Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að fasttenging krónunnar við evru eða pund sé ekki á döfinni þrátt fyrir orð Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra um að slíkt sé til skoðunar. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg í dag þar sem rætt er við forsætisráðherra.
Haft var eftir fjármálaráðherra á vef Financial Times í gær að til skoðunar væri að tengja íslensku krónuna við annan gjaldmiðil. Fram kom að honum þætti „absúrd“ að tengja krónuna við Kanadadollara eða norsku krónuna, enda hafi gengi þeirra gjaldmiðla fallið meðan íslenska krónan hafi styrkst umtalsvert síðustu mánuði. Hins vegar mætti skoða valkosti á borð við að tengja krónuna við evru eða pund. Ríkjandi ástand í myntmálum væri óþolandi og breytinga þörf. Í viðtali við Bloomberg fréttastofuna í dag hafnar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra því alfarið að fasttenging krónunnar við annan gjaldmiðil sé á döfinni.
Athygli vekur að fyrirsögn fréttar Financial Times er “Iceland weighs plan to peg krona to another currency” en fyrirsögnin hjá Bloomberg fréttastofunni er “Iceland Won’t Peg Currency for the Foreseeable Future, PM Says”. Þá segir í frétt Bloomberg að Bjarni hafi lagt áherslu á kosti fljótandi gengis sem heppilegs fyrirkomulags til að hjálpa hagkerfum að aðlagast breyttum aðstæðum. Þetta bendi til þess að orð Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra endurspegli ekki sjónarmið yfirmanns hans, forsætisráðherrans (orðrétt: “suggesting the finance minister’s comments don’t necessarily reflect the views of his boss”).
Í viðtalinu við Bloomberg bendir Bjarni á að nefnd ríkisstjórnarinnar um endurskoðun peningastefnunnar leggi það til grundvallar vinnu sinni að íslenska krónan verði gjaldmiðill Íslands um fyrirsjáanlega framtíð.
Í viðtali við Benedikt Jóhannesson sem birtist á Eyjunni í dag segist hann bjartsýnn á að fram náist breytingar á fyrirkomulagi peninga- og gjaldmiðilsmála. „Já, ég er bjartsýnn á það. Við vorum að skipa nefnd um umgjörð peningastefnunnar. Hún mun vinna með sérfræðingum innanlands og utan að því yfirlýsta markmiði að finna leið til þess að auka gengisstöðugleika. Ef þetta er mögulegt þá finnur þessi hópur leið.“ Í sama viðtali segir hann vel hægt að hugsa sér tengingu krónunnar við aðra mynt eða myntkörfu. Það er ekki í boði að sögn Bjarna.
Athygli vakti þegar ný ríkisstjórn var mynduð í janúar að málefni Seðlabankans voru færð úr fjármálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið. Í kosningabaráttunni hafði Viðreisn lagt mikla áherslu á mynt- og peningamál og annað sem snertir Seðlabankann með beinum hætti. Við stjórnarmyndunina komu flokkarnir sér þó saman um að Bjarni Benediktsson færi áfram með þennan málaflokk þrátt fyrir að hann færi yfir í annað ráðuneyti.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar er samband Benedikts Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar afar stirt. Þann 13. mars síðastliðinn tókust frændurnir á í þingsal. Benedikt gagnrýndi harðlega hvernig staðið var að aflandskrónuuppboði í fjármálaráðherratíð Bjarna. Bjarni svaraði gagnrýninni og sagði um eftiráspeki að ræða. Í síðustu viku sagði Bjarni að hann vildi ekki að fram færi frekari rannsókn á einkavæðingu bankanna upp úr aldamótunum, en Benedikt lýsti gagnstæðri skoðun. „Svar mitt er einfalt. Jú, það er ástæða til að ljúka rannsókn á þessu ferli,“ sagði hann á Alþingi. Það hvernig stjórnarherrarnir tala nú í kross í erlendum fjölmiðlum er enn ein vísbendingin um að gjá hafi skapast á milli þeirra.
Athugasemdir