Hópur evrópskra leiðtoga lýstu í dag yfir stuðningi sínum við Danmörku eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ítrekaði áhuga á að innlima Grænland.
Leiðtogar Frakklands, Bretlands, Þýskalands, Ítalíu, Póllands og Spánar, auk Danmerkur, sögðu að fullveldi, landhelgi og friðhelgi landamæra væru „algildar frumreglur“ sem þeir muni „halda áfram að verja“.
Hernaðaríhlutun Washington í Venesúela hefur vakið aftur ótta um áform Trumps varðandi Grænland, sem býr yfir ónýttum sjaldgæfum jarðmálmum og gæti orðið mikilvægur þátttakandi þegar heimskautaísinn bráðnar og nýjar siglingaleiðir opnast.
Grænland er á stystu flugskeytaleiðinni milli Rússlands og Bandaríkjanna og Bandaríkjaher er þegar með herstöð þar.
Þar sem ástandið í Venesúela er meira aðkallandi, sagði Trump léttúðugur á sunnudag að „við munum hafa áhyggjur af Grænlandi eftir um það bil tvo mánuði“. Þá sagðist hann vilja ræða Grænland eftir 20 daga. Ráðgjafi Trumps, Stephen Miller, sagði í viðtali við CNN í nótt að Bandaríkin færu með valdið í NATO og að enginn myndi berjast gegn þeim tækju þau Grænland yfir.
Í sameiginlegri yfirlýsingu evrópsku leiðtoganna sagði: „Öryggi á norðurslóðum er áfram forgangsmál fyrir Evrópu og er mikilvægt fyrir alþjóðlegt og Atlantshafsöryggi.“
„NATO hefur gert ljóst að norðurskautssvæðið er forgangsmál og evrópskir bandamenn eru að byggja sig upp.“
„Við og mörg önnur bandalagsríki höfum aukið viðveru okkar, umsvif og fjárfestingar til að halda norðurslóðum öruggum og fæla andstæðinga frá.“
Þeir lögðu áherslu á að Danmörk – þar með talið Grænland – væri hluti af NATO.
„Öryggi á norðurslóðum verður því að tryggja sameiginlega, í samvinnu við bandamenn NATO, þar á meðal Bandaríkin, með því að halda í heiðri meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal fullveldi, landhelgi og friðhelgi landamæra,“ sögðu leiðtogarnir.
„Þetta eru algildar frumreglur og við höldum áfram að verja þær.“
Yfirlýsingin var undirrituð af Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Emmanuel Macron, forseta Frakklands, Friedrich Merz, kanslara Þýskalands, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands og Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar.
Þeir bættu við að Bandaríkin væru „nauðsynlegur samstarfsaðili í þessu verkefni“.
„Grænland tilheyrir þjóð sinni. Það er á valdi Danmerkur og Grænlands, og þeirra einna, að ákveða mál sem varða Danmörku og Grænland,“ sögðu þeir.


















































Athugasemdir (1)