Erlendir ferðamenn sem heimsækja þjóðgarða í Bandaríkjunum, þar á meðal Miklagljúfur og Yellowstone, þurfa nú að greiða hátt aukagjald, að því er ríkisstjórn Trumps tilkynnti í dag.
Innanríkisráðuneytið, sem rekur hina rómuðu þjóðgarða Bandaríkjanna, sagði að frá og með árinu 2026 þurfi gestir erlendis frá að greiða 100 dollara (13 þúsund krónur) til viðbótar við aðgangseyri hvers garðs til að komast inn á 11 af vinsælustu áfangastöðunum í kerfinu.
Kostnaður við árspassa í alla garðana mun á sama tíma meira en þrefaldast í 250 dollara (32 þúsund krónur) fyrir þá sem ekki eru búsettir í landinu.
„Forysta Trumps forseta setur bandarískar fjölskyldur alltaf í fyrsta sæti,“ sagði Doug Burgum innanríkisráðherra í yfirlýsingu.
„Þessar reglur tryggja að bandarískir skattgreiðendur, sem þegar styðja við þjóðgarðakerfið, njóti áfram aðgangs á viðráðanlegu verði, á meðan alþjóðlegir gestir leggja sitt af mörkum til að viðhalda og bæta garðana okkar fyrir komandi kynslóðir.“
Þjóðgarðarnir 63, sem lengi hafa verið taldir gimsteinn í bandarískri ferðaþjónustu, fá hundruð milljóna gesta á ári – tæplega 332 milljónir árið 2024, samkvæmt Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna.
Staðlað verð á „America the Beautiful“-passa, sem veitir ótakmarkaðan aðgang í eitt ár, er nú 80 dollarar (10 þúsund krónur) fyrir alla kaupendur. Gjaldið mun því þrefaldast fyrir útlendinga.
Fyrir dagsheimsóknir rukka sumir garðar gjöld miðað við ökutæki og aðrir miðað við einstakling – árspassinn gildir fyrir alla farþega auk passahafans, eða allt að fjóra fullorðna.
Einstaklingar sem ekki eru búsettir í Bandaríkjunum og kaupa árspassa þurfa ekki að greiða 100 dollara aukagjaldið við inngang í mest heimsóttu garðana, þar á meðal Everglades í Flórída, Acadia í Maine og Yosemite í Kaliforníu, en það gjald mun eiga við um alla aðra erlenda gesti.
Aðdragandinn er að Donald Trump forseta gaf út forsetatilskipun í júlí, sem ætlað var að „vernda“ garðana fyrir „bandarískar fjölskyldur“. Tilskipunin leiðir af sér verulegan aukakostnað fyrir flesta útlendinga, en bandarískir ríkisborgarar og fastir íbúar verða ekki fyrir áhrifum.
„Þeir sem ekki eru búsettir í landinu munu greiða hærra gjald til að styðja við umhirðu og viðhald garða Bandaríkjanna,“ stóð í yfirlýsingu innanríkisráðuneytisins.
Ráðuneytið lagði einnig áherslu á „þjóðrækna gjaldfrjálsa daga“ fyrir íbúa sem myndu fela í sér Forsetadaginn, Uppgjafardaginn og afmælisdag Trumps, sem ber einmitt upp á árlegan fánadag, 14. júní.
Flestir þjóðgarðar í Bandaríkjunum veita aðgang án greiðslu. Um einn af hverjum fjórum rukkar fyrir aðgang og er þá gjarnan um margra daga passa að ræða. Kostnaðurinn í þeim vinsælustu er gjarnan frá 20 til 35 dollurum, eða um 2.500 til 4.500 krónur, fyrir hverja bifreið til sjö daga.


















































Athugasemdir