það sé rétt þó að munurinn sé frekar óljós. Þitt hugtak er vægara en það sem ég notaði. Ég geri ekki ágreining um það.
„Þessu er ekki sérstaklega beint að brotaþolunum eins og þú virðist telja. Ég skil vel að þeir beri haturshug til hans, þó að ég telji fyrirgefninguna betra úrræði, eins og reyndist verða raunin hjá þér Þórdís.“
Þú notar tilefnið til að veitast svolítið að þeirri skoðun minni, sem við ræddum á árinu 2010, að mannréttindareglan um að dæma ekki menn fyrir refsiverð brot nema sökin sannist eigi jafnt við um kynferðisbrot sem önnur brot. Það getur aldrei orðið nóg til sönnunar að kanna bara afstöðu brotaþola til brots og telja það þannig sannað þegar engum öðrum sönnunargögnum er til að dreifa. Ég vona að þú gerir ekki ágreining við mig um þetta, og minnir reyndar að sú afstaða hafi komið fram af þinni hálfu í umræðunum þá. Samt má vera að þú teljir að minna þurfi til að koma til sönnunar en ég tel. Krafan sem ég geri er sú sem kveðið er á um í lögum og stjórnarskrá, að sökin sé hafin yfir skynsamlegan vafa. Ég veit vel að beiting reglunnar kann að leiða til þeirrar slæmu niðurstöðu að sekir menn sleppi. Við höfum hins vegar tekið þá afstöðu, að þetta séu útgjöld sem við verðum að þola til að hindra þá ömurlegu niðurstöðu að saklaus maður verði sakfelldur. Aðrar þjóðir, sem eru okkur skyldar að menningu og lögum, virða þessa reglu. Ertu ósammála mér um að við verðum að gera það? Telur þú regluna annars efnis í málum sem varða sönnun kynferðisbrota heldur en annarra brota? Ef svo er hlýt ég að spyrja hvar sá munur liggi og hvar finna megi heimild fyrir honum í lögum.
„Ég hef í störfum mínum fyrir Róbert fengið vitneskju um afstöðu hans til brotanna og um atburði í hans lífi sem tengjast þeim. Ég er bundinn trúnaði um þetta.“
Ég hef í störfum mínum fyrir Róbert fengið vitneskju um afstöðu hans til brotanna og um atburði í hans lífi sem tengjast þeim. Ég er bundinn trúnaði um þetta. Hitt máttu samt vita að málið hefur valdið honum miklu þyngri búsifjum en fólust í fangelsisdóminum og afplánun hans. Það finnst þér og ýmsum öðrum kannski verðskuldað. Hitt ættu menn samt að muna að þar kemur fleira fólk við sögu, sem engan þátt átti í afbrotunum, þar sem er fjölskylda hans og börn. Það fólk hefur svo sannarlega mátt líða fyrir hina óvægnu umfjöllun, sem átt hefur sér stað, án þess að séð verði að það hafi notið mikillar samúðar.
Og Þórdís! Í guðs bænum ekki reyna að gefa í skyn að ég sé sérstakur varðmaður ofbeldismanna. Það er ég ekki og hef aldrei verið. Ég hef áreiðanlega ekki minni skömm á framferði slíkra en þú. Það tilheyrir reyndar lífsskoðun minni að einn maður megi aldrei taka sér vald yfir öðrum. Grófasta mynd slíks framferðis er beiting ofbeldis. Það hefur aldrei neitt komið fram sem leyfir þér eða öðrum að láta uppi skoðun í þessa átt. Heldur ekki þeirri mannvitsbrekku sem kallar mig „illa innrætt skítseyði“ í athugasemd við grein þína.
Athugasemdir