Logi Einarsson, menningar,- nýsköpunar og háskólaráðherra, tilkynnti í dag aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla.
Meðal þeirra tuttugu aðgerða sem hann hyggst leggjast í eru að um 12 prósent hluti auglýsingatekna RÚV verði látinn renna til annarra fjölmiðla. Þá verði allt auglýsingafé umfram tiltekið hámark látið renna óskipt í sama stuðningsumhverfi. Er þetta til viðbótar við það fjármagn sem þegar rennur til einkarekinna fjölmiðla.
Sagði Logi að þessi leið væri talin best til þess fallin að tryggja að auglýsingafé rynni ekki úr landi og skilaði sér til annarra fjölmiðla.
Enn fremur hefur ráðuneyti Loga og fjármálaráðuneytið ákveðið að hefja vinnu um hvernig megi létta af rekstri RÚV kostnaði vegna eldri lífeyrisskuldbindinga.
Hvati til að sinna almannaþjónustuhlutverki
Meðal annarra aðgerða eru að almennur stuðningur við fjölmiðla verði hækkaður umtalsvert og fyrirsjáanleiki aukinn. Frumvarp til laga um þetta verði lagt fram á vorþingi 2026 og komi strax til framkvæmda.
Enn fremur verði stuðningur aukinn við fjölmiðla sem sinni almannaþjónustuhlutverki, til dæmis með því að stunda fjölbreyttan, daglegan fréttaflutning sem nær yfir landið allt og hefur ákveðinn fjölda blaðamanna í vinnu. „Þetta er ekki til að styðja bara við þá sem þegar gera þetta, heldur sem hvati til annarra að stefna í þessa átt,“ sagði Logi.
Til að sporna við þeim auglýsingatekjum sem renna í æ ríkari mæli til alþjóðlegra tæknifyrirtækja svo sem samfélagsmiðla segist Logi hafa litið til aðgerða sem önnur ríki hafa gripið til. Þetta sé þó flókið að takast á við. Því verði þó beint til ráðuneyta og undirstofnana ríkisins að beina auglýsingakaupum sínum til fjölmiðla, frekar en samfélagsmiðla.













































Athugasemdir